145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni ályktun rektora íslenskra háskóla vegna fjármálaáætlunar 2017–2021, sem við höfum verið að ræða hér og er til meðferðar í fjárlaganefnd.

Ég tek svo innilega undir þau vonbrigði sem rektorar lýsa yfir í ályktun varðandi fjármögnun háskólastigsins. Við ræddum við menntamálaráðherra á fundi fjárlaganefndar í gær og munum vonandi geta rætt betur við hann hér í þingsal um þetta mál. Eftir því sem ráðherra segir virðist okkur hafi tekist að fjölga háskólanemum hér á landi. Við vorum með mjög fátt háskólamenntað fólk fyrir nokkuð mörgum árum en sókn í háskóla hefur aukist mjög mikið og við erum á pari við önnur lönd hvað varðar fjölda nema í háskólum. Á sama tíma eru útgjöld til háskólastigsins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu undir meðaltali OECD-ríkjanna. Ef við berum okkur saman við Norðurlöndin erum við langt undir.

Í þessari fjármálaáætlun er ekki gert ráð fyrir neinni aukningu sem heitið getur; 2–3% til ársins 2021. Á sama tíma á samt að auka gæði í háskóla- og rannsóknarstarfsemi og treysta alþjóðlega samkeppnishæfni og tengsl við atvinnulífið og ýmis fleiri framsækin markmið eru sett fram. Hvernig á að gera það ef ekki á að veita meira fjármagn í skólana sem eru að sumu leyti fjársveltir? Á að fækka nemendum? Ef við ætlum að fækka nemendum, hvernig ætlum við að gera það? Ætlum við í auknum mæli að vera með inntökupróf? Gera meiri kröfur? Þá getur verið að þeir sem vilja fara í háskóla þurfi að taka kúrsa einhvers staðar og það kostar pening. Við þurfum að mennta það fólk, hvernig sem við förum að því, og ekki viljum við fækka háskólanemum.

Mér er því fyrirmunað að skilja hvaða stefna er í gangi þegar kemur að háskólastiginu. Það á að spýta í hvað varðar framhaldsskólana (Forseti hringir.) og það er mjög gott, enda kominn tími til. En þetta er ekki í lagi, virðulegi forseti.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna