145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[15:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögreglulögum og lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um menntun lögreglu. Með frumvarpi þessu er lögð til ný skipan lögreglumenntunar hér á landi og tillaga gerð um að færa lögreglumenntun á háskólastig.

Hæstv. forseti. Eitt af grunnhlutverkum ríkisvaldsins er að halda uppi lögum og reglu, tryggja öryggi almennings, samfélagsins og ríkisins. Lögreglan er sú stofnun þjóðfélagsins sem hefur með höndum löggæslu í víðustu merkingu þess orðs.

Menntun lögreglumanna er lykilþáttur í bættri löggæslu. Mikilvægt er að hún svari kalli tímans hverju sinni um almannaöryggi og sé sambærileg við menntun lögreglu í öðrum Evrópuríkjum og þá sérstaklega á Norðurlöndunum. Þættir eins og ógnir við netöryggi, vöxtur skipulagðrar glæpastarfsemi og vaxandi hryðjuverkaógn eru þær hættur sem Evrópuríki líta helst til og kalla á aukna þekkingu og þjálfun lögreglumanna.

Markmiðið í menntunar- og þjálfunarmálum lögreglunnar er að tryggja að lögreglan geti á hverjum tíma tekist á við mikilvægustu verkefni sín; að tryggja réttaröryggi borgaranna og grundvallarhagsmuni ríkisins.

Hinn 14. maí 2014 samþykkti Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögreglulögum nr. 90/1996, sem varð að lögum nr. 51/2014. Í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögunum var skipaður starfshópur til þess að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögur að framtíðarskipun lögreglumenntunar. Sá hópur skilaði skýrslu 15. september 2014. Í kjölfarið var annar starfshópur skipaður í febrúar 2015 til að endurskoða innihald lögreglunáms og var hlutverk hans m.a. að fara yfir innihald lögreglunáms hér á landi, bæði grunnnáms og framhaldsnáms, og setja fram tillögur um með hvaða hætti efla mætti námið þannig að það tæki mið af þörfum samfélagsins.

Það var eindregin niðurstaða beggja starfshópanna að færa skyldi lögreglumenntun á háskólastig en jafnframt að sérstök eining innan lögreglu hefði það hlutverk að sjá um tengingu fræðilegs og verklegs hluta námsins, sem og að sinna rannsóknar- og fræðslustarfi innan lögreglu. Frumvarpið miðar að því að innleiða þær breytingar sem lagðar eru til í skýrslu síðarnefnda starfshópsins, með hliðsjón af skýrslu þess fyrrnefnda, frá september 2014. Voru þær breytingar útfærðar að höfðu samráði við fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Í frumvarpinu er lögð til ný skipan lögreglumenntunar hér á landi. Samkvæmt núgildandi skipan hefur Lögregluskóli ríkisins með höndum lögreglumenntun og er ákvæði um skólann að finna í VII. kafla lögreglulaga, nr. 90/1996. Lögregluskólinn er nú metinn á þriðja til fjórða menntaþrep, þ.e. á framhaldsskólastigi og á stigi milli framhaldsskóla og háskóla. Inntökuskilyrði í námið hafa verið tveggja ára nám í framhaldsskóla eða sambærilegt iðnnám. Þeir sem útskrifast eftir nám hafa fengið það metið til tæplega 60 framhaldsskólaeininga og hafa þessar einingar nýst nemendum að mjög takmörkuðu leyti á framhaldsskólastigi og enn síður á háskólastigi.

Núverandi menntun er ekki viðurkennd af öðrum menntastofnunum og því ekki auðvelt fyrir lögreglumenn að sækja sér frekari menntun, hvorki hér á landi né erlendis. Það verður að segja alveg eins og er að það er mikill galli að lögreglumönnum sé þannig gert erfitt fyrir að leita sér framhaldsmenntunar. Það er mikilvægt að búa þannig um menntun þeirra að þeim sé gert það kleift.

Annars staðar á Norðurlöndunum er fyrirkomulag með þeim hætti að lögreglunám er á háskólastigi eða í sérstökum lögregluskólum á háskólastigi.

Með frumvarpinu er lagt til að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður og þar með starfsemi hans. Vert er að taka fram að ný skipan lögreglumenntunar hér á landi hefur ekki áhrif á réttindi þeirra sem hafa lokið prófi frá Lögregluskóla ríkisins fyrir gildistöku þessara laga.

Hæstv. forseti. Helstu breytingar frumvarpsins eru þríþættar.

Í fyrsta lagi er lagt til að menntun lögreglu verði færð á háskólastig til samræmis við það fyrirkomulag sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Þannig verði kveðið á um heimild ráðherra sem fer með málefni háskóla til þess að gera samning við háskóla um kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða í samræmi við ákvæði 21. gr. laga um háskóla og í samráði við mennta- og þróunarsetur lögreglu.

Um er að ræða grundvallarbreytingu á lögreglumenntun og hún færð á háskólastig. Þannig færast meginverkefni Lögregluskóla ríkisins til háskóla, en samkvæmt lögum um háskóla ber skólinn ábyrgð á framkvæmd námsins og því á þeirra valdi að velja þá kennara sem munu sjá um kennsluna.

Varðandi mennta- og starfsþróunarsetrið var það mat ráðuneytisins að þau verkefni sem þar á að sinna væru að mörgu leyti frábrugðin þeim verkefnum sem Lögregluskólinn sinnir í dag, jafnvel þótt einhver verkefni verði með svipuðum hætti.

Reynsla starfsmanna Lögregluskóla ríkisins og þekking þeirra skiptir miklu máli fyrir framhald málsins. Ráðuneytið hefur unnið og mun vinna áfram í samvinnu við Lögregluskólann og starfsmenn hans.

Í öðru lagi er lagt til að starfsgengisskilyrði lögreglumanna verði diplómapróf í lögreglufræðum sem jafngildi a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum á háskólastigi. Hluti af náminu skal vera starfsnám hjá lögreglu.

Í þriðja lagi er lagt til að sett verði á stofn mennta- og þróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra og að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður. Hlutverk setursins verði að sjá um starfsnám lögreglunema sem og að sinna fræðslustarfi. Gert er ráð fyrir því að setrið verði tengiliður við háskólasamfélagið um störf lögreglumanna. Mennta- og starfsþróunarsetri ber að annast skipulagningu símenntunar lögreglumanna innan stéttarinnar, þar með talið skipulagningu og framboð sérhæfðra námsleiða. Þá skal setrið annast önnur verkefni er lúta að menntun lögreglumanna í þeim tilgangi að efla þróun og fagmennsku innan lögreglunnar. Einnig er gert ráð fyrir að setrið geti þjónað öðrum löggæslustofnunum með öflugri menntun, þjálfun og fræðslu starfsmanna svo að þeir geti tekist á við verkefni sín af aukinni færni og í samræmi við kröfur samtímans hverju sinni.

Hæstv. forseti. Eins og áður hefur verið rakið miðar frumvarpið að því að innleiða þær breytingar sem lagðar eru til af tveimur starfshópum skipuðum helstu hagsmunaaðilum og sérfræðingum í menntunarmálum lögreglu. Samfélagið er í örri þróun og það er óhjákvæmilegt að lögreglan búi yfir menntun og starfsþróunarmöguleikum til þess að leysa margþætt verkefni. Lagaumhverfi og ytra sem innra starfsumhverfi lögreglu tekur sífelldum breytingum og haga þarf menntun lögreglu eftir því. Við þá breytingu að færa lögreglunám á háskólastig ætti að skapast vettvangur til að lögreglan geti betur sinnt verkefnum sínum samkvæmt kalli tímans hverju sinni og þjónað með þeim hætti samfélaginu eins og ráð er fyrir gert.

Hæstv. forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hæstv. allsherjar- og menntamálanefndar til þóknanlegrar meðferðar og 2. umr.