145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[16:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við eitt af þeim mikilvægu málum sem varða réttindi borgaranna í dag. Ég verð að segja að ég fagna því mjög að málið er komið fram. Það er í samræmi við ýmsar hugmyndir sem margir, alla vega einhverjir, hafa viðrað í gegnum tíðina. Mér þykir þetta mikil réttarbót, en með einum fyrirvara sem mig langar aðeins að fjalla um, og hv. 10. þm. Reykv. s. fór reyndar aðeins stuttlega yfir, en þar tel ég því ofaukið í frumvarpinu. Að öðru leyti finnst mér vanta í frumvarpið eitt sem ég mundi vilja sjá þar og ætla að vekja athygli á til umræðu. Við sjáum til hvernig fer með það í nefndastörfum.

Símahleranir eru eitthvað sem viðgengst á Íslandi, einnig það að fengin sé heimild til þess að skoða önnur samskipti manna á netinu sem eru auðvitað af alls kyns toga. Það er í texta, það er í einkaspjöllum, það er af ýmsu tagi og með ýmsum leiðum. Samskiptaleiðir fólks eru sífellt fjölbreytilegri og alltaf er ný tækni að koma fram. Nú er Snapchat orðið mjög vinsælt og það býður upp á sína kosti og galla. En eftir stendur að þetta er mjög ríkt inngrip inn í friðhelgi einkalífsins, það er algjörlega óumdeilt og kemur beinlínis fram í greinargerð réttilega og hæstv. ráðherra fór inn á það áðan. Þegar svo ríkt inngrip er til staðar eða er framkvæmt þá er mjög mikilvægt að það sé af mjög lögmætum ástæðum og ríkt tilefni sé til þess.

Það er eitt atriði í frumvarpinu sem ég hygg að dugi ekki til. Það er í upplistun á þeim ákvæðum sem eru tilgreind í 1. gr., en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Auk þess sem segir í 1. mgr. verða þau skilyrði að vera fyrir hendi svo að gripið verði til aðgerða skv. 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Með sama skilorði verður gripið til þessara aðgerða ef rannsókn beinist að broti á 175. gr. a, 206. gr., 210. gr., 210. gr. a, 210. gr. b, 226. gr., 1. mgr. 232. gr., 233. gr. og 264. gr. a almennra hegningarlaga.“

Þetta er svona töluleg upptalning. Því má búast við að ekki séu allir með á hreinu hvaða greinar þetta eru. Þarna eru þrjár greinar sem vekja athygli mína, þ.e. 210. gr., hún er þrjár greinar. Svo að hlustendur og lesendur séu með það á hreinu þá eru þetta þrjár aðskildar greinar, 210. gr., 210 gr. a, 210. gr. b. Og 210 gr. a og b varða barnaklám. Mér finnst algjörlega lögmætt að hafa það þar inni. 210 gr. án a og b er hins vegar um hið hefðbundna klámbann. Klám er bannað á Íslandi. Klám er atriði sem ég veit að fólki finnst erfitt að ræða og hlusta á, og það verður bara svolítið að hafa það. Ísland er eitt af mjög fáum svokölluðum vestrænum ríkjum þar sem klám er enn þá bannað. Ég segi enn þá vegna þess að ég tel tímaspursmál hvenær það verður lagfært. Það er að mínu mati stór galli á íslenskri löggjöf að klám sé enn þá bannað. Hins vegar eru auðvitað til tegundir af klámi sem verða að vera bannaðar, þar á meðal til dæmis barnaklám og annað sem hefur nýlega komið mikið inn í umræðuna, þ.e. hrelliklám, sem er stóralvarlegt vandamál í samfélagi okkar og við verðum að bregðast við því. Það hefur verið viðleitni til þess af hálfu háttvirts þingflokks Bjartrar framtíðar sem lagði fram frumvarp um að banna það sem þar er reyndar kallað hefndarklám, menn kalla þetta ýmist hefndarklám eða hrelliklám, ég er ekki mikið fyrir að týna mér í semantíkinni, en ég kalla það hrelliklám. Þar er lagt til að það verði bannað og þótt útfærslan í því frumvarpi sé að mínu mati gölluð er hugmyndin auðvitað góð, markmiðið mjög mikilvægt og við verðum að setja í löggjöf ákvæði sem tekur mjög skýrt á því.

Hins vegar tel ég ekki að 210. gr. almennra hegningarlaga eins og sú grein stendur í dag dugi til þess, enda held ég að hún sé ekki hönnuð til þess. Ég held að hún sé gerð frá mjög gamaldags hugmyndum um siðgæði.

Að mínu mati koma persónuleg viðhorf þingmanna til kláms, eða almennings ef út í það er farið, málinu ekkert við. Málið snýst um réttindi fólks og það kemur inn á tjáningarfrelsið. Ég veit að fólki finnst auðvelt að segja að eitthvað komi tjáningarfrelsinu ekki við ef það vill að eitthvað sé bannað, en það kemur því samt við. Það bara gerir það. Það er mjög mikilvægt að þegar hlutir eins og klám eru bannaðir þá séu mjög skýrar ástæður fyrir því og því sé svarað á fullnægjandi hátt hvernig það sé réttlætt með hliðsjón af tjáningarfrelsinu. Fyrir utan það þá er það þannig í okkar samfélagi að klám er mikið notað, það er mikið áhorf á klám. Fjöldi hrelliklámsmála sem hafa komið upp undanfarið, síðustu ár, sýnir að sú athöfn að taka upp kynferðislegt efni og senda það manna á milli er miklu algengara en fólki hefði dottið í hug fyrir áratug eða tveimur, enda mikið feimnismál. Fólk gerir kannski ráð fyrir að þetta sé sjaldgæfara en það raunverulega er. Þess vegna hef ég áhyggjur af því að ef 210. gr. er í þessari upplistun gefi það veiðiheimild á heldur stóran hóp af fólki.

Eins og fyrr greinir eru margar leiðir til samskipta á netinu. Ein sú leið til þess að flytja upplýsingar á netinu er með svokölluðum torrent-leiðum. Með þeim leiðum er hægt að greina til dæmis IP-tölur þeirra sem eiga í samskiptum. Í þeirri aðferð til að ná í efni, ég geri fastlega ráð fyrir að fólk nái í klám þar eins og það notar allar aðrar leiðir til þess, er hægt að sjá IP-tölur hjá þeim sem eiga í samskiptum. Þá veltir maður fyrir sér hvað gerist. Ef einhverjum dettur í hug að fletta upp þeim IP-tölum og sjá hverjar þeirra eru íslenskar, þá eru þeir komnir með, samkvæmt frumvarpinu eftir því sem ég fæ best séð, ákveðna heimild til þess að hlera, það er alla vega það sem maður hefur áhyggjur af. Kannski er eitthvert lögtæknilegt atriði á ferð sem kemur í veg fyrir það eða einhverjir aðrir varnaglar, sem ég hef reyndar ekki mikla trú á þannig séð, alla vega ekki hjá hvaða stjórnvaldi sem er í það minnsta. Ef einhver stjórnvöld kæmu til sem virkilega ætluðu sér að uppræta klám úr íslensku samfélagi þá óttast ég mjög að svona klausa yrði misnotuð. Ég segi misnotuð vegna þess að ég tel ekki að það sé hlutverk ríkisins að uppræta klám í samfélaginu, það er bara ekki hlutverk þess að mínu mati.

Í greinargerð kemur fram orðalagið „dreifing barnakláms“ sem mér þykir enn fremur styðja, því miður, þá tilgátu að þarna sé ekki bara verið að ræða lögmæt klámbönn á borð við bann við barnaklámi eða hrelliklámi, heldur almennu klámi sem er fráleitt að sé bannað yfir höfuð og að mínu mati enn þá fráleitara að ætla að fara að hlera fólk til þess að sporna gegn dreifingu. En eftir stendur að hugsanlega væri þetta hið besta mál. Reyndar væri það hið besta mál ef 210. gr. væri í reynd klausa gegn hrelliklámi. Það eru þau örlög sem ég mundi helst vilja sjá í frumvarpi háttvirts þingflokks Bjartrar framtíðar, um hrelliklám, að 210. gr. eins og hún stendur núna yrði skipt út fyrir gagnlegt bann á borð við bann við hrelliklámi.

Þetta er það sem ég hef við málið að athuga, þetta eru bara örfáir stafir í öllu frumvarpinu. En frumvarpið allt í heild sinni, burt séð frá þessu atriði, er að mínu mati afskaplega mikilvægt og jákvætt skref. Þar er sett meira aðhald og aukin réttindavernd þeirra sem verða fyrir hlerunum af hálfu yfirvalda eða símahlustunum eða hvað menn vilja kalla það, en mér þykir mjög mikilvægt að það sé á hreinu hvers vegna eða hvernig það sé réttlætt að hafa 210. gr. þarna inni. Einnig þarf ég að fara aðeins yfir árafjölda hverra fangelsisvist liggur við að brjóta á lögum, en eins og fyrr greinir stendur í frumvarpinu, með leyfi forseta „að rannsókn beinist að broti sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess“.

Í gildandi lögum er kveðið á um átta ára fangelsi eða að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjast þess. Það hefur opnað heldur víðar dyr til þess að heimila símahlustanir við tilefni sem ég tel allt of mikið og sýnir það sig best, held ég, í þeim tölum sem birtust í svari við fyrirspurn minni fyrr á þessu kjörtímabili og sömuleiðis þáverandi hv. þingmanns og núverandi hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar. En í báðum þeim svörum kom mjög skýrt fram að hleranir eru — það er hægt að segja í raun og veru að þær eru bara samþykktar. Voru 99,31% þeirra hlerunarbeiðna samþykkt þegar ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra og það er miklu hærra en eðlilegt getur talist. Augljóst er að pottur er brotinn í því kerfi. Ég hygg að það sé víðar. Ég tel að sá vandi sé ekki af einhverri einni ástæðu. Ég held líka að ákveðið hugarfar sé til staðar þar sem mönnum finnst þetta eðlilegra en það er, þeim finnst þetta minna inngrip en það raunverulega er. Ég held að það sé hluti af því. En auðvitað er einungis hægt að laga slíkt með því að hafa rammann mjög skýran. Hér er verið að skýra hann. Verið er að þrengja hann. Mér finnst það mjög mikilvægt og mér finnst það mjög gott. Það er engin spurning að ég mundi styðja þetta mál heils hugar og helst hafa þátt í því að leggja það fram, nema vegna þeirrar upptalningar á 210. gr. sem fær mig til að efast. En eins og ég segi, við erum í 1. umr. núna. Nefndin á eftir að fjalla um málið og kannski ekki alveg tímabært að gera upp hug sinn endanlega akkúrat á þessu stigi, en þó er auðvitað allt annað varðandi frumvarpið mjög mikilvægt að mínu mati.

Mig langar aðeins að fara yfir eitt sem mér finnst vanta í frumvarpið, það varðar 80. gr. í lögum um meðferð sakamála. Ég þarf væntanlega aðeins að útskýra fyrir áheyrendum hvað ég á við.

Í 80. gr. þeirra laga er fjallað um hvernig fjarskiptafyrirtæki skuli geta veitt upplýsingar um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekna síma, tölvu og alls konar fjarskiptatæki. Þar er um að ræða það sem í daglegu máli er stundum kallað „metadata“. Metadata, eða gagnagögn eins og þau eru stundum kölluð á íslensku og ég skal kalla héðan í frá, er ekki efni sem fólk sendir sín á milli heldur upplýsingar um efnið, svo sem áfangastað, upprunastað, tímasetningar, lengd samskipta, IP-tölur, símanúmer og þess háttar. Slík gögn eru auðvitað ekki jafn viðkvæm og efnið sjálft. Það er ekki það sama að sjá í hvern var hringt og að hlusta á símtalið sjálft. Þarna eru tvær mismunandi tegundir af inngripi. En samt hygg ég að það að fletta upp IP-tölum og símanúmerum og svoleiðis sé þó inngrip. Það segir sitt í hvern maður hringir. Ef maður sér símanúmer hjá aðila sem maður veit hver er þá segir það manni ýmislegt sem varðar einkalíf fólks. Það á við á netinu alveg eins og þegar kemur að símum. Þegar menn fletta upp IP-tölum er hægt að sjá þar alls konar hluti, um hvaða vefsetur menn heimsækja, jafnvel hverjir eru í samskiptum og jafnvel ef ekki er hægt að sjá hvert efnið er sem er í samskiptunum sjálfum. Þarna er að mínu mati um mjög ríkt inngrip að ræða. Þetta er umræða og rökræða sem á sér stað núna víða úti um allan heim og varð, held ég, fyrst fyrir alvöru tekin mjög alvarlega af almenningi eftir uppljóstranir hæstvirts uppljóstrara Edwards Snowdens. Í beinu kjölfari hygg ég að áherslan á að hafa þau mál í lagi hafi aukist mjög. Það er mjög mikilvægt á 21. öldinni, því að við búum í heimi þar sem við ráðum ekki öllu hér á hinu háa Alþingi hvernig fer með réttindi fólks. Það er þannig að tæknin er að taka þetta svolítið úr höndunum á okkur. Þá er ofboðslega mikilvægt að við séum með á hreinu hvernig við ætlum að haga heimildum yfirvalda og takmörkunum á þeim heimildum til að vernda réttindi borgaranna, svo sem friðhelgi einkalífsins, inn í 21. öldina með síbreytilegri tækni og sífellt meira af gögnum í daglegu lífi fólks, einkalífi, vinnulífi og öllu sem á einhvern hátt er á netinu eða í einhverjum tölvum og varða því hluti eins og þetta.

Það sem ég mundi leggja til í frumvarpinu er einfaldlega að víkkuð yrði út sú takmörkun sem kemur fram í 83. gr. laganna, að hún yrði víkkuð til að gilda líka um svokölluð gagnagögn þannig að það þyrfti líka að vera í rannsókn það sem beinist að broti sem varðað getur að lögum sex ára fangelsi og að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess. Ég hygg að sú breyting yrði einföld. Ég held að hún yrði góð. Ég held reyndar að hún yrði sennilega umdeild, ég veit það fyrir víst að einhverjir hv. þingmenn eru ósammála mér, en ég hygg samt að hún sé góð. Ég held alla vega að hv. þm. Brynjar Níelsson (Forseti hringir.) sé sammála mér. Það hjálpar mér alltaf við að rökstyðja mitt mál.