145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mjög alvarleg mál og ekki í fyrsta skipti. Það er mikilvægt að við fylgjum þeim eftir, að umræðan verði ekki einungis tekin út af fjölmiðlum heldur sé þetta gert af fullri alvöru. Mér finnst hins vegar að menn missi svolítið sjónar á aðalatriði málsins þegar menn ræða það og noti það frekar í pólitískum tilgangi í stað þess að reyna að ná raunverulegum árangri og tala um málið út frá þeim forsendum. Hér eru mjög stór orð látin falla.

Mér finnst rétt og fyndist skynsamlegt að menn mundu skoða málið í því samhengi sem það hefur verið í. Ég vil vekja athygli á því að það fór hér af stað. Menn tala um að við eigum heimsmet í notkun aflandsfélaga. Ég veit ekki hvort það er rétt. Ég hef bara ekki hugmynd um það. Eftir því sem ég best veit hefur mjög lítið af upplýsingum komið fram. Það er einungis um að ræða þessa einu skrifstofu. En þetta er búið að vera í gangi mjög lengi, lengur annars staðar en hér. Þetta hófst hér árið 2000, eftir því sem ég best veit, þegar ríkisbankinn, Landsbankinn, hóf að kynna þessa þjónustu. Þá var þetta ríkisbanki, þá voru pólitískir fulltrúar í stjórninni, ég veit ekki til þess að um það hafi verið pólitískar deilur, hvorki innan stjórnar né í pólitíkinni. Sá sem stýrði þessu, og það er rekið ágætlega í bókinni Andersen skjölin, sem allir ættu að kynna sér, varð síðan forstjóri Fjármálaeftirlitsins á síðasta kjörtímabili. Þar voru heilsíðuauglýsingar þar sem farið var yfir þessi mál.

Ég veit ekki af hverju menn vilja gera lítið úr því vegna þess að ef við komumst að þeirri niðurstöðu að aflandsfélög séu eitthvað sem við viljum alls ekki hafa, þá þarf náttúrlega fyrst að skilgreina hvað aflandsfélög eru, síðan þurfa menn að ganga á undan með góðu fordæmi. En árið 2003 stofnaði Landsvirkjun dótturfélagið Icelandic Power Insurance Ltd. Félagið var skráð á Bermúda og hefur öðlast leyfi til tryggingastarfsemi á alþjóðlegum markaði. Tilgangur félagsins — þetta er í bæklingi Landsvirkjunar — er fyrst og fremst að sjá um eigin tryggingar Landsvirkjunar og hafa umsjón með þeim. Félagið sér bæði um tryggingar á núverandi aflstöðvum Landsvirkjunar og framkvæmdatryggingu á þeim verkefnum sem í gangi eru á hverjum tíma. Icelandic Power Insurance kaupir síðan endurtryggingar hjá viðurkenndum endurtryggjendum með framangreindu fyrirkomulagi. Er stefnt að því að heildarkostnaður vegna trygginga Landsvirkjunar verði lægri en annars yrði. Þetta kemur fram í ársskýrslu Landsvirkjunar árið 2003.

Menn hugsa kannski: Heyrðu, þetta er svo langt síðan. Mér finnst síðan áhugavert að vita, af því menn tala mjög digurbarkalega núna, hvort þetta hafi verið aflagt á síðasta kjörtímabili. Það væri gott að fá að vita það af því að hér tala menn um tvískinnung og hræsni. Er það ekki tvískinnungur og hræsni ef ríkisfyrirtækið Landsvirkjun er með tryggingar, með viðskipti með Bermúda-félag, að menn tali hér eins og þeir tala í dag? Er það ekki tvískinnungur og hræsni?

Fyrir nokkrum mánuðum síðan — þetta var undir forustu Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar og Pírata — var ákveðið í stjórn Orkuveitunnar að stofna aflandsfélag um tryggingarnar. Það var ákveðið þar. Er það ekki tvískinnungur og hræsni? Ég spyr, virðulegi forseti. Þar kemur fram í gögnum sem ég er með frá Orkuveitunni að það sé gert til þess að lækka kostnaðinn vegna þess að í Guernsey séu greiddir miklu lægri skattar. Þetta er opinbert fyrirtæki sem stýrt er af þeim flokkum sem hér eru í stjórnarandstöðu, sem tala með þeim hætti sem ég þarf ekki að endurtaka hér, það hafa allir hlustað á þessa ræðu. Ég spyr: Er það ekki tvískinnungur og hræsni? Ég held að allir sem skoða þetta mál spyrji að því.

Eins og allir Íslendingar vil ég að umræðan verði sem jákvæðust um Ísland. Hún hefur ekki verið það af góðri ástæðu að undanförnu. Mér fannst skynsamlegt hjá Samfylkingunni að fá hingað virtan erlendan prófessor frá London School of Economics, John Kay, til þess að ræða þessi mál. Hvað sagði hann? Hann sagði það skipta miklu máli að fara varlega og skilja á milli þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru í þessum ríkjum í heiðarlegum tilgangi annars vegar og hins vegar í þeim tilgangi að svíkja undan skatti eða þvætta peninga. Þetta sögðu ekki þingmenn stjórnarflokkanna. Þetta er ekki Íslendingur. Þetta er prófessorinn sem Samfylkingin fékk til landsins til þess að ræða þessi mál.

Næsta spurning er: Erum við sammála þessari fullyrðingu eða ekki? Það er grundvallarspurning.

Ég spurði nokkra hv. stjórnarandstöðuþingmenn um þetta. Þeir voru sammála um að þetta væri rétt. Þeir voru sammála John Kay. Ef menn eru sammála honum, af hverju menn þá alltaf að ýja að einhverju öðru, t.d. gagnvart hæstv. fjármálaráðherra? (SSv: Spurðu OECD.) Af hverju eru menn að því? Hér kallar hv. þm. Svandís Svavarsdóttir: Spurðu OECD. Hvert er símanúmerið hjá OECD? Er það með kennitölu eða hvað? (SSv: Farðu á ja.is.) Þetta er auðvitað bara kjánaskapur. Menn taka málið ekki alvarlega með svona kjánalegum frammíköllum.

Það er ekki trúverðugt, kannski er það tvískinnungur og hræsni þegar menn hinum megin við Vonarstræti stofna aflandsfélög, þegar menn voru hér í ríkisstjórn síðast (SSv: Var það samþykkt, Guðlaugur?) og með stjórn á Landsvirkjun, með stjórnarmenn í Landsvirkjun og hafa ekki barist gegn þessu aflandsfélagi sem enn er í gangi. Ef það er þannig að núverandi stjórnarandstaða hafi hætt með aflandsfélagið á síðasta kjörtímabili eru það fréttir. (Gripið fram í.) Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er algjörlega að fara á taugum yfir þessari ræðu. Hví skyldi það vera? Hér er ég að ræða um að Landsvirkjun stofnaði aflandsfélag og eftir því sem ég best veit er hún enn með aflandsfélag á Bermúda um tryggingar sínar. Ég veit ekki til þess að menn hafi lagt það niður á síðasta kjörtímabili.

Ég held að óhætt sé að segja að sá fyrrverandi stjórnarþingmaður á síðasta kjörtímabili sem barðist harðast gegn því sé Lilja Mósesdóttir, sem er ekki lengur á þingi. Það er áhugavert að rifja upp hvernig tekið var á móti Lilju Mósesdóttur af þingmönnum þáverandi stjórnarflokka og tilraunum hennar til þess að aflétta leynd af ýmsum hlutum, t.d. eignarhaldi. Það væri líka áhugavert að rifja það upp hvernig tekið var í fyrirspurnir um það hverjir ættu þrotabúin og þar af leiðandi íslensku bankana. Um það er hægt að lesa í bókinni Bylting og hvað svo? þar sem Lilja Mósesdóttir fer ágætlega yfir það. Fyrir þá sem áhuga hafa á málinu væri prýðilegt að fara yfir það og meta það síðan hvort hér sé kannski eitthvað um tvískinnung og hræsni að ræða. Kannski er eitthvað um tvískinnung og hræsni að ræða hjá núverandi stjórnarandstöðu sem stýrði málum á síðasta kjörtímabili.

Ég hef líka spurt, og ekki fengið mikið af svörum, þá aðila sem vilja annaðhvort gangast við því eða segjast vilja sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það sækir enginn um aðild að Evrópusambandinu nema vilja ganga í Evrópusambandið, alla vega ekki í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Að vísu veit ég ekki um neitt land nema Ísland þar sem menn sækja um aðild að Evrópusambandi til að kanna hvað er í boði. Það er upplifun að reyna að útskýra það fyrir erlendum ráðamönnum að umræðan sé með þeim hætti á Íslandi, en látum það liggja milli hluta.

Ég hef spurt hvort menn séu búnir að endurskoða afstöðu sína til Evrópusamstarfsins, því að það er nokkuð sem við hljótum að ræða. Þau viðskipti sem verið er að sýna fram á í Panama-skjölunum fara meira og minna fram í gegnum kjarnaríki Evrópusambandsins, Lúxemborg. Reyndar er það þannig að formaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins var lengi og forsætisráðherra þar og er e.t.v. arkitekt yfir því kerfi sem þarna er um að ræða, í það minnsta hefur hann komið mjög mikið að því.

Ég segi þetta ekki til þess að tala niður baráttuna gegn skattsvikum og ég tel svo sannarlega eðlilegt að allt sé uppi á borðum varðandi eignarhald fyrirtækja. Það er ekkert nýtt að ég tali þannig. Það sem ég vek athygli á hér er að við getum ekki gert þetta ein. Við þurfum að vinna með öðrum ef við ætlum að ná raunverulegum árangri, að því gefnu að við viljum halda í prinsippin um að hafa frjálst flæði fjármagns og fólks eins og gengur á innri markaðnum. Það eru bara staðreyndir sem liggja fyrir. Við getum talað með einhverjum öðrum hætti en það eru bara staðreyndir sem liggja fyrir. Menn hafa alla vega talað um að þeir vilji halda í þá hluti. Ég held að erfitt væri að hafa það samfélag sem við erum með núna ef við mundum breyta því.

Ég vek líka athygli á því að við erum nú ekki alveg ein þegar kemur að þessum vanda. Í vef RÚV 12. apríl síðastliðinn var frétt sem bar fyrirsögnina „Danmörk: Panama norðursins?“ Þar var gerð skýrsla þar sem dönsku samlagsfélögin voru skoðuð. Niðurstaðan var sú að Danmörk væri Panama norðursins og að þar væru m.a. glæpahringir og aðrir að þvætta peninga í gegnum hin dönsku samlagsfélög. Ég ætla ekki að lesa í gegnum alla skýrsluna en vitnað er í Jonas Dahl sem er fyrrverandi ráðherra skattamála. Þar segir, með leyfi forseta:

„Dahl hefur lesið skýrsluna og kemst að þeirri einföldu og skýru niðurstöðu að Danmörk sé orðin að Panama norðursins. Danir noti félög í eigin landi til að komast hjá skattgreiðslum, sem sé hið versta mál. „Við í Danmörku erum afar óánægð með að fólk sé að nota Panama til að koma sér undan því að borga skatt í Danmörku. Og nú sjáum við að þessi samlagsfélög eru notuð af til dæmis austur-evrópskum fyrirtækjum, sem nota þau til að koma sér hjá því að borga skatta á sínum heimaslóðum.“

Síðan er farið nokkuð nákvæmlega yfir þetta.

Ég er enn þá svolítið upptekinn af því sem breski hagfræðingurinn John Kay, sem kom hér í boði Samfylkingarinnar, var að tala um. Af hverju? John Kay segir að að hluta til hafi flókið regluverk í fjármálaheiminum gefið skattundanskotum aflandsfélaga byr undir báða vængi. Á visir.is er haft eftir honum, með leyfi forseta:

„Stór hluti af starfsemi á aflandsfélaga er knúinn áfram af regluverki um slíka starfsemi sem er allt of flókið og fjármálageiranum er gert að sæta. Hugmyndafræðin að baki regluverksins gengur ekki upp. Regluverkinu er ætlað að kveða á um reglur um fjármálahegðun fólks. Fólk reynir að sniðganga þessar reglur og þær verða sífellt flóknari. Við eltum því skottið á okkur þannig að það verður enginn endir á þessu. Ég vil að við einbeitum okkur að uppbyggingu atvinnugreinarinnar og þeirri hvatningu sem snýr að fólkinu í greininni. Við eigum að gera mun minna af því að semja reglur um hegðun fólks.“

Þetta segir John Kay, sem var boðið hingað af Samfylkingunni til að ræða nákvæmlega þessi mál.

Ég er alveg sammála því og tel að við ættum að fara í þá vinnu. Umhverfið í fjármálageiranum er allt of flókið. Það er líka allt of áhættusamt. Hverjir bera áhættuna ef illa fer? Því miður ekki eigendurnir heldur skattgreiðendur þessa lands.

Ég vonast til þess að tilefnið sem varð til þess að umræðan fór á fullt verði til þess að við berum gæfu til að standa saman að því að vinna að raunverulegum úrbótum. Þá verðum við að hlusta á mann eins og John Kay og við verðum að ganga í málið og fara alla leið og koma að kjarna vandans en ekki einungis að vera að ræða þetta með upphrópunum.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur farið yfir það hvernig við höfum komið að og verið í fararbroddi ríkja við að reyna að uppræta þetta á þessu kjörtímabili og kjörtímabilunum á undan, ekki bara á því síðasta heldur líka þar áður. Upplýsingasamskipti eru náttúrlega alveg grundvallaratriði. Ég hef saknað nokkuð í umræðunni að menn komi fram með sínar hugmyndir ef þeim finnst ekki nóg að gert eða eru með betri hugmyndir. Ég tel að það ætti að vera útgangspunkturinn í umræðunni að við værum einmitt að velta upp því hvað getum við gert til þess að ganga lengra, hvað getum við gert til þess að ná betri árangri. Mitt innlegg í því er að við eigum að hlusta á John Kay, sem var boðið hingað til lands af Samfylkingunni. Mér er alveg sama, þó að ég sé ekki hrifinn af þeim flokki held ég það hafi verið skynsamlegt af þeim. Það sem ég hef séð frá þeim manni finnst mér vera skynsamlegt og það er augljóst að maðurinn þekkir þessi mál mjög vel.

Síðan er það spurning líka, virðulegi forseti, hvar og hvernig við getum tekið þetta upp á erlendum vettvangi. Ég nefndi tvö lönd sem talað hefur verið um sem skattaparadísir, sem eru nágrannaríki okkar, þ.e. Lúxemborg og Danmörk, ég vísa í það að Danir kalla Danmörku Panama norðursins. Þó að það séu nú nokkuð stór orð held ég að þar sé augljós gloppa. Við þekkjum líka ríki eins og Kýpur og Möltu. Allt eru þetta lönd sem eru í Evrópusambandinu og innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við erum samkvæmt þeim samningum sem við höfum undirgengist þar í miklu samstarfi við þessi ríki og munum ekki breyta því nema ganga úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Við höfum líka verið of lítið gagnrýnin á það regluverk sem við höfum fengið frá Evrópusambandinu þegar kemur að fjármálageiranum. Við höfum trúað því að búið sé að úthugsa það fyrirkomulag og höfum tekið við því. Kannski komumst við ekki hjá því að taka það allt saman. Fjármálakerfi okkar er meira og minna byggt upp af regluverkinu í Evrópusambandinu, en við þurfum að líta til þess með miklu gagnrýnni hugsun en við gerum núna. Við þurfum að skoða augljósa hluti eins og að aðskilja fjárfestingarbanka og viðskiptabanka, en almenna reglan er sú að við ættum að reyna að ganga þannig fram að við höfum ekki áhættuna af þeirri áhættusömu starfsemi í fanginu á skattgreiðendunum. Ég vona að við förum í þá vinnu og ræðum það af fullri alvöru.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekkert að því að menn gagnrýni hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafi ekki gengið nógu langt og komið með aðrar hugmyndir og annað slíkt, en mér finnst það vera nokkuð ódýrt þegar menn koma hér tala um tvískinnung og hræsni eins og þeir hafa gengið fram t.d. gagnvart fyrrverandi hv. þm. Lilju Mósesdóttur, eins og þekkt er. Menn hafa þá ekki farið í það að uppræta þau aflandsfélög sem hið opinbera er með nú þegar og þeir samþykktu það í stjórn Orkuveitunnar fyrir stuttu að stofna aflandsfélög með því markmiði að lækka kostnað. Ég held að menn ættu aðeins að spara stóru orðin hvað það varðar.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra sé búinn að stofna þennan vinnuhóp og ég treysti því að þegar niðurstaða kemur úr þeirri vinnu förum við vel yfir það í þingsal og ekki síður í hv. þingnefnd, en við eigum ekki að binda það við skattsvik þegar kemur að aflandsfélögum. Við þurfum eðli málsins samkvæmt að berjast gegn skattsvikum alveg sama hvar þau eru. Því miður vitum við að svört atvinnustarfsemi er stunduð á mörgum sviðum. Þegar hún er stunduð þýðir það einfaldlega að aðrir þurfa að bera byrðarnar, þ.e. þeir sem standa skil á sínum sköttum og gjöldum.

Ég tek undir með þeim sem hér hafa rætt það sérstaklega að það skipti máli að vinnuhópurinn sé með vítt umboð, þannig að við lítum þá til einhverra þátta sem ekki eru mikið í umræðunni núna og fara þar af leiðandi kannski fram hjá okkur, því að eðlið er alltaf hið sama þegar skattsvik eru annars staðar. Við eigum að berjast gegn þeim, virðulegi forseti.