145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[12:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér við 2. umr. nefndarálit um frumvarp til laga um almennar íbúðir. Eins og aðrir nefndarmenn í velferðarnefnd vil ég leggja á það áherslu að þrátt fyrir að ekki væru allir á eitt sáttir þegar umrætt frumvarp kom fram hefur nefndarmönnum tekist með bæði mikilli vinnu, mikilli samvinnu og málamiðlun, að klára þetta verkefni og koma því inn til Alþingis í 2. umr. í því formi sem það er. Ég vil líka leyfa mér, virðulegur forseti, að nefna ritara nefndarinnar, Gunnlaug Helgason, sem hefur verið vakinn og sofinn yfir þeim breytingum sem hér eru, komið með miklar og góðar athugasemdir og með sína lögfræðimenntun leitt okkur oft á réttari braut en við vorum kannski á í upphafi. Það er nefnilega þannig að án þeirra sem starfa með okkur í þinginu þá ávinnst harla lítið. Þannig að mér þykir ástæða til að taka þetta fram.

Það er í raun merkilegt að það skuli hafa tekist þverpólitísk sátt um jafn stórt og viðamikið mál og þetta. Ég vil taka undir orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, það væri ágætt ef þeir sem eru úti á akrinum og halda að hér sé ekkert vel gert, íhuguðu stundum þau stóru orð sem látin eru falla um þessa stofnun. Þessi vinna velferðarnefndar og fulltrúa allra hinna ólíku flokka sem þar eiga sæti sýnir svart á hvítu að ef viljinn er fyrir hendi þá er hægt að vinna vel.

Virðulegur forseti. Frumvarpinu er ætlað að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi og á að taka til þeirra sem tekjulægri eru. Leigan á að líka að vera í samræmi við þau tekju- og eignaviðmið sem þeir sem inn í slíkt kerfi fara uppfylla. Það er afar mikilvægt, eins og hér var rætt, að það húsnæði sem byggt verður með þeim hætti sem hér er lagt til uppfylli almennar kröfur um hönnun, að hér sé ekki verið að ráðast í byggingu lélegri íbúða en hjá öðrum sem byggja sínar íbúðir. Ég vil leggja áherslu á það og er ánægð með þær breytingar sem urðu á 18. gr. frumvarpsins.

Vert er líka að minnast á það strax í upphafi að ég tel að sú breyting sem nefndin gerði á frumvarpinu þess eðlis að aðrir en sjálfseignarstofnanir geti komið inn sem aðilar að byggingu íbúða af þessu tagi sé af hinu góða. Þekking og hagur þeirra félaga sem hafa starfað í þessum geira og í svokölluðum „non profit“ farvegi er tryggður með því að veita þeim heimild í frumvarpinu til þess að koma hér inn. Þar getum við nefnt Félagsbústaði, við getum nefnt stúdentaíbúðirnar, við getum nefnt Brynju. Í frumvarpinu er líka rætt um að húsnæðissamvinnufélög, sem við afgreiddum ágætt frumvarp um fyrr á þessu þingi, geti komið inn á sama hátt og fengið stofnframlag og unnið með sveitarfélögum. Ég tel ástæðu til að nefna þetta vegna þess að þetta mun skipta máli.

Ég vara líka við of mikilli bjartsýni, virðulegur forseti, vegna þess að það er ekkert að fara að gerast í dag eða á morgun. En hér er komin heimild fyrir sveitarfélög og ríki til þess að veita 30% stofnframlag til félaga sem vilja fara inn á þennan vettvang og byggja húsnæði sem uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru og uppfyllir þau viðmið sem við höfum sett fyrir þá sem þar eiga að búa.

Það verður samt að viðurkennast, virðulegur forseti, að þetta nýyrði sem til varð, heildarskilgreiningin, að hér yrði til eitthvað sem héti húsnæðissjálfseignarstofnun, er nú pínulítill tungubrjótur, en skammstöfunin hses, sem maður segir „háses“, er strax miklu þjálli í munni og festist vonandi frekar við þetta form. Þannig að í stað þess að segja þetta nýyrði, húsnæðissjálfseignarstofnun, segjum við einfaldlega háses og ætti það að vera þjálla og þægilegra.

Í frumvarpinu er farið inn á stjórnir, inn á fulltrúaráð, framkvæmdasjóð og annað í þeim dúr, það er af hinu góða. Inn í þetta var sett ákvæði um kynjahlutfall í félagsstjórn. Það er dálítið merkilegt, virðulegur forseti, að við skulum enn þá þurfa að hafa það á oddinum þegar við skoðum frumvörp að kynjahlutfallið eigi að vera 40/60 og helst 50/50, þegar það er alveg skýrt í lögum hvernig stjórnir eigi að vera skipaðar, og að við þurfum samt að setja það inn sérstaklega vegna þess að það er ekki tiltekið. Það er algjörlega ljóst, virðulegur forseti, að á meðan það er ekki tiltekið þá er ekki tekið tillit til kynja.

Það er líka vert að nefna að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í fulltrúaráðinu sitji fulltrúar þeirra sem búa í húsnæðinu. Ég held að það sé vel. Síðan eru hér ýmiss konar tilmæli um það hvernig stjórn og fulltrúaráð eiga að starfa og hverjir megi verða framkvæmdastjórar o.s.frv., og ég held að það sé allt af hinu góða.

Virðulegur forseti. Varðandi þá breytingu sem gerð er hér um áfangaskiptinguna í 19. gr. eins og hún var í frumvarpinu um ákvörðun leigufjárhæðar, þá skiptir afar miklu máli að hses geti horft á sínar eignir hvar svo sem þær eru staðsettar, segjum á höfuðborgarsvæðinu, hvort sem er á Grandanum eða í Miðbænum eða Austurbænum eða hvar sem er, og leigufjárhæðin sé sú sama og hægt sé að færa þetta til, þannig að þegar byggt er nýtt hús á einhverjum sérstökum stað þá verði leigufjárhæðin hærri. Ég tel þetta afar mikilvægt, virðulegur forseti, ef meginmarkmiðin sem sett eru fram í markmiðssetningu frumvarpsins eiga að nást fram. Kerfið er fyrir þá sem eru tekjulægri og þá þarf að vera jöfn leigugreiðsla og ekki ójafnvægi á milli leigufjárhæða eftir því hvar íbúðin er staðsett. Ég tek dæmi af höfuðborgarsvæðinu þar sem þekkt er að leiguverð á einum stað er hærra en á öðrum. Við hugsum þetta frumvarp ekki þannig að íbúðir af þessum toga fyrir tekjulægri verði á einhverjum sérstökum stöðum. Það á að dreifa þeim vítt og breitt um bæjarfélögin hvar svo sem þau eru staðsett á landinu.

Þá komum við að öðru sem líka hefur verið gert að umtalsefni og ég fyrir mitt leyti gat ekki fallist á. Ég vil þakka samnefndarmönnum mínum fyrir að taka þátt í þeirri breytingartillögu sem hér er gerð og tengist leigufjárhæð. Þegar maður fer inn í húsnæði sem hér er verið að ræða um eru sett ákveðin tekju- og eignaviðmið og út frá því er leigufjárhæðin ákveðin. Síðar ef einstaklingurinn kemst í hærri tekjuhóp, fær umtalsvert hærri tekjur en inngangan í kerfið segir til um, var uppi sú hugsun að viðkomandi ætti að geta búið í íbúðinni ef hann kysi svo án þess að leigufjárhæðin hækkaði. Í mínum huga var þá forsendan fyrir því sem stóð í markmiðssetningunni í upphafi brostin, að kerfið væri byggt fyrir þá sem væru tekjulægri. Því er komin inn breyting og ég þakka enn og aftur samnefndarmönnum mínum fyrir og það er dæmi um þá málamiðlun sem nefndarmenn komust að í vinnu við frumvarpið og gerir að verkum að við afgreiðum það út. Nefndin leggur til í 19. gr. að hækki tekjur viðkomandi einstaklings og umframtekju- og eignamörk eru samfelld í um þrjú ár, hafi ráðherra heimild til að reikna álag á leigu. Ég held að þetta sé ágætismálamiðlun. Menn hafa talað um að þetta kallist félagsleg blöndun. Það er fínt ef við getum almennt veitt því brautargengi með einum eða öðrum hætti, en að þeir sem hærri hafa tekjurnar borgi þar af leiðandi hærra verð.

Virðulegur forseti. Það skiptir líka máli að nefna varðandi þá sem ætla í átak af þeim toga sem hér er, í samvinnu við sveitarfélög og ríki, að fyrir verður að liggja samþykki sveitarfélagsins fyrir sínum 12% áður en ríkið veitir samþykki sitt fyrir sínum 18%, svo það sé ljóst. Ríkið getur aldrei eitt og sér ákveðið 18% framlag ef sveitarfélögin gera það ekki. Grundvöllurinn er að sveitarfélögin samþykki fyrst og ríkið kemur þar á eftir. Hins vegar verður það þannig að þegar umsóknir um framlag til ríkisins berast, og í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður annist þær umsóknir, þarf að sjálfsögðu að meta áður en framlag ríkisins er veitt hvar mesta þörfin er fyrir uppbyggingu slíkra íbúða og afgreiða ríkisframlagið, stofnframlagið, með það að leiðarljósi. Þetta verður aldrei þannig að manni detti bara í hug að það væri gott að gera þetta, án þess að fyrir liggi mat um hvar þörfin er brýnust fyrir fjármagnið.

Ég tel líka ástæðu til að nefna það sem aðrir hafa nefnt að í frumvarpinu og þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir eru tillögur um 4% aukastofnframlag og allt upp í 6% aukastofnframlag þegar kemur að ákveðnum þáttum eins og íbúðum fyrir námsmenn og öryrkja og þeim svæðum þar sem er mikil eftirspurn eftir húsnæði, en fáir leggja í að byggja vegna þess sérkennilega ástands sem ríkir á fasteignamarkaði vítt og breitt um landið þar sem byggingarkostnaðurinn er miklu hærri en sem nemur í raun endursölu slíks húsnæðis. Ég held að þar sé byggðasjónarmiðið vel varið og það muni skipta máli.

Það var líka vel til fundið og gott og í raun grundvallarbreyting á afstöðu ríkisins, eða kannski ekki grundvallarbreyting, varðandi stofnframlögin sem eiga að vera endurkræf eða sem heimilt er að krefjast endurgreiðslu á, að ríkið fyrir sitt leyti féllst á að 18% framlagið yrði greitt í Húsnæðismálasjóð í stað ríkissjóðs til þess að auka sjálfbærni sjóðsins hið fyrsta. Þá munu sveitarfélögin hugsanlega velta fyrir sér þegar kemur að endurgreiðslu stofnframlags hvernig þau fara með þá ósk eða þá beiðni.

Ég ætla að láta hjá líða í augnablikinu og í þessari ræðu, virðulegur forseti, mun sjálfsagt koma að því þegar við ræðum frumvarpið við 3. umr., að ræða það ítarlega, en fram hefur komið athugasemd frá Alþýðusambandi Íslands þess eðlis að ef sveitarfélögin eignfæra stofnframlagið sem og ríkið eignfæri stofnframlagið, þá sé ekki hægt að eignfæra það í hses ef við getum kallað það svo, og þá verður kannski erfiðara fyrir það fyrirtæki að sækja sér lán á góðum kjörum. Ég vil taka undir það, virðulegur forseti, þótt ég sé ekki þar með að segja að ég ætli að fallast á þessa athugasemd Alþýðusambands Íslands, að nefndin taki málið inn á milli 2. og 3. umr. og skoði þetta. Grundvallaratriðið hér og nú er að frumvarpið, með þeim breytingum sem hafa verið gerðar á því, nái fram að ganga og verði að lögum og hægt sé að fara að vinna eftir því. Þess vegna þarf að útkljá og skoða þessa athugasemd frá ASÍ sem, virðulegur forseti, kemur reyndar frekar seint. Hér hefur verið rætt um að þetta frumvarp hefði nú átt að koma fram fyrir fjórum árum og jafnvel fimm árum eða guð má vita hvenær, og svo þegar búið er að prenta nefndarálitið þá kemur þessi athugasemd ASÍ á síðustu metrunum um eignfært stofnframlag sveitarfélaga og ríkis. En við munum skoða það.

Virðulegur forseti. Menn hafa í umræðunni í dag meira að segja leyft sér að ræða það að þetta eða hitt sé hinum eða þessum að þakka, á ég ekki við hv. nefndarmenn, og þetta frumvarp verði að lögum fyrir tilstilli stjórnarandstöðunnar. Með fullri virðingu fyrir frábærum samherjum í velferðarnefnd í stjórnarandstöðunni, þá er sú umræða að við stjórnarliðar — því þessum spjótum hefur oftar en ekki verið beint að Sjálfstæðisflokknum og fulltrúum hans í nefndinni — höfum ekki unnið af heilindum í þessu verkefni og viljað koma í veg fyrir það, alger fjarstæða. Sú staða að frumvarpið er fram komið með þeim breytingartillögum sem hér eru er vegna samvinnu nefndarmanna í velferðarnefnd. Ég vil leyfa mér að segja eins og hv. 4. þm. — nei, nú ætla ég ekki að segja það, virðulegur forseti, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, að ég ætla að vera bara örlítið ánægð með að hafa tekið þátt í að vinna þetta verkefni í því formi sem við í velferðarnefnd skilum hér inn.