145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Strandveiðar hófust 2. maí síðastliðinn og rúmlega 700 smábátar fengu leyfi til að sækja fiskimiðin af miklu kappi. Veiðarnar eru ólympískar, magnið er takmarkað við 9 þús. tonn á fjórum veiðisvæðum og veiðidagarnir fjórir virkir dagar á viku. Hver bátur má koma með að landi að hámarki 700–800 kíló af óslægðum fiski úr hverjum róðri og góð meðferð afla því mikilvæg. Veiðarnar eru mánudaga til og með fimmtudaga á veiðitímabilinu og aðra daga má ekki veiða. Bræludagar, bilanir og aðrar frátafir eru tap hvers báts og eiganda hans. Þetta gerir strandveiðikerfið áhættusækið og hættulegt. Enginn vill tapa veiðidegi og allt er lagt undir til að sækja fast þótt bræla á miðunum sé í kortunum. Áhættan er að potturinn náist ekki á viðkomandi svæði og þá verði hlutur hans fluttur á önnur veiðisvæði og tekjutapið orðið tilfinnanlegt og þungt fyrir þann sem fyrir því verður. Erfitt tíðarfar í upphafi strandveiða fyrir vestan hefur kallað á slíka áhættu, að sótt sé í erfiðu sjólagi og brælu. Tapaður veiðidagur verður ekki bættur, kerfið er ósveigjanlegt og stíft og skapar áhættu við slíkar aðstæður.

Virðulegi forseti. Þá gerast slys eins og í gær þegar ungur maður fórst á leið í róður. Hugur okkar og samúð eru hjá fjölskyldu hins dugmikla sjómanns. Það hlýtur að kalla á viðbrögð okkar þingmanna og stjórnvalda þegar slíkir voðaatburðir gerast. Það hefur lengi verið bent á þá staðreynd að strandveiðikerfið verður að hafa sveigjanleika til að bregðast við ótíð og brælu sem er tíðum við strendur landsins. Ég legg því til að strandveiðisjómenn fái að velja fasta daga í mánuði sem þeir telja þá bestu til róðra svo sóknin verði eðlileg.

Virðulegi forseti. Gerum kerfið sveigjanlegt og áhættuminna. Það tryggir öryggi sjómanna og bætta meðferð afla.


Efnisorð er vísa í ræðuna