145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um almennar íbúðir. Allir hv. þingmenn hv. velferðarnefndar standa saman að nefndarálitinu. Áður en ég held áfram máli mínu langar mig að þakka öllum hv. þingmönnum velferðarnefndar fyrir mikla og góða vinnu þar sem unnið var að þessu áliti. Auk þessa vil ég þakka nefndarritara velferðarnefndar fyrir mikil og góð störf við vinnslu málsins. Við vinnslu málsins bárust margar umsagnir og auk þess fékk nefndin til sín gesti á nokkuð marga fundi.

Ég ætla í þessari 30 mínútna ræðu minni að fara yfir helstu atriði nefndarálitsins, en ég mun eingöngu fara ítarlega yfir hluta þess þar sem nefndarálitið er afar langt. Í mörgum tilvikum mun ég vísa beint til nefndarálits á þskj. 1266 og í breytingartillögur á þskj. 1267.

Virðulegur forseti. Frumvarpi um almennar íbúðir er ætlað að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi. Meginmarkmið þess eru aukið framboð leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður fólks verði í samræmi við greiðslugetu. Miðað var við að það tæki til fólks í tveimur lægstu tekjufimmtungunum. Fyrst ber að nefna að í vinnu við mótun húsnæðisstefnu í aðdraganda framlagningar frumvarpsins var lagt til grundvallar að leiga yrði jafnan ekki umfram 20–25% af tekjum. Töldu nefndarmenn æskilegt að þetta markmið kæmi fram í lögunum og lögðu því til viðbót við það efni í fyrri málslið 1. mgr. 1. gr.

Frumvarpið er eitt af þeim frumvörpum sem voru mótframlag ríkisstjórnarinnar til kjarasamninga síðastliðið vor sem varð m.a. til að kjarasamningar tókust. Innan hv. velferðarnefndar er annað frumvarp sem snýr að kjarasamningunum, en það er frumvarp um húsnæðisbætur. Mikilvægt er að það verði afgreitt sem fyrst út úr nefndinni til að markmið húsnæðismálanna nái fram að ganga.

Í 2. gr. frumvarpsins er fjallað um skilgreiningar. Þær snúast m.a. um breytingar á nafni frumvarpsins sem var almennar íbúðir, en lagt er til að rætt verði frekar um almennar félagsíbúðir. Lagt er til að í stað þess að nota hugtakið „almennt íbúðafélag“ verði þessi íbúðafélög nefnd húsnæðissjálfseignarstofnanir. Einnig er vert að nefna að hugtakið „áfangi“ var fellt út úr skilgreiningakaflanum þar sem áfangaskiptingin er felld brott úr lögunum, m.a. til að stuðla að meiri félagslegri blöndun í kerfinu.

Engar breytingar voru gerðar á 3. gr. frumvarpsins og því erum við komin í 4. gr. sem fjallar um almennt íbúðafélag. Þar kom ríkisskattstjóri með ábendingar er vörðuðu samþykktir eða skipulagsskrá almenns íbúðafélags. Nefndin brást við þeim athugasemdum og gerði breytingartillögur þar um. Auk þess er ákvæði þar sem fjallað er um hvernig fara skuli með rekstrarafgang almennra íbúðafélaga. Leggja nefndarmenn til að liðurinn falli brott. Nefndarmönnum finnst æskilegt að félögin hafi meira svigrúm til nýtingar rekstrarafgangs og þannig sé m.a. hægt að nýta hann til að jafna út leigu.

Fjallað er um stofnun félags og samþykktir í 5. gr. Þar er m.a. kveðið á um stofnun og stofnfé almennra íbúðafélaga, hvaða atriði skuli hafa í samþykktum eða skipulagsskrá félaganna, aðild að almennum íbúðafélögum, hvernig fara skuli með fyrirkomulag félagsfunda og hvernig skuli ráðstafa eignum félags séu þær umfram skuldir verði því slitið. Nefndarmenn leggja til að ýmis ákvæði greinarinnar falli brott, verða m.a. við athugasemdum ríkisskattstjóra um upptalningu á atriðum í samþykktum eða skipulagsskrá, og leggja til breytingar um félagsfundi þar sem íbúðafélögin eru sjálfseignarstofnanir en þær hafa ekki félagsmenn og því enga félagsfundi. Æðsta vald þeirra er sjálfstæðar stjórnir og því fellur þetta ákvæði laganna brott.

Aðrar breytingar á 5. gr. og þeim greinum sem á undan henni koma skýra sig sjálfar í nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem greint var frá í upphafi ræðunnar. Þær breytingar sem gerðar eru á 6. gr., um félagsstjórn og framkvæmdastjóra, og á 7. gr., um störf stjórnar, má jafnframt finna í umræddum þingskjölum sem vitnað var til að framan.

Í 8. gr. er fjallað um fulltrúaráð. Þar er m.a. lögð fram sú breyting að ekki er hægt að mæla fyrir um val á fulltrúaráði almenns íbúðafélags á aðalfundi félagsins enda er um að ræða sjálfseignarstofnanir sem hafa hvorki félagsmenn né félagsfundi. Telur nefndin eðlilegra að almennt íbúðafélag ákveði í samþykktum sínum eða skipulagsskrá hvernig val á fulltrúaráði fari fram. Nefndarmönnum fannst þó mikilvægt að tryggja aðkomu íbúa að stjórnun íbúðafélaganna og leggur því til að minnst þriðjungur fulltrúaráðsmanna skuli vera úr hópi leigjenda sé þess kostur. Jafnframt er fjallað um hvernig fulltrúaráð kýs stjórn og síðan skal það ákveðið nánar í samþykktum eða skipulagsskrá hvernig vali á leigjendum í fulltrúaráð verði háttað.

Fjallað er um framkvæmdasjóð í 9. gr. og um ársreikninga og endurskoðun í 10. gr. Þar er m.a. kveðið á um að almenn íbúðafélög skuli halda framkvæmdasjóð til að standa undir viðhaldi og nauðsynlegum endurbótum á almennum íbúðum og fasteignum þeirra. Gert er ráð fyrir að öll leiga af almennum íbúðum renni í sjóðinn að frátöldum greiðslum af lánum, rekstrarkostnaði og greiðslum í Húsnæðismálasjóð. Nefndin telur þó æskilegt að almenn íbúðafélög hafi meira svigrúm við nýtingu leigutekna þannig að þær megi t.d. nýta til að jafna leigu milli íbúa eða styrkja eigið fé. Eftir ábendingar sem bárust nefndinni um nauðsyn þess að hafa sérstaka sjóði til að standa undir viðhaldi og endurbótum leggur nefndin til þær breytingar að í stað framkvæmdasjóðs verði kveðið á um viðhaldssjóð sem skuli standa undir eðlilegu viðhaldi og nauðsynlegum endurbótum á almennum íbúðum og fasteignum sem þær tilheyra.

Aðrar breytingar á 8.–10. gr. skýra sig sjálfar í nefndaráliti og breytingartillögum sem getið var um að framan.

Virðulegur forseti. Þá erum við komin að veigamiklu atriði, en það er 12. gr. sem fjallar um stofnframlög, tekju- og eignamörk. Í 1. mgr. er ákvæði um hverjir geta fengið stofnframlög en það eru samkvæmt frumvarpi m.a. sveitarfélög vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og leigufélög í þeirra eigu, hafi þau verið starfandi við gildistöku laganna. Nefndin leggur til að heimildirnar verði ekki takmarkaðar við íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga eða að leigufélög hafi verið starfandi við gildistöku laganna, enda telur nefndin sveitarfélögum og lögaðilum á þeirra vegum treystandi til að halda utan um almennar íbúðir.

Í lok 1. mgr. er vísað til leigufélaga sem uppfylla skilyrði 23. gr. Nefndin leggur til að fram komi strax í málsgreininni um hvers konar lögaðila sé að ræða fremur en að vísað sé til 23. gr. Það er gert því skyni að ákvæðið verði sem aðgengilegast. Nefndin telur að í sérstökum tilvikum geti það þjónað markmiðum laganna að uppbygging almennra íbúða sé á vegum annars konar lögaðila en greinir í 1. mgr. 12. gr. Það gæti t.d. átt við ef húsnæðissamvinnufélag vildi hafa almennar íbúðir í leigufélagi á sínum vegum eða ef sveitarfélag vildi byggja upp almennar íbúðir í félagi við aðra. Nefndin leggur því til að veita megi stofnframlög til annarra með sérstöku samþykki ráðherra.

3. mgr. fellur brott þar sem áfangaskiptingin er tekin út úr lögunum, m.a. til að stuðla að félagslegri blöndun í kerfinu.

Í 4. mgr. kemur fram að óheimilt sé að veita stofnframlag vegna íbúðarhúsnæðis sem hefur verið keypt áður en sótt er um stofnframlag. Nefndinni var bent á að íbúðir sem kæmu til sölu seldust oft hratt og því gæti þurft að hafa snarar hendur við kaup. Erfitt gæti reynst að ganga ávallt frá umsókn um stofnframlag í tæka tíð. Með hliðsjón af ábendingunni leggur nefndin til að unnt verði að leggja fram umsókn allt að fjórum vikum frá kaupum. Sá sem kaupir íbúð án þess að hafa fengið samþykki við umsókn um stofnframlag ber þó vitaskuld áhættu af því að honum verði synjað um stofnframlag.

Í 4. mgr. koma einnig fram fyrirmæli sem eiga við þegar andvirði almennrar íbúðar er nýtt til kaupa á öðru íbúðarhúsnæði. Nefndin leggur til ögn breytta framsetningu til að skýra að þau eigi við þótt andvirðið sé notað til að kaupa dýrari íbúð, en ekki aðeins fleiri íbúðir, og að þau eigi við um byggingu íbúðar en ekki aðeins kaup.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilteknar greiðslur í framkvæmdasjóð og Húsnæðismálasjóð og endurgreiðslur stofnframlaga, þegar við á, hefjist þegar lán af almennri íbúð hafa verið greidd upp. Bent var á að auðvelt væri að komast hjá þeim með því að taka lán til mjög langs tíma og framlengja þau eða endurfjármagna ítrekað. Til að taka fyrir það leggur nefndin til að sett verði hámark á lánstímann. Á grundvelli upplýsinga sem nefndin aflaði sér um hver lánstími þyrfti að vera til að leiga yrði að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna leigjenda leggur nefndin til að hámarkið verði 50 ár.

Í 5. og 6. mgr. eru tilgreind tekju- og eignamörk leigjenda almennra íbúða við upphaf leigu. Nefndin leggur til að örlítil reikningsskekkja í 5. mgr. verði leiðrétt og að viðmiðin verði uppfærð vegna verðlagsbreytinga. Nefndin leggur einnig til að orðinu „samanlögð“ verði skotið fremst í 6. mgr. til að skýra að átt sé við samanlagða hreina eign beggja aðila eða allra leigjenda, ef tveir eða fleiri leigja almenna íbúð saman, en ekki eign hvers og eins.

Auk þess eru ákvæði sem falla brott og vísa ég þar í nefndarálit og þær breytingartillögur sem greint er frá að framan í ræðu minni.

Í 13. gr. er fjallað um stofnframlög ríkis vegna almennra íbúða. Þar leggur nefndin til að reynist endanlegt stofnvirði hærra en umsókn gerði ráð fyrir miðist stofnframlög við áætlað stofnvirði. Í því felst einnig aukinn hvati fyrir umsækjendur til að vanda til verka við áætlun stofnvirðis og halda kostnaði innan áætlana. Mikilvægt er að taka fram að nefndinni bárust útreikningar sem sýndu að nauðsynlegt væri að koma sérstaklega á móts við þá leigjendur sem verst stæðu ef leiga þeirra ætti að jafnaði ekki að vera umfram fjórðung tekna. Því leggur nefndin til að heimilt verði að veita allt að 4% viðbótarframlag vegna íbúðarhúsnæðis á vegum sveitarfélaga og íbúðarhúsnæðis sem ætlað er námsmönnum eða öryrkjum. Þar sem um sérstakan stuðning er að ræða leggur nefndin til að framlagið verði ekki endurgreitt eftir uppgreiðslu lána.

Fram kom fyrir nefndinni að sums staðar á landsbyggðinni væri skortur á leiguhúsnæði sem erfiðlega gengi að mæta því að ekki fengjust lán. Það ætti einkum við þar sem velta með fasteignir væri lítil eða markaðsverð verulega lægra en byggingarkostnaður og lánveitendur því tregir til að veita fasteignaveðlán. Í verstu tilvikunum gæti jafnvel reynst ómögulegt að fjármagna leiguíbúðir þrátt fyrir 30% stofnframlag frá ríki og sveitarfélögum. Í ljósi þessara ábendinga leggur nefndin til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita allt að 6 prósentustiga viðbótarframlag á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á almennum markaði. Um undantekningarheimild er að ræða sem nefndin gerir ráð fyrir að verði aðeins nýtt þegar ætla verður að 30% stofnframlag dugi ekki til. Nefndin leggur til hliðstæða breytingu á 16. gr. um stofnframlög sveitarfélaga. Heimildirnar verða þó sjálfstæðar. Ríki og sveitarfélagi verður þannig hvoru um sig heimilt að veita viðbótarframlag, hvort sem hinn aðilinn gerir það eður ei. Nefndin leggur þó til að sá munur verði á heimildunum að ekki megi krefjast endurgreiðslu á viðbótarframlagi ríkis eftir uppgreiðslu lána. Í því felst sérstakur byggðastuðningur frá ríki.

Nokkrir umsagnaraðilar og gestir nefndarinnar gagnrýndu að helmingur stofnframlags ríkis, sem væri í formi beins framlags, skyldi greiddur út þegar við samþykkt umsóknar því að í því fælist aukin áhætta fyrir ríkið og hætta á misnotkun. Svipuð gagnrýni kom fram varðandi stofnframlög sveitarfélaga. Á móti kom fram að fyrirkomulagið auðveldaði fjármögnun almennra íbúða og drægi úr þörf á dýrum brúarlánum sem ætti að skila sér í lægri leigu. Hvað varðar mögulega misnotkun bendir nefndin á að Íbúðalánasjóði er falið eftirlit með eigendum almennra íbúða og að misnotkunin geti varðað refsingu. Nefndin leggur því ekki til breytingar að þessu leyti.

Auk þess segir að stofnframlag í formi vaxtaniðurgreiðslu hefjist þegar almenn íbúð hefur verið tekin í notkun. Nefndin leggur til að hún hefjist fremur þegar afborgun af láni hefst, enda tilgangur hennar að létta á greiðslubyrði lána.

Samkvæmt greininni er heimilt er að setja það sem skilyrði fyrir stofnframlagi ríkis að það verði endurgreitt þegar lán af almennri íbúð hefur verið greitt upp. Hliðstætt ákvæði varðandi stofnframlög sveitarfélaga er í frumvarpinu. Ákvæðin sættu nokkurri gagnrýni. Bent var á að samkvæmt núgildandi 37. gr. laga um húsnæðismál væri veittur óafturkræfur stuðningur með niðurgreiddum vöxtum. Töldu sumir stofnframlög fela í sér minni stuðning, eða jafnvel engan stuðning, væri gerð krafa um endurgreiðslu þeirra. Nefndin bendir á að í frumvarpinu sé ekki gert ráð fyrir því að krafa um endurgreiðslu stofnframlaga beri vexti fyrr en frá þeim degi sem hún er sett fram, sem er líklegt að verði ekki fyrr en að liðnum áratugum frá afhendingu framlaganna. Einnig er gert ráð fyrir því að hluti framlaga kunni að vera greiddur þegar við samþykkt umsóknar og að endurgreiðslukröfur komi aftar í veðröð en lán af íbúð. Hvort tveggja felur í sér aukna áhættu ríkis og sveitarfélaga í því skyni að lækka fjármagnskostnað umsækjanda. Stofnframlög fela því í sér talsverðan stuðning þótt þau beri að endurgreiða.

Þá erum við komin að 15. gr. og þar segir m.a. að Íbúðalánasjóði verið heimilt að líta til byggðasjónarmiða við mat á umsóknum um stofnframlög. Getur það t.d. átt við ef skortur er á leiguhúsnæði sem stæði atvinnuuppbyggingu í byggðarlaginu fyrir þrifum. Byggðasjónarmið koma einnig til skoðunar við mat á því hvort veita beri viðbótarframlag vegna íbúða á svæðum þar sem skortur er á leiguhúsnæði og bygging íbúða hefur verið í lágmarki eða sérstök vandkvæði á því að fá fjármögnun á almennum markaði.

Í 16. gr. er fjallað um stofnframlög sveitarfélaga, en þau geta m.a. falist í lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda um stofnframlag ber að standa skil á til sveitarfélags vegna byggingar eða kaupa á almennum íbúðum. Nefndin leggur til að ákvæðið verði gert afdráttarlausara með því að fram komi að stofnframlagið geti falist í beinu framlagi, úthlutun lóða eða lækkun eða niðurfellingu á gjöldum sem umsækjanda ber að standa skil á til sveitarfélagsins vegna íbúðanna. Í greininni er kveðið á um heimild til að greiða helming stofnframlags sveitarfélags við samþykkt umsóknar. Frumvarpið gerir þó ráð fyrir að sveitarfélag samþykki umsókn áður en Íbúðalánasjóður fjallar um hana og að samþykki sveitarfélags falli niður synji Íbúðalánasjóður umsókn. Það væri óheppilegt ef sveitarfélag hefði þegar veitt helming stofnframlags ef Íbúðalánasjóður hafnaði svo umsókn. Nefndin leggur því til að fyrri helmingur stofnframlags sveitarfélags greiðist ekki fyrr en við samþykkt Íbúðalánasjóðs á umsókn um stofnframlag ríkisins.

Auk þess eru önnur ákvæði í greininni sem nefndarmenn leggja til að falli brott. Þau eru skýrð í nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem gerð var grein fyrir framar í framsögu.

17. gr. fjallar um endurgreiðslu stofnframlaga, veð og kvaðir. Nefndin leggur til nokkrar breytingar á þessari grein til að greina vel á milli endurgreiðsla eftir því hvort þær stafa af því að íbúð sé færð úr almenna íbúðakerfinu eða því að lán vegna hennar hafi verið greidd upp, og skýra hvernig endurgreiðslu skuli háttað í hvoru tilviki.

Í greininni er undanþága frá endurgreiðslu stofnframlags við sölu almennrar íbúðar ef andvirðið er notað til kaupa á íbúðarhúsnæði sem nota á í sama tilgangi. Nefndin leggur til að undanþágunni verði settur árs rammi og að skýrt verði að hún nái til byggingar íbúðarhúsnæðis en ekki aðeins til kaupa. Nefndin leggur einnig til að eigendum verði með samþykki Íbúðalánasjóðs heimilt að færa sérstakt stofnframlagabókhald og gera þá aðeins upp stofnframlög með reglulegu millibili en ekki þegar í stað vegna hverrar seldrar íbúðar. Hagræði getur verið af því ef um er að ræða lögaðila sem heldur utan um mikinn fjölda íbúða og byggir eða kaupir og selur íbúðir reglulega. Gert er ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um bókhaldið, þar á meðal um hvenær uppgjör skuli fara fram og vexti af endurgreiðslukröfum.

Jafnframt segir að endurgreiðsla á stofnframlagi ríkisins skuli renna í ríkissjóð en endurgreiðsla á stofnframlagi sveitarfélags til viðkomandi sveitarfélags. Endurgreiðslur skuli nýta til veitingar frekari stofnframlaga sé þörf á fleiri almennum íbúðum. Nefndin fellst á að rök séu fyrir því að endurgreidd stofnframlög sveitarfélags renni til viðkomandi sveitarfélags, enda nýtast þau þá við áframhaldandi uppbyggingu á almennum íbúðum í því sveitarfélagi. Aftur á móti leggur nefndin til að endurgreidd stofnframlög ríkis renni til Húsnæðismálasjóðs fremur en í ríkissjóð. Með því móti má flýta talsvert fyrir uppbyggingu félagsauðs í Húsnæðismálasjóði.

Nefndin leggur til að upphafsorð 4. mgr., um að stofnframlag skuli endurgreitt að fullu, falli brott. Endurgreiðslur kunna að vera minni en stofnframlög því að endurgreiðslur miðast við áætlað söluverð íbúðar en stofnframlög við kostnaðarverð. Kostnaðarverð kann að vera hærra en söluverð, einkum á svæðum þar sem byggingarkostnaður er hærri en markaðsverð.

Jafnframt kemur það fram að krafa um endurgreiðslu stofnframlaga skuli tryggð með veði í hlutaðeigandi íbúð og koma í veðröð næst á eftir lánum af henni. Lagt var til að krafan nyti lögveðs í því skyni að lágmarka áhættu ríkis og sveitarfélaga og draga úr umsýslu vegna veðleyfa, ellegar að krafan kæmi fremst í veðröð. Það yki á móti áhættu lánveitanda og þar af leiðandi líklega fjármagnskostnað, en sá kostnaður rynni að líkindum út í leiguverð. Breytingin ynni þannig gegn því markmiði frumvarpsins að lækka leigu. Nefndin leggur því ekki til breytingar í þessa veru.

Auk þess er mælt fyrir þinglýsingu kvaðar á íbúð við veitingu stofnframlags. Bent var á að þegar stofnframlög væru veitt til nýbygginga væru engar íbúðir til staðar. Nefndin leggur því til að mælt verði fyrir um þinglýsingu á fasteign fremur en íbúð. Þinglýsingin getur þá eftir atvikum tekið til lóðar fremur en tilbúinnar íbúðar.

18. gr. um almennar íbúðir er breytt á þann veg að árétta að þrátt fyrir að lögð sé áhersla á hagkvæmni megi ekki slá af kröfum tímans um sómasamlegt húsnæði og hafa verði í huga framtíðarþarfir, svo sem vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Nánar er kveðið á um atriði er varða 18. gr. í nefndaráliti og breytingartillögum sem greint var frá að framan.

19. gr. fjallar um ákvörðun leigufjárhæðar. Í frumvarpinu er miðað við að leiga fyrir almennar íbúðir miðist við áfanga. Þetta fyrirkomulag fékk á sig talsverða og veigamikla gagnrýni. Með því yrði erfiðara að stuðla að félagslegri blöndun innan áfangakerfisins. Það sættu nefndarmennirnir sig ekki við og tóku því út áfangana og reyna þar með að stuðla að meiri félagslegri blöndun innan þessa kerfis.

Í greininni er jafnframt fjallað um hvort heimila ætti eigendum almennra íbúða að innheimta markaðsleigu ef leigjendur færu yfir tekju- eða eignamörk sem sett eru fram í frumvarpinu. Fyrir því standa þau rök að markmið frumvarpsins er að styðja við tekjulægra fólk. Leggur nefndin því til að heimilt verði að reikna álag á leigu ef leigjandi er umfram tekju- eða eignaviðmið í samfellt þrjú ár eftir nánari reglum sem ráðherra setur í reglugerð. Gert er ráð fyrir að miðað verði við tiltekið hlutfall tekna eða eigna umfram viðmiðin sem tilgreind eru þannig að jaðaráhrif af hækkuninni verði ekki of mikil. Heimildin krefst þess að eigendur almennra íbúða geti aflað upplýsinga um tekjur og eignir leigjenda. Nefndin leggur því til að þeim verði heimilt að krefjast afrita síðustu þriggja skattframtala leigjenda. Nánar er kveðið á um þessi atriði í því nefndaráliti og þeim breytingartillögum sem greint var frá hér að framan.

20. gr. fjallar um úthlutun almennra íbúða, að þeim skuli úthlutað af eiganda þeirra. Víða er það svo að félög og stofnanir fela félagsþjónustu sveitarfélaga að annast úthlutun á félagslegu húsnæði í sinni eigu. Nefndin telur ekki tilefni til að hrófla við því og leggur því til að eiganda verði heimilt að semja við viðkomandi sveitarfélag um að annast úthlutunina. Auk þessa segir að leigjendur sem hafa fengið íbúð úthlutað en vegna breyttra aðstæðna hafa þörf fyrir annars konar íbúð skuli eiga forgang við úthlutun slíkrar íbúðar hjá sama eiganda. Þótt það sé alla jafna eðlilegt telur nefndin að sérstakar aðstæður kunni að réttlæta frávik. Nefndin leggur því til að orðunum „að jafnaði“ verði skotið inn í málsliðinn. Í sömu málsgrein segir að við úthlutun almennra íbúða skuli stuðla að fjölbreyttri samsetningu íbúa og félagslegri blöndun. Félagsstofnun stúdenta taldi óvíst hvort áskilnaðurinn væri samræmanlegur starfsemi sinni, enda þjónustaði hann aðeins einn þjóðfélagshóp, stúdenta við Háskóla Íslands. Nefndin telur þessa afmörkun á skjólstæðingum Félagsstofnunar stúdenta ekki kalla á breytingu á ákvæðinu, enda bakgrunnur stúdenta við Háskóla Íslands misjafn.

Í greininni segir jafnframt að heimilt sé að leigja almenna íbúð tímabundið leigjanda sem er yfir tekju- og eignamörkum frumvarpsins. Nefndin leggur til að þá megi krefjast markaðsleigu, enda ekki tilgangur frumvarpsins að niðurgreiða leigu efnameira fólks.

Virðulegur forseti. Þá er komið að 22. gr. sem fjallar um íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélaga og annarra félaga. Þar eru lagðar til ýmiss konar breytingar og er greint frá þeim í nefndaráliti og breytingartillögum.

Í 23. gr. sem fjallar um félög, önnur en þau sem eru í eigu sveitarfélaga, eru jafnframt lagðar til breytingar á ákvæðum, m.a. að sum þeirra falli brott. Eins og með 22. gr. vísa ég í nefndarálit og breytingartillögur.

Hvað varðar Húsnæðismálasjóð, sem fjallað er um í 24. gr., er lagt til að frumvarpinu verði vísað aftur til hv. velferðarnefndar að þessari umræðu lokinni, en þar munu nefndarmenn fara yfir þau ákvæði er snúa að sjóðnum. Í 3. umr. um málið mun ég ræða ítarlega um hlutverk Húsnæðismálasjóðs og það sem viðkemur honum.

Að lokum eru kaflar sem fjalla um eftirlit, gildistöku þessara laga, breytingar á öðrum lögum og ákvæði til bráðabirgða. Þar vísa ég eins og oft áður í þessari framsögu minni í nefndarálit á þskj. 1266 og breytingartillögur á þskj. 1267. Eins og að framan segir er lagt til að málið fari aftur til hv. velferðarnefndar að umræðu lokinni.

Mig langar í lokin að minnast á það og þakka enn og aftur fyrir mikla og góða vinnu hv. þingmanna í hv. velferðarnefnd og þakka nefndarritara velferðarnefndar fyrir gríðarlega mikla vinnu. Það hefur verið verulega góð samstaða milli allra nefndarmanna um að koma þessu máli í gegn og allir hafa lagt mikið af mörkum við það. Eins áður hefur komið fram er frumvarpið samofið öðru frumvarpi sem fjallar um húsnæðisbætur. Til að markmið ríkisstjórnarinnar um að leigjendur greiði ekki meira en 20–25% af tekjum í leigu er mikilvægt að bæði þetta frumvarp sem fjallar um almennar félagsíbúðir og frumvarp um húsnæðisbætur nái fram að ganga, því að markmið þeirra er að ná því fram að ekki fari meira en um 20–25% af ráðstöfunartekjum einstaklinga í leigugreiðslur. Því er mikilvægt að frumvarp um húsnæðisbætur verði afgreitt fljótt og vel út úr velferðarnefnd. Ég hef enga trú á öðru en að svo verði miðað við þá góðu samvinnu sem ríkt hefur í nefndinni hingað til.

Ég fagna því sérstaklega að við náum ákveðnum áföngum varðandi byggðasjónarmið með frumvarpinu og að við veitingu stofnframlaga sé m.a. horft til byggðasjónarmiða. Þar sjáum við m.a. hærri stofnstyrki til ákveðinna svæða sem ég tel mjög mikilvægt því að við vitum að þörf fyrir leiguhúsnæði er víða mikil á landsbyggðinni.

Ég er komin að lokum þessarar framsögu. Elsa Lára Arnardóttir, sá hv. þingmaður sem hér stendur, hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en rita undir álit þetta samkvæmt 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður velferðarnefndar, Elsa Lára Arnardóttir, framsögumaður málsins, Ásmundur Friðriksson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Páll Valur Björnsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Unnur Brá Konráðsdóttir.