145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[16:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég reyndi í fyrra andsvari mínu að útskýra hvers vegna greinin væri inni í þessari grein. Ég vil til viðbótar segja, og það á svo sem við um fleiri atriði og öll atriði sem lögð eru til, að ég geri ráð fyrir að allsherjarnefnd fari rækilega í saumana á frumvarpinu; kalli fram þær röksemdir sem liggja að baki tillögunni og geri eftir atvikum þær breytingar sem menn telja til bóta. En við skulum ekki gleyma því að sem betur fer eru skilyrðin mjög ströng fyrir því að þessi atburðarás fari í gang.

Ég mundi vilja að nefndin liti þannig á þetta mál í meðförum sínum að um er að ræða aðgerðir sem eru mjög innarlega, ef svo má segja, þegar kemur að persónuvernd; það þarf að hafa mjög skýr skilyrði fyrir slíkri aðgerð og mjög strangt eftirlit. Ég mundi vilja að nefndin liti á málið með þeim gleraugum að við erum að gæta hagsmuna einstaklinga sem geta lent í þessum aðstæðum. Um leið og það er gríðarlega mikilvægt að nota allar eðlilegar og lögmætar leiðir til að upplýsa mál — og það er tilgangurinn að upplýsa alvarleg brot — þarf að gæta að þessu jafnvægi.

Í mínum huga skiptir miklu máli að þarna sé heimild sem menn geri sér grein fyrir að er feikilega vandmeðfarin. Það er út frá því sjónarmiði sem frumvarpið er lagt fram og var unnið. Ég geri því ráð fyrir að þegar kemur að 210. gr. og jafnvel öðrum atriðum muni nefndin að sjálfsögðu leggjast yfir það; hún nýtur aðstoðar og ráðgjafar ráðuneytisins eftir því sem óskað er.