145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[14:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt. Verið er að gera grundvallarbreytingar bæði í greiðsluþátttökukerfinu og í starfsemi heilsugæslunnar og samskiptum hennar og sérfræðiþjónustunnar í landinu með þessu frumvarpi.

Þá er fyrst til að taka að greiðsluþátttökukerfin í íslensku heilbrigðisþjónustunni eru með þeim hætti að þau eru margir tugir, hátt í 40 greiðslukerfi sem enginn sér í gegnum. Það er almennt viðurkennt að núverandi fyrirkomulag tryggir ekki okkar veikasta fólk.

Hvað gerum við í því? Jú, við reynum að breyta kerfinu á þann veg að tryggingakerfið haldi utan um okkar veikustu sjúklinga. Það erum við að gera með þessu. Það hefur alla tíð legið fyrir og ég hef aldrei legið á þeirri skoðun minni að ég hef gengið í þetta verk undir þeim skilmálum að reyna að búa til kerfi þannig að það falli að þeim fjárhagsramma sem þingið hefur sett um þessi mál.

Ég deili alveg þeirri skoðun með fólki að það væri þægilegra og betra á allan hátt og mýkra til þess að koma því í gegn að við hefðum rýmri fjárheimildir. En þetta er það sem heilbrigðisráðherrann hefur úr að spila og innan þess ramma vinnur hann.

Varðandi þjónustustýringuna tel ég löngu tímabært að við reynum að koma einhverri stjórn á það með hvaða hætti kostnaður verður til, hvar hann verður til í íslenska heilbrigðiskerfinu og á hvaða forsendum. Ég held að við deilum ekki um að þetta er búin að vera áralöng umræða en hefur raunverulega aldrei komist lengra en þetta. Og þó. Við erum komin með frumvarp sem gerir ráð fyrir því að mögulegt sé að beita tilvísunum við að lækka kostnað barna upp að 18 ára aldri. Við það ætla ég að standa.

Þegar athugasemdir heilsugæslunnar koma fram lítur hún algjörlega fram hjá því, að mér virðist, í þeirri umsögn sem hún sendi inn að við gerum þó (Forseti hringir.) ráð fyrir því að við bætist þrjár nýjar heilsugæslustöðvar í rekstri. Það hefur ekki gerst í rúman áratug þrátt fyrir umtalsverða fjölgun íbúa á starfssvæði heilsugæslunnar.