145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Tekjur ungs fólks á Íslandi hafa dregist saman samanborið við eldri kynslóðir og hefur unga fólkið ekki notið sömu kaupmáttaraukningar og aðrir. Þetta er nokkuð sem við höfum heyrt í fréttum undanfarna mánuði og vitum af. Ég hef ítrekað rætt hér í ræðustól og hef kallað eftir að við ræðum það saman í sérstakri umræðu við fjármálaráðherra en hef ekki fengið það í gegn enn sem komið er. Bið ég hæstv. forseta að sjá svo til að það verði sett á dagskrá áður en þingi lýkur í vor, hvenær sem það svo verður.

Það er mikið áhyggjuefni að unga kynslóðin sé að verða á eftir, hafi það verst hvað kaupmátt varðar hér á landi, því að eins og við vitum er þetta auðvitað æviskeið útgjalda. Fólk er að koma börnum á legg, fólk er að mennta sig, fólk er að leggjast í skuldbindingar eins og að taka húsnæðislán og annað og það skiptir máli að fólk geti séð út úr mánuðunum, séð fram á að geta staðið sína plikt, geta staðið sínar skuldbindingar og haft þrautseigju í að vinna, sjá fyrir börnum og koma þeim á legg án þess að það reynist því hreinlega ofviða. Það er þannig í dag og það er áhyggjuefni og er nokkuð sem við á Alþingi eigum að vera að ræða.


Efnisorð er vísa í ræðuna