145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

[13:38]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við höfum nú rætt þetta efni áður undir mismunandi ljóskerjum. Það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni er rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu sem allir eru í grunninn sammála um að þurfi að vera. Deilan og þrasið snýst um rekstrarformið, hvort þetta eigi að vera í útboði. Eins og kröfulýsingin er gerð fyrir útboðið þá er gert ráð fyrir því að opinber stofnun geti rekið stöðvarnar eða félag í meirihlutaeigu heilbrigðisstarfsmanna. Það er boðið upp á það. Ég reikna með því að við fáum einhver tilboð í þann rekstur. Meginatriðið er og það sem meginmáli skiptir er að kröfulýsingin mun gilda um rekstur allra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og sama greiðslufyrirkomulag fyrir þær sömuleiðis.

Þetta hefur ekki verið svona og við höfum verið með rekstur Lágmúlastöðvarinnar og Salastöðvarinnar í einkarekstri. Mér vitanlega fór sú umræða ekkert inn í þingsali þegar það var gert. Samningurinn við Salastöðina, sem er afspyrnu vel rekin og góð starfsemi, var og hefur verið endurnýjaður burt séð frá pólitískum áherslum. Að mínu mati og mati fagfólks í kerfinu er kallað eftir meiri sveigjanleika í rekstrarformi heilsugæslustöðvarinnar. Það er verið að mæta þeim óskum og við skulum sjá hvort það skili okkur ekki því, eins og m.a. forsvarsmenn heimilislækna hafa haldið fram, að það verði endurnýjun og sérstaklega að yngra fólk, sem hefur kosið sér starfsgrundvöll (Forseti hringir.) erlendis, sæki í það að koma hingað heim.