145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[15:52]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vegna staðsetningar námsins og þeirra háskóla sem undir eru. Eins og ég sagði í ræðu minni er það auðvitað ákvörðun menntamálaráðherra á endanum hvernig það verður. Það er hann sem mun gera samninginn við viðkomandi háskóla þótt ég hafi náttúrlega sjálf á því skoðun og ráðuneytið hefur náttúrlega alls konar skoðanir á því máli. Þá vil ég segja að það er mat skólanna, og það er mikill áhugi á þessu máli hjá þeim, að tíminn sé nægilegur til að undirbúa þetta mál. Ég veit alveg hvað þingmaðurinn er að fara, að sjálfsögðu vill maður alltaf hafa meiri tíma. Það tekur oft tíma að klára mál endanlega til meðferðar inn í þingið. Nú er það komið og við teljum að við munum halda tímamörk. Skólarnir vita af því að málið gengur vonandi fram og geta undirbúið sig í samræmi við það.

Án þess að ég vilji ganga mjög langt í þessari ræðu vil ég taka það fram að lögreglumenn eru náttúrlega starfandi úti um allt land. Þó að þungi lögreglumanna starfi hér á höfuðborgarsvæðinu er verulega mikilvægt að við fáum lögreglumenn til starfa í hinum dreifðu byggðum og að við hugsum til þeirra líka þegar við skipuleggjum þessi mál. Það er alveg ljóst, svo ég gangi ekki lengra en að orða það með þeim hætti, að það eru auðvitað háskólar víðar en á höfuðborgarsvæðinu og það er engin fyrirframákvörðun um það, svo ég segi það hreint út, að þetta þurfi endilega að vera á höfuðborgarsvæðinu. En þetta er bara í skoðun núna og verður reynt að gera þannig að sem best gangi.

Í bréfi til skólanna var talað um að a.m.k. hluti af náminu gæti verið í fjarnámi. Ég hygg að við eigum að nýta okkur mjög vel fjarnámsmöguleika. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir þá sem búa t.d. í dreifðustu byggðum landsins að við högum skipulagi námsins með þeim hætti að menn geti (Forseti hringir.) eftir því sem við verður komið stundað nám sitt að einhverju leyti í heimabyggð.