145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. velfn. (Elsa Lára Arnardóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir andsvarið, sem var kannski meira ábending um og við það sem ég sagði í framsögu minni. Samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar við aðila vinnumarkaðarins ASÍ og þá, liggja tvö frumvörp undir því samkomulagi, annað þeirra er það frumvarp sem við erum með til umræðu hér og hitt frumvarpið er frumvarp um húsnæðisbætur. Það er mjög mikilvægt að mínu mati að það frumvarp nái fram að ganga þar sem það felur í sér aukinn stuðning við aðila á leigumarkaði. Því finnst mér afar mikilvægt að nefndin haldi áfram þeirri góðu samvinnu sem verið hefur hingað til og reyni að leggja sitt af mörkum til að afgreiða frumvarp um húsnæðisbætur úr nefndinni því að þar eru ýmis ákvæði sem ekki eru til staðar í núverandi húsaleigulögum um breytingar varðandi stuðning við fjölskyldur.

Eins og ég segi vona ég bara að samstaða verði innan hv. velferðarnefndar um að klára það frumvarp eins vel og við höfum klárað þetta. Það er langt komið. Öllum gestakomum vegna málsins er lokið. Næsta skref er að taka umræðu um málið og reyna að byrja á nefndaráliti vegna þess.