145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[17:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra skýrsluna og hv. þingmönnum umræðuna sem hér hefur farið fram, umræðu sem annars vegar snýst um fortíðina, enda þurfum við að nota tækifærið og læra af henni, en hins vegar snýst umræðan um það hvernig við vinnum að þessum málum til framtíðar því að þar getum við virkilega haft áhrif. Það er kannski enn þá brýnna að við leggjum áherslu á það því að fortíðinni breytum við ekki úr þessu.

Það sem hefur komið mér hvað mest á óvart síðan ég hóf störf á Alþingi er hversu mikið vantar upp á að umgjörð fjármálakerfisins sé eins og þeir sem gerst þekkja til telja nauðsynlegt þrátt fyrir gríðarlega mikla vinnu á síðustu árum, bæði í alþjóðasamfélaginu og innan lands. Það er líka umhugsunarefni, eins og komið hefur verið inn á í umræðunni, hversu lengi við getum haldið áfram að móta flókið umhverfi og regluverk um fjármálakerfið sem í rauninni engir hafa tækifæri til að átta sig á nema þeir sem starfa í kerfinu. Hinn almenni notandi sem þarf á þjónustu fjármálakerfisins að halda hefur engin tækifæri til að setja sig inn í málin.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir núna, að taka á þeirri þróun sem hefur verið um heim allan að flytja fjármagn til aflandsfélaga, er alþjóðlegt. Alþjóðlega þarf að vinna markvisst að gagnsæi. Gagnsæi er lykilorðið, virðulegi forseti, í þeirri vinnu sem fram undan er og þannig að mögulegt sé að miðla upplýsingum milli ríkja til að skattgreiðslur skili sér til þeirra ríkja þar sem arður verður til. Við Íslendingar verðum því að koma með öflugum hætti inn í það alþjóðastarf sem fram fer á þessu sviði og hæstv. utanríkisráðherra Lilja Alfreðsdóttir gerði grein fyrir áðan. Við Íslendingar höfum líka tækifæri eins og stundum áður til að beita okkur og vera í forustu í alþjóðlegri vinnu. Meðal annars það hversu smá við erum gefur okkur oft tækifæri til að greina vandann í okkar smáa þjóðfélagi og miðla þeirri þekkingu út í alþjóðasamfélagið.

Það er því mjög jákvætt eins og farið hefur verið í gegnum hér í dag að búið sé að móta ramma um markvissa vinnu, bæði í stjórnsýslunni og á vegum löggjafans, til að greina stöðuna og vinna og móta reglur til framtíðar. Það er mjög mikilvægt að í þeirri vinnu verði unnið þvert á flokka á Alþingi og að sérfræðingar úr stjórnsýslunni og sú vinna sem fer fram á vegum löggjafans sé vel samhæfð þannig að hvorir um sig vinni sjálfstætt en miðli upplýsingum eftir því sem tækifæri gefast.

Með þeim þingsályktunartillögum og verkefnum sem hafin eru á vegum nefnda þingsins liggur fyrir að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, utanríkismálanefnd og efnahags- og viðskiptanefnd munu fara í ítarlega vinnu til að kynna sér möguleg viðbrögð við þeim vanda sem til staðar er. Það tryggir að margir þingmenn hafa tækifæri til að kynna sér málin til hlítar.

Þó að vinnan sé fyrst og fremst alþjóðleg og á alþjóðavísu þurfum við að horfa til þess hvar við getum gripið til breytinga á löggjöf innan lands. Í umræðunni hér fyrr í vikunni og síðastliðinn föstudag hafa neikvæð áhrif aflandsfélaga verið dregin skýrt fram en ég velti fyrir mér hver hvati íslensku bankanna hafi verið á sínum tíma til að beina öllum þessum íslensku viðskiptavinum í þann farveg að stofna félög í þeim tilgangi að flytja fé til aflandsfélaga. Það hlýtur að hafa verið einhver viðbótarhvati fyrir fjármálastofnanirnar og einstaka ráðgjafa að draga m.a. fjölda heiðarlegra fyrirtækja inn í það umhverfi sem þrífst í kringum þessi aflandsfélög því að það er auðvitað mikilvægt fyrir fjármálastofnanir sem sýsla með illa fengið fé að draga líka að fé sem fengið er með eðlilegum viðskiptaháttum.

Ég sé tækifæri og það sem við ættum fyrst að bregðast við innan lands er að setja skýran ramma um starfsemi fjármálafyrirtækja og ráðgjafa sem starfa á þessum vettvangi þannig að við getum verið nokkuð viss um að ekki sé verið að beina félögum í þennan farveg í dag.

Virðulegi forseti. Það má lengi halda áfram að ræða þessi mál og ég trúi því að við eigum, eins og ég hef rakið, eftir að ræða það í þingnefndum og væntanlega oftar hér í þingsal.