145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:11]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar mikilvægu umræður. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra hefur sagt, auðvitað þyrftum við líka að hafa hæstv. innanríkisráðherra hér og jafnvel hæstv. heilbrigðisráðherra því að þessi málaflokkur kemur inn á svo mörg ráðuneyti. Öryggismálin hafa þó verið í brennidepli. Það var gerð skýrsla, mig minnir 2012, sem því miður endaði ofan í skúffu. Ef ég ætti að gagnrýna fyrri ríkisstjórn fyrir eitthvað fannst mér hún kannski setja svolítið mikið púður í að markaðssetja landið. Ég hefði viljað setja peninga í öryggismálin. Mér finnst ekkert endilega markmið að fá sem flesta ferðamenn til landsins heldur að við getum tekið á móti þeim og að landið beri fjöldann. Við erum í raun ekki tilbúin í þann fjölda sem hingað kemur.

Varðandi öryggismálin hef ég miklar áhyggjur af löggæslunni á vegum úti. Við vitum að ferðamenn frá sumum löndum eru gjarnan ekki í bílbelti. Þeir eru óvanir að keyra á okkar vegum og þekkja ekki einu sinni merkingarnar eins og kom í ljós í umræðu um slys á einbreiðri brú. Mér finnst það mikið áhyggjuefni ef merkingar hér eru þannig að erlendir ferðamenn skilja ekki einu sinni að þeir eru að koma inn á hættulegan kafla. Mætti ekki bara vera upphrópunarmerki á rauðum grunni eða eitthvað annað en eitthvert séríslenskt merki sem þýðir einbreið brú sem við þekkjum og vitum jafnvel hvar er? Það er ekki að sjá að það eigi að bæta í löggæslu miðað við fjárlög og fjármálaáætlun. Það er gríðarlegt áhyggjuefni. Núna í sumar ættu þjóðvegir landsins að vera fullir af lögreglu sem hefur eftirlit og fylgist með of hröðum akstri, bílbeltanotkun, fólki að keyra undir áhrifum og þar fram eftir götunum. Sektirnar af því mundu í raun skila sér (Forseti hringir.) í ríkissjóð. Þetta er allt of stuttur tími en ég þakka fyrir þessa umræðu.