145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[14:55]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir að fá þessa umræðu í þinginu. Hún er enn sem fyrr tímabær þó að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem málið ber hér á góma. Öryggismál ferðamanna á Íslandi brenna enn einu sinni á okkur og að þessu sinni vil ég ræða málið í ljósi þeirrar ríkisfjármálaáætlunar sem var lögð fram og kynnt hér í síðustu viku. Eins og við höfum áður rætt reynir fjölgun ferðamanna mikið á ýmsa innviði á borð við vegakerfið, löggæsluna, björgunarsveitirnar og heilbrigðisþjónustuna. Slysatíðni ferðamanna eykst stöðugt og dauðaslysum er tekið að fjölga í umferðinni til viðbótar við þann vanda sem við höfum áður rætt sem er slys á ferðamannastöðum, uppi á fjöllum, í jökulsprungum, við brimgarða Reynisfjöru o.s.frv. Þess vegna hefur ákaft verið kallað eftir aðgerðum hins opinbera til að styrkja þá innviði sem nú eru við það að bresta undan álagi. Ábyrgðin er yfirstjórnar ferðamála í landinu og þó ber ríkisstjórnin frumábyrgð. Ríkisstjórnin hefur legið undir ámæli fyrir ákveðið ráðaleysi í þessum málaflokki og málið ítrekað verið tekið upp hér.

Þess vegna vakti það vonir í marsmánuði þegar lögð var fram aðgerðaáætlun Stjórnstöðvar ferðamála um úrbætur á völdum stöðum og vörslu og umferðareftirlit. Að vísu fylgdu ekki fjármunir þeim fréttum en tíðindin lofuðu góðu svo langt sem þau náðu. Það næsta sem gerðist var að í síðustu viku var lögð fram í þinginu ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára þar sem gert er ráð fyrir að dregið verði mjög úr fjárfestingum og framkvæmdum á tímabilinu samhliða áframhaldandi niðurskurði hjá hinu opinbera. Þar er beinlínis tekið fram að samdrátturinn muni bitna á samgöngukerfinu. Sú stefnumörkun sem fjármálaáætlun ríkisins birtir er auðvitað enn eitt tilefnið sem okkur gefst til að viðra áhyggjur okkar af stöðu ferðamála í landinu og þá sérstaklega með tilliti til öryggis ferðamanna. Öllum er ljóst að samgönguinnviðirnir munu ekki halda í við álagið því að umferð ferðamanna veldur miklu sliti á vegum og aukinni slysahættu.

Það er líka staðreynd að í landinu hefur á síðustu árum hlaðist upp mikil fjárfestingar- og framkvæmdaþörf. Í hruninu neyddust stjórnvöld til þess að draga saman seglin og frá þeim tíma hefur opinber fjárfesting dregist saman um 47%. Þess vegna hlýtur það að vera mikið áhyggjuefni núna þegar þjóðarbúið virðist vera að rétta úr kútnum að fram skuli koma ríkisfjármálaáætlun til næstu fimm ára þar sem boðaður er áframhaldandi niðurskurður og hefting opinberra framkvæmda. Auðvitað spyr maður sig þá hvaða áhrif það muni hafa á þau áform sem þegar hafa verið kynnt í öryggismálum ferðamanna og þá ekki síst vegna samgöngukerfisins því að hættan er mest á vegum landsins.

Þetta er áhyggjuefnið, virðulegi forseti, sem ég vildi færa í tal við hæstv. ráðherra. Í nýlegri skýrslu sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram um ferðamál má sjá hvernig ólokin verkefni hrannast upp. Þau voru orðin 122 á síðasta ári en verkefnin sem lokið var við á síðasta ári voru ekki nema þriðjungur þess sem tókst að ljúka árið 2013. Með öðrum orðum hafa verið lögð fram fróm áform í orðum en hinar raunverulegu áætlanir um framkvæmdastigið næstu fimm árin segja aðra sögu. Það er ástæðan fyrir því að taka málið upp og ræða við ráðherrann um framvinduna. Þá mætti jafnvel hugleiða í því samhengi það sem drepið var á í fyrri umræðu, þ.e. tekju- og fjármögnunarleiðir ferðaþjónustunnar, hugmyndir um auðlindagjald eða auðlindasjóð til að auðvelda t.d. sveitarfélögunum að takast á við þetta mikla og aukna álag sem er ekki að fara neitt frá okkur og síst að minnka.