145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

einkarekstur í heilbrigðisþjónustunni.

[13:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég heyri það á hæstv. ráðherra, og þakka honum fyrir svörin, að hann telur ekki að þetta mál eigi að fara fyrir þingið þó að fram hafi komið í máli hans, sem rétt er og ég er sammála um, að hér sé um grundvallarbreytingu að ræða.

Það er verið að ræða grundvallarbreytingar á því hvernig eigi að reka heilsugæsluna. Það er verið að taka upp algjörlega nýtt kerfi. Þó að það sé svo og það er alveg rétt að hæstv. ráðherra hafi heimildir til þess að taka þessa ákvörðun, þá tel ég að það væri mun eðlilegra og lýðræðislegra að Alþingi fengi tækifæri til að ræða þetta, m.a. út frá því sem ég ræddi áðan að þetta er umdeilt í samfélaginu og mörgum spurningum er ósvarað, til að mynda um arðgreiðslurnar sem ég kom inn á áðan.

Ég spyr því hæstv. ráðherra, ef þetta er stefnumál hæstv. ráðherra og þar með hans flokks, Sjálfstæðisflokksins, og það er stutt í kosningar, hvort þá sé ekki bara eðlilegt að setja málið í dóm kjósenda og Sjálfstæðisflokkurinn geri það bara að sínu kosningamáli að breyta þessu kerfi svona ef ekki er vilji til þess að (Forseti hringir.) fara með það inn á þing. Því að annaðhvort þarf Alþingi eða almenningur að koma að þessari ákvörðun og leggja mat á hana.