145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:28]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að taka undir með hv. þm. Páli Val Björnssyni varðandi sjúkraflutninga á Suðurlandi þar sem er fjölmennasta eða vinsælasta ferðamannaleiðin, m.a. um Gullfoss og Geysi. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef og eftir því sem ég best veit, þá eru á erfiðustu dögunum, stærstu dögunum, allt að 10 þús. manns sem fara gullna hringinn eða á Þingvelli. Ef við erum með 10 þús. manns t.d. í Reykjavík á mannamótum þá erum við líka með sjúkraflutningamenn til staðar á svæðinu til þess að stytta viðbragðstímann. Þegar kemur að sjúkraflutningum, sem er eitthvað sem hið opinbera á að standa straum af, þá er það þannig að því fyrr sem við getum komið manneskjunni undir læknishendur, því meiri líkur á að hún jafni sig sem fyrst. Með því að stytta viðbragðstímann erum við náttúrlega að auka lífslíkur fólks sem lendir í alvarlegum slysum. Það er því alveg nauðsynlegt að hafa sjúkraflutningamenn á fjölförnustu ferðamannastöðunum.

Að því sögðu er rétt að við þurfum náttúrlega að leggja einhverjar byrðar á bílaleigufyrirtækin og ferðaþjónustufyrirtækin. Ein einföld lausn sem mundi ábyggilega leysa mörg vandamál, sérstaklega á íslenskum vetrum, er að láta ferðaþjónustufyrirtækin og bílaleigurnar kaupa mannbrodda handa öllum ferðamönnum og skylda þá til að nota þá þegar þeir eru í ferðum t.d. við Dettifoss eða Gullfoss og Geysi þegar það er hált.

Nú er ég búin að leggjast í örstutta rannsóknarvinnu og ég sé ekki betur en að það sé hægt að kaupa mannbrodda á einn dollara, ef ekki minna, ef maður pantar þúsund stykki frá Kína, sem er um það bil 140–160 þús. kall fyrir þúsund stykki. Þetta er eitthvað sem er vel mögulegt. Þetta er líka eitthvað sem við gætum skyldað ferðaþjónustufyrirtækin til þess að gera. (Forseti hringir.) Og þetta ætti ekki að kosta neitt sérstaklega mikið. 150 þús. kall fyrir öryggi, 150 þús. kall til að koma í veg fyrir beinbrot, það er alveg þess virði.