145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:48]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hin stórfurðulegu undanbrögð stjórnarflokkanna við að útfæra sitt eigið loforð um kosningar í haust eru ekki bara pólitískt gamanmál. Það þarf að ákveða kjördag hið fyrsta af ýmsum praktískum, raunverulegum og gildum ástæðum. Í lögum um kosningar til Alþingis er kveðið á um kosningarrétt manna. Almenna reglan er sú að allir íslenskir ríkisborgarar, 18 ára og eldri, hafa kosningarrétt, sem og þeir íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis og hafa ekki búið þar lengur en í átta ár. Þeir sem hafa búið lengur en í átta ár geta sótt um að vera færðir inn á kjörskrá og komu þau ákvæði í staðinn fyrir gömlu kæruheimildirnar. Til þess þurfa menn að leggja fram umsókn til þjóðskrár og niðurstaðan er síðan ákveðin þannig að ákvörðun um að einhver skuli þannig tekinn á kjörskrá gildir í fjögur ár frá 1. desember næstum eftir að umsókn var lögð fram. Þetta þýðir að þegar kosningar eru ákveðnar óvænt og eru fyrir 1. desember að ári, er þessi möguleiki útilokaður. Þessu þarf að breyta og á að breyta, annars er verið að girða fyrir að íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis, þúsundum og tugþúsundum saman, sem búið hafa þar lengur en í átta ár, eigi yfir höfuð möguleika á því að kjósa á Íslandi.

Önnur gild ástæða er sú að í 57. gr. laga um kosningar til Alþingis er kveðið á um utankjörfundaratkvæðagreiðslu og skal hún hefjast svo fljótt sem unnt er eftir að kjördagur er ákveðinn, en þó ekki fyrr en átta vikum fyrir kjördag. Það þýðir samt að eigi að kjósa um miðjan október á utankjörfundaratkvæðagreiðsla að hefjast í síðari hluta ágústmánaðar. Þess vegna þarf að festa kjördag núna á vordögum og það strax. Það er ekkert einkamál stjórnarflokkanna að ætla að þæfast þannig við í þessu máli, (Forseti hringir.) að standa við sitt eigið loforð, að þeir hafi í stórum stíl kosningarrétt af landsmönnum.


Efnisorð er vísa í ræðuna