145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

meðferð sakamála.

659. mál
[17:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts ef pirringur minn hefur farið í skapið á hv. þingmanni. Ég vona að svo sé ekki og þakka honum þá í leiðinni fyrir tækifæri til þess að skýra afstöðu mína betur, enda er mikilvægt að hún sé skýr. Óháð því hversu skýr ræða mín var hérna áðan þá er þetta eitthvað sem maður vill ekki að ríki misskilningur um.

Ég verð þó að halda því til haga að mér hefur fundist eins og eitt af vandræðunum við það að ræða klám almennt, ekki bara hér heldur bara í greinaskrifum eða í samskiptum við fólk, er að það fer alltaf einhvern veginn strax í það — það er voðalega erfitt að halda fókusnum í umræðunni við klám. Hvers vegna er klámbann? Ekki barnaklám, ekki hrelliklám, (Gripið fram í.) engin brot, heldur bara klám; klám þar sem upplýst samþykki er fyrir hegðuninni og ekki er brotið á réttindum neins? Það er einföld spurning og henni hefur verið svarað. Það þarf ekki að fara meira út í það.

Hvað varðar eftirlitshlutverkið mundi ég auðvitað helst vilja fá samþykkta þingsályktunartillöguna sem við píratar lögðum fram, en að öðrum kosti kýs ég frumvarp innanríkisráðherra sem ég hygg að sé vissulega betra en það sem nú er fyrir hendi. Ég fer meira út í það á eftir þegar það verður til umræðu.

Ég sé í fljótu bragði ekki neina ástæðu til þess að hafa þingnefnd, alla vega ekki í því eftirliti sem nefndin sem hæstv. innanríkisráðherra stingur upp á eða stofnunin sem Píratar stinga upp á að mundi sinna því. Kannski eru einhver rök fyrir því en ég sé þau ekki, alla vega ekki í fljótu bragði, enda er um að ræða hluti sem er frekar auðvelt að setja ramma um ef pólitískur vilji er til þess. En ég held að það sé frekar auðvelt að setja ramma um það hvernig starfshættir lögreglu skuli vera. Það er mikil reynsla af lögreglustörfum. Það eru til reglur. Það eru til fordæmi. Það er rík og góð umræða um það allt saman, þannig að ég sé ekki ástæðu til pólitískrar nálgunar. En það er einnig skilningur minn að þetta sé að einhverju leyti hlutverk hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.