145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:39]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Kveikjan að þessari umræðu er ályktun Veiðifélags Laxár og Krákár sem birtist fyrir skömmu. En árið 2010 var verndarsvæði Laxár og Mývatns á appelsínugulum lista samkvæmt umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Árið 2012 var svæðið sett á rauðan lista og hefur verið þar síðan. Margt hefur áunnist og verið rannsakað, en betur má ef duga skal.

Af sjálfu leiðir að verði ekki brugðist við mun vistkerfinu hnigna svo allt og allir munu tapa. Fuglarnir hætta að koma, ferðamennirnir hætta að koma og byggð raskast. Það er allt undir og átaks er þörf að reisa kerfið við. Annað væri óábyrgt. Þess vegna reynir á að sýna skynsemi í umræðunni, ekki leita að sökudólgum heldur að meta stöðuna og komast að niðurstöðu.

Rannsóknir hafa markvisst farið fram á lífríki Mývatns síðan 1974. Miklar sveiflur hafa orðið í lífríki svæðisins bæði af náttúrulegum og mannanna völdum. Það skortir hins vegar á að rannsaka betur vistspor mannsins á svæðinu. Það er lykilatriði að rannsaka ágang mannsins á umhverfið því að það er sú stærð sem við þekkjum og getum auðveldlega ráðið við.

Það er engin áætlun til þess að fara eftir til þess að bregðast við. Íbúar svæðisins, sveitarstjórnarfólk, landeigendur og við öll stöndum frammi fyrir því að taka ákvarðanir um framhaldið. Í fyrsta lagi þarf að vinna bug á þeim gamla hugsunarhætti að lengi taki hafið við. Í öðru lagi þarf að skoða, kortleggja og leysa frárennslismál við Mývatn. Þá reynir á hæstv. fjármálaráðherra að setja fé í verkefnið sem er samvinnuverkefni.

Ég tel að það sé samstaða meðal heimamanna um aðgerðir og við eigum að nýta þann samtakamátt.

Ég mundi jafnframt fagna því ef ráðherra ferðamála tæki frumkvæði í þessu erfiða máli með fjárframlagi.

Um leið þetta: Fámennt sveitarfélag sem háð er ýmsum skilyrðum getur ekki eitt og sér staðið undir þeim kostnaði sem til fellur. Heimamenn þurfa aðstoð við úrlausn málsins. Um leið verða sveitarstjórnir sem fara með valdið á svæðinu að sýna ábyrgð, t.d. þegar kemur að úthlutun lóða og varðandi kröfur um ýmsar byggingar ef yfir höfuð ætti að leyfa slíkar byggingar á þessum stað, samanber skilyrði við Þingvallavatn.

Í kjölfarið þurfum við svo að taka umræðuna enn lengra, t.d. varðandi vegarstæðið á hringveginum. Ímyndum okkur nú að fulllestaður olíubíll færi út af við Kálfastrandarvoga.