145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég get ekki hafið þessa umræðu án þess að hafa orð á því hvað það fer gífurlega í taugarnar á mér að hér haldi þingstörf áfram eins og ekkert hafi í skorist. Við bíðum eftir því að meiri hlutinn á þingi nái einhverri sátt við minni hlutann um það hvernig eigi að halda áfram þingstörfum og klára þetta þing, hvort heldur það verður svo framhald í ágúst eða ekki. Ég hlýt að eyða einum fjórða af tíma mínum í það að mótmæla því að ekki sé reynt að ná sátt við okkur þannig að þingið geti kannski náð einhverri sátt við fólkið sem við erum að þjóna í þessu húsi.

Hæstv. ráðherrann sem talaði fyrr í þessu máli hefur farið fyrir þessum málaflokki í þrjú og hálft ár og þreytist ekki á að segja okkur hvað þetta sé flókið og hvað þarna komi margir að og það þurfi að samræma þetta og samræma hitt. Það er ekkert nýtt í veröldinni að samræma þurfi vinnu ráðuneyta eða samræma vinnu fólks almennt. Það virðist frekar standa á því að hér gerist nokkuð. Menn tala mikið og menn skrifa skýrslur. En síðan gerist ekki neitt.

Mig langar til að nefna þann mun sem getur verið á öryggi ferðamanna og það er t.d. öryggi þeirra ferðamanna sem ferðast í hópferðabílum og hinna sem eru á bílaleigubílum. Ég vil beina því til hæstv. ráðherra hvort ekki væri rétt að gera einhverja sérstaka herferð á hendur bílaleigunum um að þær gefi upplýsingar, þær séu með góð kort og þær sjái til þess að fólk fari ekki út á (Forseti hringir.) vegina á nánast óökufærum bílum miðað við aðstæður.