145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:30]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir þessa umræðu en verð þó að segja að ég hefði gjarnan viljað sjá hæstv. ráðherra aðeins glaðbeittari og kannski markvissari í innleggjum sínum hér. Mér þykir leitt að hún skuli velja þá leið að gera lítið úr málshefjanda með því að draga í efa þær upplýsingar sem hér eru bornar á borð um slysastíðni ferðamanna. Árið 2014 fórust þrír erlendir ferðamenn í slysum á Íslandi. Ári síðar, í nóvember 2015, var sú tala komin upp í níu. Níu erlendir ferðamenn höfðu látist á því ári. Fjölgun banaslysa meðal erlendra ferðamanna hafði þar af leiðandi þrefaldast á einu ári.

Þetta eru þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar ég bað um umræðuna og mér finnst rétt að halda því til haga. Svo hafa aðrir þingmenn líka vakið athygli á ákalli sjúkraflutningamanna vegna 50% aukningar sjúkraflutninga í tengslum við ágang ferðaþjónustunnar í vegakerfinu. Þetta eru áhyggjuefnin og þetta er ástæða þess að málið er tekið til umræðu hér. Þess vegna hefði verið æskilegt að geta farið í dýpri stefnumótandi og einlægari umræðu um þetta vandamál sem hlýtur að vekja okkur öllum ugg.

Mér finnst heldur ekki alveg gott hjá hæstv. ráðherra að vísa til þess að nær hefði verið að draga innanríkisráðherrann inn í umræðuna vegna ástandsins í samgöngukerfinu vegna þess að ráðherrarnir starfa saman í ríkisstjórn og hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir ber ábyrgð á öryggismálum ferðamanna sem tengjast ótvírætt ástandinu í samgönguinnviðunum sem við hljótum að ræða í þessu samhengi.

Við höfum lengi vitað af (Forseti hringir.) yfirvofandi fjölgun ferðamanna. Um hana hefur verið rætt í áratugi. Þetta er ekki ástand sem þarf að koma neinum á óvart og þess vegna hefði kannski verið vænlegra til árangurs að vera búinn að gera ráðstafanir til að auka tekjustreymið inn í ríkissjóð, t.d. með stofnun auðlindasjóðs eða einhvers konar frekari gjaldtöku í ferðaþjónustunni til að takast á við þau brýnu vandamál sem eru enn óleyst.