145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[11:58]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við í Samfylkingunni stöndum heils hugar að afgreiðslu þessa máls og fögnum því að það sé loks að verða að veruleika. Í ræðu minni ætla ég í fyrsta lagi að fara yfir húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar, í öðru lagi vinnulag nefndarinnar við vinnslu málsins, í þriðja lagi mikilvægustu breytingarnar, í fjórða lagi þau atriði sem skoða þarf nánar á milli umræðna og í fimmta lagi þau atriði sem ég er ekki fyllilega sátt við þó að ég láti það yfir mig ganga á þessu stigi málsins.

Samfylkingin er nátengd verkalýðshreyfingunni í sögunni og hafa húsnæðismál alltaf verið þar ofarlega á baugi. Við vitum að húsnæðismál eru ekki bara stórt efnahagsmál heldur stærsta velferðarmálið sem lýtur að húsnæðisöryggi landsmanna. Við teljum því að hið opinbera þurfi að vera með virka innkomu á húsnæðismarkaði til þess að ná þeim markmiðum að tryggja húsnæðisöryggi fyrir alla landsmenn.

Á árunum 2007–2009 var Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og stóð að fjölgun leiguíbúða á niðurgreiddum vöxtum. Í ríkisstjórninni sem Jóhanna Sigurðardóttir leiddi svo á árunum eftir hrun voru þeir hv. þm. Árni Páll Árnason og hv. þm. Guðbjartur Hannesson félagsmálaráðherrar. Þeir voru með mikla húsnæðisvinnu í gangi. Niðurstöðurnar úr þeirri vinnu komu fram í tillöguformi árið 2011. Fara þurfti í frekari vinnu á grundvelli þeirra, en þar var lagður grunnurinn að þeirri stefnu sem sátt var um við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga, um eflingu almenns leigumarkaðar með uppbyggingu félaga án hagnaðarsjónarmiða og nýtt kerfi húsnæðisstuðnings í formi húsnæðisbóta þar sem sameina átti vaxtabætur og húsaleigubætur í eitt kerfi.

Þessi ríkisstjórn hefur, eins og fram hefur komið í umræðunni, verið við völd í þrjú ár. Nú loksins, fimm árum eftir að þessar tillögur litu dagsins ljós, eru þær að verða að veruleika m.a. í þessu frumvarpi. Þetta er stórt og mikið frumvarp og við höfum lagt í það mikla vinnu. Ég ætla aðeins að fara yfir vinnulagið svo fólk átti sig á umfangi þess.

Við fengum eins og alltaf í upphafi kynningu frá ráðuneytinu á málinu. Svo kölluðum við til okkar á fund þá umsagnaraðila sem sent höfðu inn umsagnir. Þeir voru allmargir. Þá óskuðum við eftir viðbrögðum ráðuneytisins við umsögnum og fengum þau og sendum í kjölfarið fjöldann allan af mjög ítarlegum spurningum til ráðuneytisins varðandi atriði sem við þurftum að skoða nánar. Þá var það þannig að Analytica uppfærði útreikninga sína því að það voru gallar í þeim.

Síðan vil ég taka fram að fulltrúar frá Félagsbústöðum, Félagsstofnun stúdenta og Íbúðalánasjóði lögðu okkur mikið lið með því að stilla upp hvaða forsendur þyrftu að vera í lagi til þess að breytt kerfi kæmi betur út fyrir þá sem leigja, eins og t.d. hjá Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústöðum. Kann ég þeim kærar þakkir fyrir þá vinnu sem þau lögðu á sig fyrir okkur endurgjaldslaust og alla þá fundi sem þau voru tilbúin til þess að mæta á og stuðla að því að kerfið yrði sem best úr garði gert. Þegar við höfðum farið yfir það allt saman lögðum við til fjöldann allan af breytingartillögum. Þær eru nú hérna 34 talsins, langflestar til bóta þó að ég sé ekki sátt við tvær þeirra.

Þá vil ég þakka framsögumanni málsins fyrir mjög ötula vinnu. Hún hefur verið vakin og sofin yfir þessu máli sem og öll nefndin og hafa nefndarmenn lagt sig alla fram um að ná sátt og bæta málið þannig að við stuðluðum að því að byggja hér upp öflugan leigumarkað og tryggja húsnæðisöryggi allra. Ég vil líka þakka nefndarritaranum sem lagt hefur á sig gríðarlega og ákaflega vandaða vinnu, og ítreka að að sjálfsögðu bera nefndarmenn ábyrgð á öllu því sem aflaga kann að hafa farið í vinnunni. En þetta var gríðarlega mikil vinna, eins og gefur að skilja þegar verið er að gera svo miklar breytingar.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um þær breytingar sem ég tel vera mikilvægastar til að bæta málið. Það eru ekki tæknilegu úrvinnsluatriðin heldur atriði sem lúta að húsnæðispólitíkinni í málinu. Þar tel ég vera aukinn sveigjanleika um félagsform. Frumvarpið gerði ráð fyrir því að það væru eingöngu sérstakar sjálfseignarstofnanir sem fengið gætu stofnframlög, en við opnum á það að sveitarfélögin geti stofnað félög, einkahlutafélög eða önnur sem eru þeirra félög, til þess að auka sveigjanleikann fyrir þau. Þarna er undanþága þar sem ráðherra getur veitt sérstaka heimild ef t.d. húsnæðissamvinnufélög vilja stofna dótturfélög fyrir leigufélög. Við teljum að með því séum við að auka líkurnar á því að sterkir aðilar á fasteignamarkaði muni að taka þátt af meira afli í verkefninu og íbúðum fjölgi frekar. En að sjálfsögðu eru kröfurnar þær sömu og þetta er eingöngu til þeirra félaga sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða.

Markmiðið með frumvarpinu var að leiga yrði ekki hærri en sem næmi 20–25% af tekjum, en það kom hvergi fram í frumvarpinu og við setjum það inn í lagatextann að það sé markmiðið með því. Það styrkir stöðu þeirra sem eiga að búa í þessu húsnæði og greiða leigu að þau viðmið séu í lagatextanum. Þá geta breytingar í húsnæðisbótakerfinu líka tekið mið af því á hverjum tíma.

Svo breytum við ákvörðunum um leigu. Það verður meira svigrúm til að lækka leiguna ef félögin eru í færum til þess. Þá er hægt að jafna henni á milli svæða þannig að dýrari svæði verða ekki hlutfallslega jafn dýr í útleigu af því að hægt er að jafna leiguna á milli mismunandi eininga innan sjálfseignarstofnananna. Það er gert til þess að auka félagslega blöndun og reyna að tryggja betur að húsnæði sem þetta verði ekki bara byggt á ódýrustu svæðunum.

Þá bættum við viðbótarframlagi við vegna byggðasjónarmiða sem ég ætla ekki að ræða hérna sérstaklega, sem er gott ákvæði, en við leggjum líka til viðbótarstofnframlag upp á 4% frá ríkinu vegna húsnæðis á vegum sveitarfélaga, húsnæðis fyrir námsmenn og húsnæðis fyrir öryrkja. Það eru viðbrögð við umsögnum og vinnu þeirra aðila sem ég taldi upp áðan, frá Félagsbústöðum, Félagsstofnun stúdenta og Íbúðalánasjóði, og útreikningum frá þeim. Við teljum mikilvægt að hafa þetta inni til að tryggja að markmiðið um 20–25% af tekjum í leigugreiðslur nái fram að ganga.

Þá gerðum við breytingar á Húsnæðismálasjóði þannig að stofnframlög frá ríkinu verða ekki greidd beint í ríkissjóð heldur í Húsnæðismálasjóð. Það er til þess að efla sjóðinn fyrr þó að þetta sé nú langtímasjónarmið, en það mun líka valda því að ekki munu líða 40–50 ár þangað til greiðslur fara að koma inn í sjóðinn. Samkvæmt frumvarpinu hefði það tekið enn lengri tíma, en ef einhverjir fá stofnframlög og breyta síðan tilgangi þeirra félaga sem þau eru byggð í verða þeir að endurgreiða stofnframlögin. Þá renna þau inn í Húsnæðismálasjóð. Markmiðið er Húsnæðismálasjóður verði sjálfbær og að ríkið veiti stofnframlög sín úr honum. En það er nú áratugi fram í tímann og kannski geta barnabörnin mín eða barnabarnabörnin mín hugsað hlýlega til okkar fyrir að hafa búið til gott kerfi. En ég vona að þetta kerfi verði þá orðið öflugt og til fyrirmyndar í samfélagi þar sem við viljum að allir búi í góðu húsnæði og njóti húsnæðisöryggis.

Varðandi Húsnæðismálasjóð þá komum við að dálitlum vanda í frumvarpinu því að danska kerfið „almene boliger“ er fyrirmynd að þessu kerfi. Þar fá félögin stofnframlög en greiða þau ekki til baka, en þau greiða þau síðar óbeint til baka inn í Húsnæðismálasjóð. Vegna skuldaþaks sveitarfélaganna vildu sveitarfélögin að þau gætu veitt þessi stofnframlög sem lán, sem bera þá ekki vexti í 40–50 ár en fara svo að bera vexti þegar greiða á af þeim eftir að uppgreiðslu annarra lána sem hvíla á fasteignunum hefur verið lokið. Með því móti geta sveitarfélögin eignfært þetta stofnframlag. Það hefur þá ekki áhrif á skuldaþak þeirra. Ríkið telur eðlilegt að tryggja sína hagsmuni líka, þannig að nú er heimild til að krefjast þess að allt verði greitt til baka. Það verður þá að koma fram þegar stofnframlagið er veitt hvort endurgreiðslu muni verða krafist. Verði það gert munu félögin greiða til baka stofnframlagið þegar þar að kemur, en að því loknu munu þau halda áfram að greiða í Húsnæðismálasjóð. Það er m.a. gert til þess að þessi félög fari ekki að safna upp of miklu eigið fé, heldur sé ýtt undir áframhaldandi uppbyggingu í kerfinu. Við bjuggum þarna til ákveðið millistig og tíminn verður að leiða í ljós hvort því fyrirkomulagi þurfi kannski að breyta.

Sveitarfélögin vildu tryggja hagsmuni sína með því að stofnframlögin væru ekki lán á 2. veðrétti heldur lögveð. Alþýðusamband Íslands og fleiri bentu á að ef um lögveð væri að ræða mundu aðrir fjármögnunaraðilar húsnæðisins líta svo á að áhættan af lánveitingu yrði meiri fyrir þá. Það mundi gera vaxtakjörin ófýsilegri og vinna gegn markmiðum frumvarpsins. Við gerðum því ekki breytingar í átt til lögveðs. Í upphafi komu áhyggjur af því að með því að eignfæra framlögin hjá sveitarfélögunum þyrfti að skuldfæra þau hjá félögunum og þar af leiðandi yrði eigið fé nánast ekkert í félögunum þegar þau hæfu starfsemi sína. Það eitt og sér mundi hafa neikvæð áhrif á fjármögnunarkjör. Þetta þarf nefndin að skoða á milli umræðna, en Alþýðusamband Íslands hefur bent á að hægt sé að hafa framlögin með víkjandi láni þannig að sveitarfélögin geti eignfært þau, en sjálfseignarstofnanirnar sem eiga að byggja íbúðirnar geti fært þessi framlög inn í sinn eigin fjárgrunn. Það er verkefni sem bíður okkar á milli umræðna og við ræðum það betur við 3. umr. þegar í ljós kemur hvaða niðurstöðu við náum.

Mig langar að lokum að fara yfir þau þrjú atriði sem ég mundi vilja sjá með öðrum hætti. Ég ákvað þó að vera ekki með fyrirvara á nefndarálitinu því að ég tel að nefndin hafi unnið gríðarlega vel saman, við þurftum að miðla málum til þess að sameiginlegri niðurstöðu og ég ætla að virða þá málamiðlun. Ég ætla hér að lýsa því sem ég hefði viljað sjá framkvæmt með öðrum hætti.

Í fyrsta lagi er það nafnið, Almennar íbúðir. Á Íslandi búum við við þá blekkingu að við teljum að það sé til eitthvað sem heitir almennur leigumarkaður. Svo er varla. Það er enginn frjáls markaður fyrir leigu nema í mjög bágborinni mynd. Við erum með stóru félögin sem eru drifin án hagnaðarsjónarmiða. Þar eru húsnæðissamvinnufélögin, húsnæði á vegum sveitarfélaga, Félagsstofnun stúdenta, Byggingafélag námsmanna, Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins. Þetta eru stór félög sem mynda í raun hinn raunverulega almenna leigumarkað því að þau eru traust, þau eru ekki rekin með hagnaðarsjónarmiði heldur eru þau rekin með langtímamarkmið í huga. Síðan eru örfá félög á hinum frjálsa markaði. Við vitum ekkert hvað þau ætla að vera. Gamma og Heimavellir eru þar stærst, félög sem ekki hafa starfað lengi og eru fjárfestingarfélög fyrst og fremst. Við vitum ekki hvenær þeim hentar að selja eignir sínar. Síðan erum við auðvitað með fjöldamarga einstaklinga sem leigja út íbúðir í sinni eigu og er það vel, og oft á mjög hagstæðum kjörum, en það er í undantekningartilfellum að fólk búi við húsnæðisöryggi í slíku húsnæði því að maður veit aldrei hvenær eigandanum hentar að segja upp leigusamningnum til þess að nota húsnæðið í öðrum tilgangi eða selja það. Mér finnst að það hefði verið miklu eðlilegra að kalla þetta bara almennar íbúðir. Mér er farið með tímanum farið að þykja vænna og vænna um það nafn, en þarna var skotið inn forskeytinu „félags-“ við íbúðir. Ég er félagshyggjukona, ég er sósíalisti, ég er mjög hrifin af öllu félagslegu. En Íslendingar nota yfirleitt félag eða félagslegt ef það tengist húsnæði til þess að merkja það ákveðnum hóp. En húsnæði er ekki félagslegt í eðli sínu. Aðstæður fólks eru mismunandi á mismunandi tímum. Það þarf mismunandi stuðning í samræmi við það. Þar af leiðandi hefði ég viljað sjá nafnið óbreytt og er sammála hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra og Alþýðusambandi Íslands um að þetta er fyrirmyndarnafn.

Þá er það annað atriði sem var rætt í nefndinni. Samkvæmt frumvarpinu voru tekju- og eignamörk, maður þarf að vera undir ákveðnum tekju- og eignamörkum til þess að komast inn í kerfið. Það er miðað við tvo lægstu tekjufimmtungana. Síðan þegar maður er kominn inn í kerfið má maður bara búa þar óháð því hverjar tekjur manns og eignir verða. Mér finnst það jákvætt því að það ýtir undir félagslega blöndun, en síðan er líklegt að eftir því sem efnahagur vænkast, fólk eldist, þ.e. kannski kemur þarna inn ungt fólk á tiltölulega lágum tekjum og svo eldist það og börnum fjölgar, hagur vænkast, og þá fer fólk í annars konar húsnæði, þannig að ég held að þetta sé ekki vandamál. En það var vilji til þess innan nefndarinnar að breyta því og við fundum leið til þess að breyta þessu örlítið þannig að maður má sannarlega búa áfram í húsnæðinu, en ef maður er með tekjur yfir tekjuviðmiðunum í þrjú almanaksár má reikna ákveðið álag á leiguna. Við tökum fram að það á að vera hófstillt þannig að það verði ekki miklir og snöggir jaðarskattar af þeirri breytingu. Mér finnst útfærslan á breytingunni góð þó að ég hefði viljað sjá þetta án breytinga.

Að lokum á svo að setja 1.500 millj. kr. inn í þetta kerfi í fjögur ár. Sagt er í frumvarpinu að þetta séu 480 íbúðir á ári miðað við 1.500 milljarða. Það verða færri íbúðir vegna breyttra forsenda við útreikninga, hvort það nær 400 íbúðum eða 420 skal ég ósagt látið. Fyrir liggur að þetta verða aldrei meira en 1.600 íbúðir og 1.500 millj. kr. á ári í fjögur ár duga ekki fyrir 2.400 íbúðum, þó að í texta í frumvarpinu sé látið að því liggja að þetta eigi að verða 2.400 íbúðir. Þetta er alls ekki nóg af íbúðum. En þegar kerfið er komið á laggirnar hef ég alla trú á því að þetta verði gott kerfi sem muni lifa hér til framtíðar. Þá er alltaf hægt að bæta fjármunum í það. Fyrir því munum við í Samfylkingunni beita okkur.