145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[16:50]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er ljúft að geta þess að þetta frumvarp byggir á frumvarpi fyrrverandi innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem hann lagði fram á síðasta kjörtímabili en náði ekki fram að ganga. Við höfum unnið áfram með það mál og gert ákveðnar breytingar á því, aukið áherslu á eftirlit sem ég er sjálf mjög áfram um að verði.

Hér er spurt um 210. gr. Í þessu tilliti er verið að tengja þetta við skipulagða brotastarfsemi af því að greinin tengist mjög gjarnan inn í slík brot. Það er með þeim gleraugum sem horfa þarf á þá grein þegar við lítum á þessi brot.

Ég get ekki látið hjá líða að leyfa íhaldsmanninum í mér að koma fram: Það að löggjöf sé frá 19. öld, þess vegna frá 13. öld, þarf ekki að mæla gegn því að hún sé góðra gjalda verð og geti staðið í langan tíma. Þó að sjálfsagt sé að laga annmarka á lögum þarf ekki að laga það sem virkar vel.