145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

staða Mývatns og frárennslismála.

[14:50]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og undirtektir hv. þingmanna og brýningar, og tek undir með síðasta ræðumanni. Það hefur kristallast hér pólitískur vilji til þess að ríkið komi að lausn málsins og geri það strax.

Ég vil segja í fyrsta lagi um eflingu rannsókna og vöktunar að það snýst fyrst og fremst um fjármuni og mannskap. Það snýst ekki um fyrirkomulag, stjórnunarfyrirkomulag. Það má allt saman leysa. Í öðru lagi vil ég segja að ég veit að sveitarstjórn Skútustaðahrepps tekur ábyrgð sína mjög alvarlega í þessum efnum. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps, sú sem nú situr, er mjög metnaðarfull í umhverfismálum og vill sjá farsæla úrlausn þessara mála. Ég hef ástæðu til að ætla að sveitarstjórn Skútustaðahrepps muni ekki veita framkvæmdaleyfi fyrir frekari uppbyggingu á vatnsbakkanum nema tryggt sé að frárennslismál verði þá í lagi, í fyrsta flokki hvað það snertir. Auðvitað rekur það á eftir því að taka á þessu máli að menn geti þá sameinast um aðgerðir af því tagi.

Það er rétt. Skýrslurnar draga ekki fram einhvern einn orsakavald, en margt bendir til að aukið álag af völdum mannsins og mikillar ferðamennsku sé samverkandi þáttur ásamt e.t.v. hlýnun veðurfars og að eitthvert jafnvægi hafi raskast, sem leiðir m.a. til þess að auðgunin og þörungablóminn, leirlosið eins og heimamenn kalla það, er orðið stjórnlaust í vatninu og mengar vatnið og Laxá til sjávar.

Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að ráðherra getur ekki einn og sér ákveðið fjárveitingar, en ráðherra hefur tillöguvald. Erindið liggur fyrir og hefur gert það í ár og í fyrra hjá ráðherra og fjárlaganefnd. Ráðherra getur lagt til við félaga sína í ríkisstjórn og okkur á Alþingi að við ákveðum tafarlaust að gera það sem gera þarf nú í vor, að heita Skútustaðahreppi 150–170 millj. kr. framlagi í fyrsta áfanga frárennslismálanna og 10–20 millj. kr. í efldar rannsóknir og úrvinnslu gagna. Það er það sem þetta snýst um. (Forseti hringir.) Verum ekkert að gera málin flókin. Er hæstv. ráðherra tilbúin til að koma með slíkar tillögur fram? Hún hefur stuðning (Forseti hringir.) hér í þinginu. Það liggur fyrir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)