145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa þá fullyrðingu hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar að bót væri að því að samþykkja það frumvarp sem hér er um að ræða. Ég spyr hv. þingmann: Er það ekki „absúrd teater“ að ætla að samþykkja frumvarp til laga um eftirlit með lögreglunni án þess að í því séu ákvæði um eftirlit með heimildum lögreglunnar til að rjúfa það sem er okkur dýrmætast, okkar persónulegu friðhelgi? Skiptir það ekki máli þegar við erum að velta því fyrir okkur hvernig þessu máli eigi að vinda fram?

Ég er þeirrar skoðunar að um sé að ræða heimildir til að fara inn í það sem okkur er dýrmætast. Ég tel að þetta varði grundvallarprinsipp í réttarríkinu. Þess vegna tel ég að það sé hálfvegis absúrd að samþykkja svona frumvarp án þess að það mál sé ávarpað með einhverjum hætti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög auðvelt að gera það.

Hv. þingmaður kann að hafa rétt fyrir sér þegar hann segir að hugsanlega þurfi ekki einu sinni að breyta lögum um stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hún geti tekið þetta hlutverk upp ef hún kýs svo. Ég verð bara að viðurkenna að ég þekki ekki þingsköpin og ákvæði þeirra um þá nefnd, sem er tiltölulega ný hér í starfi þingsins, nægilega vel til að geta fullyrt um hvort það er rétt eða rangt. En er þá að minnsta kosti ekki rétt að við skoðum það?

Ég er þeirrar skoðunar að þetta mál væri hægt að leysa á mjög einfaldan hátt. Ég varpaði fram ákveðinni hugmynd hér í dag. Hún var betrumbætt af fyrrverandi formanni Lögmannafélagsins í spjalli við mig áðan, þegar hann sagði að það væri hægt að ná utan um þetta mál með því að fela þetta eftirlit formanni og varaformanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þeir koma hvor af sínum (Forseti hringir.) væng stjórnmálanna og það væri að minnsta kosti mjög einfalt skref og þyrfti ekki margra áratuga umræðu til viðbótar.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann unnt að ná einhvers konar samkomulagi um það við umfjöllun málsins (Forseti hringir.) og vinnslu hér á þinginu?