145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:23]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu eins og fleiri sem hafa tekið til máls hér í dag. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og sjaldan er góð vísa of oft kveðin þegar við tölum um öryggismál og ferðamál á Íslandi. Það er alveg ljóst, þrátt fyrir falleg orð hjá hæstv. ráðherra um að mikið sé í gangi og verið að vinna mikla vinnu, sem ég hef enga ástæðu til að vefengja, að ástandið í þessum málaflokki er mjög slæmt og mjög alvarlegt. Eins og hefur komið fram í máli ráðherrans eru þessi mál öllsömul á forræði fleiri ráðherra; heilbrigðisráðherra, innanríkisráðherra og svo ráðherra ferðamála. En kannski er ástandinu best lýst með áskorun sem okkur þingmönnum barst í dag frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Þar skora þeir á Alþingi að bregðast hratt og örugglega við þeirri grafalvarlegu stöðu sem er komin upp í sjúkraflutningum á Suðurlandi og leggja til að verulega aukið fjármagn verði lagt til þessara sjúkraflutninga. Þeir lýsa í bréfinu einmitt miklum áhyggjum af því gríðarlega álagi sem er orðið á sjúkraflutningamönnum.

Nú er ég að tala um kjördæmi okkar ráðherrans sem mér finnst bara allt í lagi af þessu tilefni því að þetta er það kjördæmi sem tekur við langflestum ferðamönnum. Ástandið í kjördæminu er mjög alvarlegt. Ef ekki verður gripið strax inn í líst mér ekki á stöðuna. Af 16 dauðsföllum í umferðinni á síðasta ári voru sex á Suðurlandi. Það kemur fram í þessu bréfi að heildarfjöldi sjúklinga síðan 2011 hefur aukist um tæp 50%, fjöldi bráðaútkalla um 90% og vegalengd ekinna kílómetra líka um 90%. Einn af hverjum sjö sjúkraflutningum tengist erlendum ferðamönnum.

Ég sé ekki að í fjármálaáætlun sé gert ráð fyrir að það eigi að mæta þessu. Það er alveg ljóst að það horfir mjög til vandræða hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hvað varðar sjúkraflutninga á þessu ári ef ekki verður bætt verulegu fjármagni inn. Ef fjármagni verður ekki bætt inn í sjúkraflutningamálin (Forseti hringir.) á Suðurlandi verður að skera niður aðra þjónustu sem er lögbundin á vegum heilbrigðisstofnunarinnar. Ég skora á ráðherra ferðamála að beita sér fyrir því í ríkisstjórninni að auka fjármagn í þennan málaflokk.