145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:18]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þessa umræðu og jafnframt þakka ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir skýrslu hans og að greina frá fyrirhuguðum aðgerðum stjórnvalda. Svo vil ég taka undir með hæstv. utanríkisráðherra, sem gerði grein fyrir baráttu okkar Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi gegn skattaskjólum, um að við tökum forustu í þessum efnum og mörkum hér enn fastari stefnu.

Hér á vettvangi þingsins hefur jafnframt undanfarna viku verið mjög gagnleg og uppbyggileg umræða. Ég vil taka undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur um að hún hefur þróast til hins betra og ekki er hægt að segja annað en að viðbrögðin á Alþingi hafi verið sterk og endurspeglað má segja að einhverju marki viðbrögðin í samfélaginu við gagnaleka Panama-skjalanna. Bæði höfum við þurft að fara yfir hugtök og skilgreiningar á ýmsu sem snýr að þeirri starfsemi sem heyrir til aflandsfélaga og skattaskjóla og ná utan um þá starfsemi og hvað í henni felst. Skattaskjól, eins og nafnið dregur reyndar nokkuð skýrt fram, byggja á því að leynd hvílir yfir starfsemi félaga, leynd yfir rekstri og eignarhaldi, og það er leyndin sem er vandamálið, virðulegi forseti, það hefur komið mjög skýrt fram í þessari umræðu. Hún býður upp á að slík félög fái að starfa óáreitt innan lögsögu þeirra svæða sem slíka þjónustu bjóða og greiði lægri eða enga skatta og gefur um leið þessum félögum færi á því að komast undan þeirri skyldu að greiða til samfélagsins. Með þeim hætti grefur það auðvitað undan velferðarsamfélaginu.

Það fer heldur ekkert á milli mála, virðulegi forseti, þrátt fyrir að legið hafi fyrir um langa hríð að slík starfsemi sé til staðar, að það er að eiga sér stað vakning hér á landi í það minnsta, mögulega að einhverju marki fyrr erlendis, um að skattundanskot séu ekki umborin eða liðin með nokkrum hætti. Það að einhverjir sjái sér hag í því að komast hjá því að greiða viðhlítandi skatta til samfélagsins til að standa undir velferð og grunnþjónustu og tilvist aflandsfélaga ýtir undir svarta starfsemi og alls kyns ólöglega starfsemi. Aflandsfélög eru í raun og veru kjörinn vettvangur fyrir ólöglega starfsemi á borð við eiturlyfjaviðskipti, peningaþvætti og hryðjuverkastarfsemi, alls kyns óprúttna starfsemi sem er okkur mögulega oft á tíðum fjarlæg. Um leið veikir starfsemi slíkra aflandsfélaga alla almenna uppbyggingu grunnþjónustu og velferðar, það liggur fyrir, hún eykur ójöfnuð og kemur jafnframt í veg fyrir leiðir til að vinna að jöfnuði og að þær leiðir virki, skekkir alla heilbrigða samkeppni og kemur niður á félögum og fyrirtækjum sem stunda opinn og gagnsæjan rekstur.

Það sem er slæmt og er kannski að afhjúpast núna er hversu brenglað viðhorf og gildismat hefur verið gagnvart þessu hingað til. Ég held að orð skattstjóra á opnum fundi með hv. efnahags- og viðskiptanefnd um þessi mál, þessa starfsemi, segi mikla sögu. Svo ég vísi hér í vef Morgunblaðsins þann dag sem þessi fundur átti sér stað, með leyfi forseta:

„Ríkisskattstjóri hefur ítrekað á undanförnum áratug reynt að vekja athygli á þeim vandamálum sem tengjast skattaskjólum en upplifir sig oft eins og hrópandann í eyðimörkinni í þeim efnum.“

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þessi orð skattstjóra segja ansi mikla sögu um viðhorfið og kannski það að samfélagið hafi að einhverju leyti lokað augunum fyrir alvarleika þessa máls. Ég held að það sé afar jákvætt að hér sé að verða vakning og viðhorfsbreyting. Þá höfum við séð upplýsingar og fréttir af stórfyrirtækjum og fjölþjóðlegum fyrirtækjum sem hafa nýtt sér skattaskjól og tekjuflutninga yfir í félög í slíkum skjólum á milli landa í þeim tilgangi að lækka skattgreiðslur sínar og oft eiga í hlut fátækari þjóðir heimsins þar sem verið er að nýta lægra launað vinnuafl. Ég spyr bara: Hvernig má það vera að við höfum látið svoleiðis hluti líðast í svo langan tíma?

Þess vegna fagna ég allri þeirri umræðu sem hefur átt sér stað og þeim viðbrögðum sem hafa orðið í alþjóðasamfélaginu og jafnframt hér, ekki bara á Alþingi heldur úti í samfélaginu öllu og í umfjöllun fjölmiðla, ekki má gleyma því í þessum mikla gagnaleka. En um leið er afar mikilvægt að orðum og orðræðu, ekki bara gagnvart skattaskjólum og aflandsfélögum heldur gagnvart skattundanskotum almennt, fylgi aðgerðir, breytingar, raunverulegar breytingar, breytingar á reglum og lögum og eftirliti, sem við þurfum að efla enn frekar, alþjóðleg samskipti þar sem upplýst er um slíka starfsemi og aðgerðir sem miða að því að uppræta skattundanskot og starfsemi skattaskjóla.

Það hefur þó komið fram að það er ekki þannig að hingað til hafi ekkert verið gert. Yfirvöld hafa gripið til aðgerða gegn þessari starfsemi og hæstv. ráðherra hefur ítrekað og farið yfir í dag þær aðgerðir sem farið hefur verið í á undanförnum missirum. Flestar snúa þær að upplýsingaskiptum á alþjóðlegum vettvangi.

Ég hygg að við þurfum að skoða enn frekar hverju við getum breytt í lögum heima fyrir. Þess vegna fagna ég boðuðum starfshópi og aðgerðum stjórnvalda á þeim vettvangi. Það er einkum tvennt í því samhengi, það er annars vegar að meta áhrif og umfang af þessari starfsemi, að við áttum okkur á því hvaða áhrif hún hefur á samfélag okkar og að hve miklu marki hún grefur undan velferðarkerfinu, en ekki síður til að við getum mælt árangurinn af þeim aðgerðum sem við erum að fara í. Ég legg áherslu á það, virðulegi forseti, í ljósi allrar orðræðunnar og þess hugarfars sem speglast hér þverpólitískt um að vinna gegn þessari starfsemi og skattundanskotum almennt, að við náum virkilegum árangri. Þess vegna fagna ég öllum aðgerðum sem koma fram í skýrslu hæstv. ráðherra fjármála- og efnahagsmála og þeim orðum hæstv. utanríkisráðherra að marka enn fastari stefnu á þessu sviði.