145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:48]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í framsögu minni varðandi þetta nefndarálit þá eiga allir hv. þingmenn í velferðarnefnd þakkir skildar fyrir mikla og góða vinnu við frumvarpið. Það á bæði við um þingmenn stjórnarmeirihlutans og jafnframt um hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar. Hv. þingmaður talar um að þessi frumvörp hafi verið lengi á leiðinni. Þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í tæplega þrjú ár, en það má heldur ekki gleyma því að þingflokkur hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar var að mig minnir í sjö ár í ríkisstjórn og það bólaði ekki á þessum leigumarkaðsmálum þann tíma. Ég bið hv. þingmann því um að líta aðeins í eigin barm þegar hann setur fram gagnrýni um seinagang í þessum málum.