145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:44]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Litlu er ég nær um vinnu við afnám verðtryggingar vegna þess að málið er búið að vera í ráðherranefnd alla tíð, allt þetta kjörtímabil, það sem liðið er af því. Nú segir hv. þingmaður að ráðherranefnd fjalli um málið.

Fram hefur komið í máli hæstv. fjármálaráðherra, sem mér skilst að sé verkstjórinn í þeirri vinnu og eigi að vinna þá vinnu, að ekki standi til af hans hálfu að koma fram með frumvarp um afnám verðtryggingar það sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Það er ekki nóg að koma hér og ræða þetta í störfum þingsins. Framsóknarflokkurinn er að svíkja þetta aðalkosningaloforð sitt og kemur ekki fram með neina tillögu í þeim efnum. Það er það sem stendur upp úr. Ég trúi því ekki að Framsóknarflokkurinn ætli að láta það gerast að engar tillögur komi fram í þessum efnum.