145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

648. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar, nr. 78/?2002 (styrkur til hitaveitna).

Frumvarpið er flutt af atvinnuveganefnd sem hefur fjallað um það og fengið á sinn fund Guðmund Davíðsson og Sigríði Klöru Árnadóttur frá Kjósarhreppi. Með frumvarpinu er lagt til að ef tiltekin skilyrði verða uppfyllt verði heimilt að miða stofnstyrk fyrir nýjar hitaveitur við allt að 16 ár af áætluðum niðurgreiðslum á rafmagni til húshitunar á orkuveitusvæði viðkomandi hitaveitu. Samkvæmt 12. gr. gildandi laga er miðað við 12 ár.

Við umfjöllun um málið kom fram að unnið væri að stofnun hitaveitu í Kjósarhreppi. Nefndin leggur til breytingu á gildistökugrein frumvarpsins svo að ljóst sé að ákvæði laganna nái til hitaveitu ef undirbúningur er byrjaður eða framkvæmdir hafnar. Jafnframt leggur nefndin til þá breytingu á 2. tölulið 1. gr. frumvarpsins að hitaveitan skuli sýna fram á getu til að standa við skuldbindingar sínar með rekstraráætlun til 16 ára. Þá er lögð til smávægileg breyting á orðalagi 4. töluliðar 1. gr.

Undir þessa breytingartillögu skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Kristján L. Möller, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.

Málið er flutt af atvinnuveganefnd eins og ég kom inn á áðan, virðulegur forseti, og er gert til þess að mæta minni sveitarfélögum á köldum svæðum til þess að þau geti farið í þau stórvirki sem hitaveituframkvæmdir geta verið hjá viðkomandi sveitarfélögum.

Hér er nefnt sérstaklega sveitarfélagið í Kjós þar sem eftir áralanga leit, getum við sagt, fannst nægilegt heitt vatn til þess að hægt væri að dreifa því um byggðina. Það hefur í för með sér gríðarlega mikla breytingu á lífsgæðum, en það er eins og áður sagði oft ofviða fámennum sveitarfélögum að ráðast í slíkt stórvirki.

Önnur sveitarfélög eru þarna undir og þess vegna er nefndin sammála um að leggja til að þetta nái einnig til þeirra svæða og þeirra sveitarfélaga þar sem framkvæmdir eru þegar hafnar. Þar horfðum við til Norðvesturkjördæmis eða Húnaþings vestra og Skagafjarðar sérstaklega. Við vitum einnig að á Hólmavík eru uppi hugmyndir um að reyna að ráðast í framkvæmdir við hitaveitu og á Höfn í Hornafirði hafa menn nýlega fundið nægilegt heitt vatn til að vænlegt sé að reyna að vinna það frekar.

Það er von okkar að um þetta mál sé samstaða hér á þingi eins og í nefndinni, við höfum ekki fundið fyrir öðru, og að við getum stigið þetta mikilvæga skref til að reyna að fjölga þeim sveitarfélögum og íbúum landsins út um hinar dreifðu byggðir sem geta notið þeirra lífsgæða sem við þekkjum öll að fylgja náttúrulega heitu vatni. Það þekkjum við vel sem búum á þannig svæðum.