145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

störf þingsins.

[11:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Mig langar að gera almennar kosningar að umtalsefni og svo kosningalöggjöfina. Mér þykir sæta furðu að nú þegar séu hafnar utankjörfundarkosningar vegna forsetakosninga 25. júní. Samt hafa fæstir sem hafa lýst yfir framboði skilað inn framboði sínu þannig að það sé löglegt. Engu að síður eru forsetakosningar hafnar utan kjörstaðar.

Hvers konar lög eru það sem Alþingi Íslendinga setur um kosningar ef hægt er að fara fram með þessum hætti?

Menn bjóða sig fram, þeir tilkynna framboð en eru ekki komnir í framboð af því að þeir hafa ekki skilað inn gögnum. Síðast í gær var upplýst í fréttum að frambjóðendur hafa frest til 18. eða 19. maí til að skila þeim inn. Þá á eftir að fara yfir gögnin og skoða hvort þeir listar sem þá hefur verið skilað standast, hvort þeir eru lögmætir sem og framboðið. Á sama tíma hefur kosning staðið yfir utan kjörstaðar og fólk hefur ekki hugmynd um hverjir eru í framboði. (Gripið fram í.) Þó að allir séu í framboði þarf samt að skila inn listum um að maður sé í framboði og hafi að baki sér til þess bæran fjölda fólks.

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að orða það svona en þessi kosningalöggjöf til forsetakjörs, æðsta embættis lýðveldisins, er skrípaleikur eins og hún liggur fyrir í dag.


Efnisorð er vísa í ræðuna