145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[10:55]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á þeirri alvarlegu stöðu sem er komin upp þegar kemur að íslenskum stúdentum sem stunda nám erlendis. Nú var ég að fá svar frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra varðandi það hve margir íslenskir stúdentar eru á framfæri norrænna systurstofnana LÍN í Svíþjóð, Danmörku, Noregi og Finnlandi. Það sem er hægt að sjá út úr þessum tölum, sem ná tíu ár aftur í tímann, er að eftir hrun, og sér í lagi eftir 2011 og 2012, hefur orðið gífurleg aukning á því að íslenskir stúdentar fari til Norðurlandanna til að fara á framfærslu þar.

Sem dæmi má geta þess að í Danmörku voru fyrir hrun, til og með 2008/2009, ávallt tæplega 600 manns sem þáðu stuðning til náms, 527 upp í 588 þegar mest lét. Frá 2011/2012 er fjöldinn kominn upp í 909 manns. 2012/2013 eru það 1.015 manns og 2014/2015 1.165 manns. Til samanburðar hefur íslenskum stúdentum sem eru á framfærslu LÍN og stunda nám erlendis fækkað; þeir hafa farið úr 2.751 árið 2009, 2014 komnir niður í 2.150. Við sjáum nú að nærri jafn margir eru á framfæri erlendra systurstofnana LÍN, norrænna systurstofnana, þ.e. 1.979 á þarsíðasta ári en voru 2.150 á framfæri LÍN. Það er því ekkert langt þar til norrænar systurstofnanir munu taka að sér að sjá um að mennta íslenska námsmenn. Viljum við það?


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna