145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir andsvarið þó að það snúist nú ekki almennt séð um félagsíbúðir. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, gerðar hafa verið gríðarlega miklar breytingar á því frumvarpi sem hér um ræðir. Það sýnir bara hvað þingið er valdamikið að þingmenn geta verulega sett mark sitt á frumvörp sem koma til vinnslu. En af því hv. þingmaður spyr um afnám verðtryggingar þá er unnið að tillögum um verðtryggingarmálin í ráðherranefnd þar sem verið er að endurskoða fjármálakerfið í heild sinni. Meðal annars er verið að skoða úrræði fyrir fyrstu kaupendur. Þar undir liggja málefni verðtryggingarinnar.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ég hef verið iðin við að ræða um mikilvægi afnáms verðtryggingar í þingsal og þar til við sjáum tillögur sem ég get mögulega sætt mig við í þeim efnum held ég áfram að ræða mikilvægi þess að við förum í afnám verðtryggingar á neytendalánum. Ég mun halda áfram að ræða það í þingsal þar til ég sé frumvörp þess efnis.