145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[16:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Skattaskjól eru fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum. Þeir sem nota skattaskjól gera það til að komast hjá því að greiða til fulls skatta af tekjum sínum og eignum. Einkenni skattaskjóls eru skattleysi eða lágir skattar, leynd og ógagnsæi. Helsta málsvörn þeirra sem nota skattaskjól er að segja að þeir gefi eignir sínar og tekjur sem skráðar eru í skattaskjólum upp til skatts í heimalandi sínu. Það er engin leið að sannreyna þá fullyrðingu, engar upplýsingar er að fá í skattaskjólunum um það og það er einmitt leyndin sem virðist vera eftirsóknarverð fyrir þá sem leita í skjólin.

Allar ríkisstjórnir í vestrænum löndum segjast vera andvígar starfsemi skattaskjóla og vilja beita sér gegn þeim, m.a. á vegum OECD. Ísland hefur skrifað undir slíkan sáttmála og hæstv. ráðherrar hafa staðfest í þessari umræðu að Ísland muni taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um málið. Staða okkar er samt sú að bæði fyrrverandi forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra landsins hafa nýtt sér skattaskjól og leynt því fyrir þingi og þjóð. Þátttaka íslenskra stjórnmálamanna í notkun skattaskjóla sem lekinn frá Panama hefur þegar opinberað dregur upp þá mynd að íslenskir stjórnmálamenn séu gráðugir og spilltir og til í að láta aðra bera sinn hlut í ríkisrekstrinum. Það er sorglegt.

Jafnaðarmenn um allan heim eru að stíga fram og berjast fyrir banni á skattaskjólum og viðurlögum ef bannið er ekki virt. Kallað er eftir gildum jafnaðarmanna um réttlæti og samstöðu og fólki sem ræður við það að berjast gegn slíkri spillingu. Pólitísk átök munu fylgja því að uppræta skattaskjól því að hagsmunir þeirra ríku eru miklir og þeir munu standa saman og segja að það hafi ekkert upp á sig að banna skjólin. Þá röksemd höfum við reyndar heyrt í þessum sal frá hæstv. fjármálaráðherra sem sjálfur hefur nýtt sér skattaskjól.

Afsögn hefði verið óhjákvæmileg alls staðar annars staðar í Vestur-Evrópu — en ekki á Íslandi og það er áhyggjuefni því að það segir til um siðgæði og kröfur til stjórnmálamanna hér á landi.

Frú forseti. Panama-skjölin benda til þess að Íslendingar séu óvenjumiklir notendur erlendra skattaskjóla. Í ljós hefur komið að meðal eigenda aflandsfélaga eru aðilar sem hafa fengið háar fjárhæðir afskrifaðar í bönkum í kjölfar falls þeirra haustið 2008. Þá eru einnig dæmi um að kröfur á þrotabú bankanna hafi verið vistaðar í aflandsfélögum. Háar fjárhæðir hafa borist til landsins í gegnum gjaldeyrisútboð Seðlabankans og eigendur fengið verulega ábót. Um þessi viðskipti ríkir trúnaður sem aðeins opinber rannsókn getur aflétt. Með því að bera saman þessa hópa má að líkindum fá mynd af umfangi vandans og eðli hans. Allir sem hafa nýtt sér aflandsfélög eru tortryggðir vegna þess hver tilgangur og markmið félaganna eru um leynd og skjól. Sú tortryggni er í þessum sal en hún er líka um allt samfélagið.

Af umfjöllun fjölmiðla má skilja að í sumum tilvikum sé um að ræða eignamyndun sem ekki verður skýrð með heiðarlegum viðskiptum. Stofnuð hafi verið eignarhaldsfélög hér á landi gagngert í því skyni að skuldsetja þau. Lánsfé hafi svo verið fært til aflandsfélaga án þess að um nokkur viðskipti hafi í raun verið að ræða og jafnvel reynt að hylja slóðina með flóknum millifærslum. Allt er þetta þó rekjanlegt og má með opinberri rannsókn leiða í ljós. Við skulum ekki gleyma því að eignarréttur myndast ekki með auðgunarbrotum.

Í öðrum tilvikum getur verið um að ræða skattsniðgöngu og jafnvel skattsvik. Skattsniðganga mun tíðkast víða og felur í sér að leitað er eftir því að vista eignir og tekjur þar sem skattlagning er lægst. Slíkt mun ekki vera ólöglegt en grefur engu að síður undan samfélögunum líkt og skattsvik. Í öðrum tilvikum er um að ræða að tekjum sé komið undan skatti með tilefnislausum kostnaðarreikningum. Þessi mál eru mikilvæg og virðast vera stór og þau verður að upplýsa. Íslensk þjóð getur ekki unað því að fólk í forréttindastöðu gerist eins konar yfirstétt í landinu á grundvelli auðgunarbrota. Það verður aldrei friður um það í samfélaginu.