145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

öryggi ferðamanna.

[15:33]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem hefur að megninu til verið góð og málefnaleg. Mér þykir leitt ef málshefjanda finnst ég ekki nógu glaðbeitt. Ég verð að gera eitthvað í því.

Ég tel ekki, og lít ég nú í eigin barm, að ég hafi verið að gera lítið úr málshefjanda. Hins vegar fór ég með staðreyndir og tölur frá Landsbjörgu um slys, sem eru opinberar tölur. Það voru hlutfallstölur og við verðum og hljótum að skoða það í því samhengi þegar fjölgunin (Gripið fram í.) er eins og hún er búin að vera.

Það sem kristallast hefur í umræðunni er það sem einkennir ferðaþjónustuna og sem ég endurtek í sífellu, þ.e. að hún er sú atvinnugrein sem hefur hvað flesta snertifleti við aðrar atvinnugreinar, við samfélagið allt, við stofnanir og almenning í landinu. Ef það er eitthvað sem hefði átt að gerast fyrir tíu árum þá er það að tryggja betur það samstarf sem er nauðsynlegt til þess að koma þessum verkefnum í höfn. Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir spurði til að mynda: Eru einhver tæki í verkfærakistunni til að koma í veg fyrir að bílaleigur sendi bíla vanbúna upp á heiði? Já, við höfum sett ný bílaleigulög sem gera skýrar kröfur, skilyrði og eru með sektarheimildir þannig að ef menn fara ekki eftir því sem mælt er fyrir um er hægt að beita sektum.

Jafnframt hefur verið talað um upplýsingar og nauðsyn þeirra og ég tek heils hugar undir það. Varðandi til að mynda upplýsingar á fleiri tungumálum, líka í sambandi við bílaleigurnar, get ég nefnt að svokölluð stýrisspjöld sem sett hafa verið í bílaleigubíla hafa verið á örfáum tungumálum. (Forseti hringir.) Núna erum við að bæta þar úr og gera þær myndrænni. Það er liður í stjórnstöðvartillögunum.

Við erum að vinna að fjölmörgum atriðum alls staðar í stjórnkerfinu og við stjórnstöðvarborðið sitjum við öll sem berum ábyrgð á þessu málefni með einum eða öðrum hætti. Við erum að ræða saman. Núna í fyrsta sinn er verið að ræða samgönguáætlun með tilliti til ferðaþjónustunnar. Það hefur ekki verið gert áður. (Forseti hringir.) Við vinnum þessi verkefni eitt af öðru og ég hvet (Forseti hringir.) hv. þingmann til að kynna sér á vef stjórnstöðvarinnar hvað um er að vera vegna þess að þar erum við að bæta úr upplýsingagjöf, líka varðandi það sem við erum að vinna.