145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[15:58]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessum gleðidegi, að þetta mál sé komið fram, en það á sér langa sögu. Það má kannski segja að byrjað hafi verið að tala um þetta í skýrslu Lögregluskólans árið 2004, að mig minnir. Landssamband lögreglumanna hafði rætt þetta lengi innan sinna raða og setti formlega vinnu af stað á árinu 2008 til þess að undirbúa þetta. Þetta er því mikið og stórt mál.

Mikil vinna hefur farið í undirbúning að þessu máli. Ég hef notið þess heiðurs að koma að þeirri vinnu, að vísu fyrst sem stjórnarmaður í stjórn Landssambands lögreglumanna árið 2008 þar sem ég fylgdist með vinnunni og svo í starfshópi sem ég leiddi á árinu 2015 þar sem ákvarðað var hvað nám lögreglumanna ætti að innihalda.

Fyrsta spurningin sem kemur upp hjá mörgum er: Af hverju er verið að færa Lögregluskólann á háskólastig? Það var kannski ekki markmiðið með vinnunni í upphafi að færa skólann á háskólastig heldur var það að efla nám lögreglumanna og bregðast við þróuninni í samfélaginu og skoða hvernig tryggja mætti fagmennsku lögreglunnar og traust til hennar í harðnandi samfélagi. Gerðar eru miklu meiri kröfur og verkefnin verða flóknari og annað slíkt.

Einnig þurfa að vera vissir innviðir fyrir hendi til þess að reka öfluga menntastofnun. Ég var sjálfur í Lögregluskóla ríkisins árið 2006 og fer þar fram mikið og öflugt starf. Það starf undirbjó mig að mörgu leyti mjög vel fyrir það starf sem ég gegndi síðar sem lögreglumaður og hef ég ekkert yfir því að kvarta. Hins vegar er því ekki að neita að sá skóli hafði ekki þá innviði sem venjuleg menntastofnun hefur og kannski ekki sömu tækifæri þó að vilji væri til þess að stunda bæði rannsóknir í lögreglufræðum og þróa námið út frá veruleikanum frá degi til dags.

Einnig er þá kjörið að færa námið inn í menntakerfið til þess að það sé metið með öðru námi. Það fær þá kannski fjölbreyttari hóp fólks inn í námið því að við erum með verkefni víða um land. Mikið var skoðað hvernig hægt væri að bæði að fjármagna en þó aðallega að manna stöðu lögreglumanna í hinum dreifðu byggðum landsins þar sem er oft erfitt að fá lögreglumenn.

Þáttur í því er að hafa námið aðgengilegt og einhvers virði. Eins til þess að opna lögregluna aðeins og fá þverfaglega nálgun á starfið þannig að lögreglan viti betur hvað er að gerast á öðrum sviðum samfélagsins til þess að geta unnið með því. Það er líka gert til að önnur svið samfélagsins viti hver verkefni lögreglunnar eru og þekki vandamálin og geti hjálpað lögreglunni við að leysa það; breyta verkferlum, koma með gagnrýna hugsun inn í málin og allt það.

Þetta skiptir allt miklu máli af því að við vitum að lögreglan er ein mesta valdastofnun ríkisins, hún fer með mikið vald lögum samkvæmt. Það skiptir miklu máli að því valdi sé beitt af fagmennsku og ábyrgð. Þá hlýtur upplýstur og vel þjálfaður lögreglumaður að skipta miklu máli í því efni.

Við vitum líka hvernig umhverfið er orðið breytt og annað slíkt þannig að við fórum í starfagreiningu í þessum starfshópi þegar við vorum að undirbúa þetta mál, þ.e. hvert er hlutverk lögreglunnar? Við sendum málið til umsagnar til hinna ýmsu aðila í samfélaginu til þess að fá þeirra sýn á hvert ætti að vera hlutverk lögreglunnar og hvernig ætti hún að vera útbúin til þess að takast á við það hlutverk.

Einnig fórum við í námskrá Lögregluskóla ríkisins. Við sóttum okkur námskrár hjá lögregluskólum á Norðurlöndum, við leituðum fanga víða, fengum gesti á fundi nefndarinnar annars staðar úr menntasamfélaginu og annað slíkt, skoðuðum löggæsluáætlun, öryggisáætlun fyrir Ísland, netöryggisáætlun og fleiri slíkar áætlanir.

Út úr því kom ákveðin niðurstaða um það yfir hverju hinn venjulegi lögreglumaður þyrfti að búa til þess að geta sinnt starfinu samkvæmt kröfum almennings, atvinnulífs og annarra stofnana ríkisins og félagasamtaka og þess háttar.

Það var einkum tvennt sem var áberandi, þ.e. hvað hlutverk lögreglunnar er fjölbreytt, mikið og víðfeðmt og margt breytingum háð. Þess vegna fannst okkur mjög mikilvægt að lögreglunámið byggðist upp á færni til þess að leita sér þekkingar, þ.e. hvernig maður getur sífellt uppfært menntun sína og lært vissa aðferðafræði og annað slíkt, en ekki af hverju við eigum að gera hlutina eins og við gerum þá í dag.

En hinn stærsti einstaki þátturinn var hinn andlegi þáttur, mannlegi þátturinn. Hann er allfjölbreyttur. Það er bæði hvernig lögreglumaðurinn meðhöndlar sjálfan sig í því starfi sem hann er við fjölbreyttar og miskrefjandi aðstæður og annað slíkt og hvernig hann undirbýr sig fyrir það. Einnig hvernig lögreglumaður kemur fram í starfi sínu við erfiðar aðstæður, við fjölbreytta hópa fólks og við mismunandi aðstæður. Það er einn af stóru þáttunum sem þurfti að uppfæra.

Niðurstaðan var sú að þau skólastig sem eru fyrir neðan háskólann og við höfum hér á Íslandi — við höfum ekki beint fagháskóla hér en við höfum framhaldsskóla og svona ákveðna menntun, en það bætir kannski ekki neinu við þá þætti sem upp á vantar. Þeir voru hins vegar flestallir til staðar í háskólasamfélaginu og þá gátum við breytt núverandi kerfum og notað núverandi starfsbrautir sem pössuðu inn í þessa starfsgreiningu, sem og við gerðum.

Þess vegna var lagt til að námið færi á háskólastig en þó sem diplómanám, sem sagt tveggja ára nám til 120 eininga ásamt starfsþjálfun. Þá gerir það það að verkum að lögreglumenn fara inn í menntakerfið, fá svolítið víðari sýn á efnið, nýta þá innviði sem þar eru og reynsla er komin á og annað slíkt. Svo geta þeir sem það kjósa tekið þriðja árið og útskrifast með BS-gráðu í lögreglufræðum. Þá hafa þeir fengið einhverja reynslu í starfinu og séð hvaða verkefni eru fyrir hendi og tekist á við sérhæfingu þar. Þeir geta jafnframt gert rannsóknarverkefni sem tengist starfinu. Ég held að það geti skilað lögreglunni mjög miklu í framtíðinni og mundi gagnast henni vel.

En við getum heldur ekki neitað því að það eru strangar inngöngukröfur í lögregluna í dag. Gerð er krafa um 68 einingar nú þegar. Verið er að auka það aðeins en tekið út aldurshámark og annað slíkt um leið. Við þekkjum úr háskólasamfélaginu og almennt að fólk getur fengið starfsreynslu metna inn. Það getur farið í háskólabrú og ýmsar leiðir til þess að komast í skóla.

Ég held því að ekki sé verið að útiloka marga frá störfum í lögreglu með þessu fyrirkomulagi. Síður en svo. Ég held að þetta muni kalla á að við fáum frekar inn fólk með reynslu. Það er það sem gagnast lögreglunni hvað mest, þ.e. lífsreynsla í starfinu til þess að geta sinnt því á sem bestan hátt.

Í því samhengi skiptir líka miklu máli að kröfurnar til lögreglumanna eru bara orðnar miklu meiri. Þess vegna er eðlilegt að gera aðeins meiri kröfur í menntuninni um leið. En það er orðin staðreynd í dag í breyttum heimi að hver einasti lögreglumaður þarf að geta tryggt rafrænan vettvang. Í nánast hverju einasta máli sem lögreglan kemur að er einhver svokallaður rafrænn vettvangur eða einhver svona tækni með.

Lögreglan er farin að þurfa að greina og bregðast við flóknari málum strax á vettvangi, á frumstigum máls, miklu oftar en verið hefur. Þar get ég nefnt mál eins og heimilisofbeldi. Þá skiptir miklu máli að hafa vissa þekkingu á því. Svo má geta þess að þegar um dómsmál er að ræða er frumskýrsla lögreglu, sem hinn almenni lögreglumaður skrifar, sem er alltaf efsta skjalið, eitt mikilvægasta skjalið í málinu.

Þegar þetta er skoðað frá mörgum sjónarhornum er alveg augljóst að við erum að fara rétta leið með því að færa námið upp á háskólastig. Þess vegna er líka haft þarna mennta- og starfsþróunarsetur sem hefur margþætt hlutverk. Það er til þess að tryggja tengingu á milli lögreglunnar sjálfrar og menntakerfisins.

En það er mjög mikilvægt í svona starfstengdu námi eins og lögreglufræðum að sú tenging sé mjög sterk og virk. Mennta- og starfsþróunarsetur mun líka vera ákveðin miðstöð sem safnar upplýsingum frá erlendum aðilum, frá samfélaginu og öðru, hvernig lögreglan þarf að þróast, hvar veikleikar eru innan lögreglunnar, hvar þarf styrkja hana og annað slíkt og vera svolítið á tánum gagnvart því sem er að gerast í lögreglunni.

Ég ber miklar væntingar til þess og líka hvernig aðrar löggæslustofnanir eins og Landhelgisgæslan og fullnustukerfið í fangelsismálum og annað gætu verið í samstarfi við mennta- og starfsþróunarsetrið í framtíðinni. Þá er horft til hvernig t.d. Iðan, sem er með iðnmenntunina, er byggð upp. Þar er mjög gott fyrirkomulag þó að það sé kannski ekki alveg sambærilegt við þetta, en þetta gefur okkur færi á að vinna betur saman og miðla þekkingu þarna.

Ég þakka starfsmönnum Lögregluskólans fyrir það mikla þrekvirki sem þeir hafa unnið með því að mennta lögreglumenn hér og hefur tekist vel. Lögregluskólinn hefur almennt verið metinn sem góð og farsæl menntastofnun. Hann hefur skilað öflugri löggæslu í þessu landi og nýtur mjög mikils trausts. Ég held samt sem áður að þetta sé rétt þróun til að skapa þá innviði sem ekki hafa verið til staðar í Lögregluskólanum.

Ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra að það er mjög mikilvægt að sú þekking og reynsla nýtist hér sem lögreglumenn í Lögregluskólanum og aðrir starfsmenn þar búa yfir. Ég efast ekki um að sá háskóli sem ganga mun til samstarfs við mennta- og starfsþróunarsetur vegna kennslu lögreglumanna muni sækja í þá þekkingu. Ríkislögreglustjóri og mennta- og starfsþróunarsetur munu eflaust einnig sækja í þá þekkingu, sem og stærri löggæsluembætti. Þau vilja mögulega fá menn með svona þekkingu og reynslu í þjálfunar- og menntunarmálum til sín.

Ég held að framtíðin sé björt hjá starfsmönnum Lögregluskólans en að sjálfsögðu skil ég að óvissan sé slæm. Vonandi tekst okkur að afgreiða þetta mál í mikilli sátt sem fyrst. Þá er hægt að ganga hreint til verks og eyða þeirri óvissu.

En það er líka gott til þess að vita hversu mikið samráð hefur verið haft við samningu þessa frumvarps. Helstu hagsmunaaðilar hafa verið í þeim starfshópum sem komið hafa að því að undirbúa frumvarpið og þessa breytingu. Það er mjög mikilvægt að halda því til haga. Þess vegna vona ég að okkur takist hér á þinginu að afgreiða málið hratt en örugglega og ég hlakka mikið til að takast á við það í hv. allsherjar- og menntamálanefnd.

Það var líka eitt sem ég vil geta um. Mikið hefur verið rætt um hversu marga lögreglumenn vanti og að margir ófaglærðir menn muni starfa í lögreglunni í sumar. En strax í haust munu að öllum líkindum 40 lögreglumenn hefja nám og eftir tvær annir í háskóla munu þeir verða mun betur undir starfið búnir en þeir ófaglærðu sem hefja störf í sumar.

Við munum því fá mjög margt öflugt fólk til afleysinga strax næsta sumar. Einnig mun það fólk geta starfað að einhverju leyti samhliða námi innan lögreglunnar á álagstímum. Ég held að þetta fyrirkomulag muni ekki leiða til þess að skortur verði á lögreglumönnum á næstunni.

Að öðru leyti fagna ég deginum og vona að við sjáum málið fara í farsælt ferli.