145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[15:49]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessu máli sem er löngu tímabært og hefði þurft að vera komið fram fyrr, svo ég sé nú sammála um það, a.m.k. miðað við þær dagsetningar sem hér eru undir.

Það er tvennt sem mig langar til þess að spyrja ráðherrann út í. Það er í fyrsta lagi staðsetning námsins. Nú hafa háskólar eins og tekið er fram gefið umsagnir um frumvarpið og eru flestir jákvæðir. Ég velti fyrir mér hvað við þurfum einna helst að hafa í huga þegar við hugum að því að mennta lögreglumenn og hvaða skóli væri best til þess fallinn að sinna því í hinum dreifðu byggðum. Telur ráðherrann æskilegt að boðið verði upp á þetta nám í fjarnámi að einhverju leyti? Ég sé það kannski fyrir mér að ef námið yrði áfram á höfuðborgarsvæðinu þá væri stærsti hluti lögreglumanna að mennta sig til þess að vera hér eingöngu.

Svo fylgist maður með því að lögreglumenn eldast og eru á þessum einmenningsstöðvum eða kannski fáir á stöðvunum í hinum dreifðu byggðum og þeir sem hafa verið í afleysingum og öðru slíku mundu frekar sækja í námið ef þeir gætu tekið það í fjarnámi.

Síðan langar mig að spyrja um mennta- og starfsþróunarsetrið og hvort ráðherrann geti séð það fyrir sér að þeir lögreglumenn sem nú eru hjá Lögregluskóla ríkisins geti starfað þar meðan verið er að koma því á koppinn. Mér sýnist að ekki sé gerð almennileg grein fyrir því í (Forseti hringir.) frumvarpinu sem lýtur að starfsþættinum sérstaklega, starfsþjálfunarnáminu, og hvort þeir væru kannski betur til þess fallnir en margur annar.