145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

upplýsingar um reikninga í skattaskjólum.

[13:56]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég átti eitt sinn hlut í félagi á slíku svæði. Ég hef ekki verið með neina reikninga eða geymt fé á slíku svæði, svo hv. þingmaður sé nú leiðréttur hér í upphafi.

Það sem hagfræðingarnir sem vísað var til hafa verið að benda á er nokkuð augljóst: Það er enginn ávinningur fyrir nokkurn mann (Gripið fram í.) þegar horft er á málið frá þjóðhagslegu sjónarhorni að verja það að menn komist upp með að hylja yfir skattsvik, að styðja skattsvik, að skapa umhverfi þar sem peningaþvætti þrífst og þar sem menn koma ávinningnum af ólögmætri starfsemi fyrir og geta skotið honum undan skattlagningu. Það eru engin rök til til þess að réttlæta þetta. Og viðbrögðin sem þjóðir hafa almennt gripið til eru af þeim toga sem við höfum verið að vinna að. Ég mun á næstu dögum kynna frekari aðgerðir í sérstöku frumvarpi. Við höfum í þessu þingi rætt um (Forseti hringir.) það sem við erum með á prjónunum, starfshópa til að meta umfang þessa vanda og frekari aðgerðir.