145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

greiðsluþátttaka sjúklinga.

[14:09]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það á að vera hægt að treysta á það að viðkomandi fagráðherra berjist fyrir málaflokkinn og fjármögnun á honum. Það hef ég að minni hyggju skammlaust gert. En fjárlagavaldið liggur ekki í ráðuneytum, hjá framkvæmdarvaldinu. Fjárlagavaldið liggur hjá þinginu. Við megum aldrei draga neina dul á það.

Þegar hv. þingmaður segir að þetta stafi að hluta til af því að Landspítalinn hafi á undanförnum mörgum árum þurft að reyna að fjármagna starfsemi sína með þessari gjaldtöku þá kann það að vera rétt. Ég hef ekki skoðað breytinguna í gjaldtökunni hjá Landspítalanum í gegnum tíðina. Ég veit þó að það hefur verið mjög umdeilt mál núna síðustu dægrin eða missirin sem lýtur að gjaldtöku sjúklinga á bráðadeildum. Það mál er til skoðunar í ráðuneytinu og við gerðum ákveðnar athugasemdir við það og erum að bíða eftir skýringum Landspítalans á þeirri gjaldtöku.

Þegar hv. þingmaður segir að það væri æskilegt að heilbrigðisþjónustan væri ókeypis og að við töluðum oft í þá veru, þá er rétt að sú umræða er annað slagið uppi. Í dag er þátttaka heimila í heilbrigðiskostnaði á Íslandi um 18,2%, hefur verið að lækka jafnt og þétt, hægt og bítandi síðustu árin. Við erum enn þá yfir Danmörku, Svíþjóð og Noregi en Finnland er undir okkur, þar greiðir fólk meira. Ég veit ekki til þess og hef ekki séð það neins staðar, í það minnsta ekki á starfssvæði OECD eða í þeim þjóðríkjum sem það tekur til, að heilbrigðisþjónusta eða hlutdeild almennings í heilbrigðisþjónustuútgjöldum sé núll. Það lægsta sem ég hef rekist á var annaðhvort í Frakklandi eða Bretlandi þar sem hún var um 6,5%. Þannig að ég veit ekki um neitt land þar sem heilbrigðisþjónustan er ókeypis. (Forseti hringir.) Ég er ekki að væna hv. þingmann um að ræða á þeim nótum, en það hefur stundum borið á því í umræðunni í þessum sal (Forseti hringir.) að menn vilji stefna á það. Þá er það bara sérstök umræða sem við verðum að taka (Forseti hringir.) algjörlega á sínum forsendum.