145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:46]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Já, það er komin upp alvarleg staða við Mývatn, eina helstu náttúruperlu okkar. Ég mundi setja Mývatn í flokk með þjóðargersemum eins og handritunum okkar. Slík verðmæti eru þar á ferðinni. Ómetanleg.

Það er augljóst að bregðast verður hratt og örugglega við þeirri stöðu sem upp er komin. Við gætum séð fram á það, ef ekki verður skorist í leikinn strax, að allt lifandi í vatninu deyi, með tilheyrandi áhrifum á náttúru og fuglalíf.

Samkvæmt því sem vísindamenn segja hefur orðið gjörbreyting í lífríki Mývatns á síðustu 10–12 árum vegna hinnar svokölluðu blágrænu bakteríu. Menn deila svo um hvað er af mannavöldum og hvað er af náttúrulegum orsökum. Það skiptir engu máli, ef við getum komið í veg fyrir það sem er af mannavöldum og minnkað áhrifin af því þá eigum við að gera það.

Sjónir beinast fyrst og fremst að frárennslismálum og landbúnaðarmálum og ljóst er að setja þarf upp nýtt hreinsikerfi fyrir byggðina í Reykjahlíð. Áætlað er að það kosti 300 millj. kr. og að rekstrarkostnaður á ári verði um 10 millj. kr. Skútustaðahreppur getur engan veginn staðið undir þeim kostnaði og þá verður ríkið að koma að málinu.

Fara verður fram á að þau hótel sem verið er að byggja við Mývatn uppfylli strangar kröfur um hreinsibúnað af frárennsli. Einnig verður að gera slíkar kröfur til þeirra hótelbygginga sem eru þar nú þegar.

En dugar þetta? Það er alveg óljóst. Það þarf að auka rannsóknir og vöktun á vatninu. Ég skora á þingheim að standa saman í að afstýra þessu náttúruslysi. Málið er brýnt og ég vil að hafist verði handa strax og af fullum þunga. (Forseti hringir.) Ég vil að stofnaður verði sérstakur aðgerðahópur embættismanna, vísindamanna og heimamanna án tafar. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)