145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga frá félagsmálaráðherra um almennar íbúðir. Frumvarpið var hluti af samningum á almennum vinnumarkaði síðastliðið haust og var einn mikilvægasti þátturinn í lúkningu þeirra samninga.

Eins og fram hefur komið í máli margra þingmanna hefur ríkt mikil eindrægni við að ljúka gerð frumvarpsins og margar góðar ræður hafa verið fluttar og farið djúpt í málið. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem hér hefur verið sagt, en mér finnst að markmið og gildissvið þessara laga, sem kemur fram í 1. gr., megi ítreka aðeins betur.

„Markmið laga þessara er að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi íbúðarhúsnæði til leigu og tryggja að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda. Í því skyni skulu ríki og sveitarfélög veita stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda, þ.m.t. fyrir námsmenn, ungt fólk, aldraða, fatlað fólk og fólk sem ekki er fært um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna eða verulegs fjárhagsvanda.“

Minn skilningur er sá að við náum markmiðum og gildum í þessu frumvarpi, sem var náttúrlega megininntakið, og svörum þeim óskum sem fram komu í starfi 32 manna nefndar sem hafði fjallað um málið í langan tíma áður en frumvarpið varð til. Það kom síðar í ljós að nefndin þurfti nánast að endurskrifa frumvarpið, eins og hér hefur komið fram, og þá kom líka í ljós þessi eindregni vilji til að klára málið.

Frumvarpið miðast fyrst og fremst við einstaklinga, fjölskyldur, sem hafa tekjur og eignir undir ákveðnum mörkum. Þar eru sem sagt tekjur einstaklinga undir 4,3 millj. kr. og hjóna undir 6 millj. kr. á ári og hreinar eignir verða að vera minni en 4,7 millj. kr.

Helstu atriði frumvarpsins, sem mig langar þó að drepa á í stuttri ræðu, eru að mínu mati þau að grundvöllur þessara laga eru stofnframlög ríkisins og sveitarfélaganna upp á 30% samtals, eða 18% frá ríkinu og 12% frá sveitarfélögunum, sem eru afturkræf, reyndar ekki fyrr en eftir að búið er að greiða upp lánin af íbúðunum sem við gerum ráð fyrir að verði til 50 ára. Stofnframlögin verða þá endurgreidd eftir 50 ár vaxtalaust.

Reyndar fer framlag ríkisins í Húsnæðismálasjóð, sem þá mun halda áfram að vaxa og dafna, vegna þess að við erum að vona að hér sé það traust og gott kerfi í smíðum að til langrar framtíðar verði það sjálfbært; það er von okkar allra að svo verði. Þess vegna var til þess vandað.

Það kemur líka fram að eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins er skilgreiningin á hámarki leigunnar sem er 20–25% af tekjum þeirra sem þarna búa. Í mörgum tilfellum eru það ekki háar tekjur þannig að leigan getur verið á bilinu 50–80 þús. kr. á mánuði. Þess vegna eru stofnframlögin afar mikilvæg til að tryggja rekstur félaga og getu til að standa undir kostnaði við byggingar og rekstur með svo lágri leigu.

Það kom því í ljós að 50 ára lánstími var nauðsynlegur í staðinn fyrir, ef ég man rétt, 30 ára lánstíma sem gert var ráð fyrir í fyrstu drögum frumvarpsins. Þar nutum við leiðsagnar fulltrúa frá Félagsstofnun stúdenta og Félagsíbúðum, sem höfðu mikla reynslu í þessu máli, og þeim verður seint þakkað fyrir þeirra góða framlag. Þeir komu í nokkur skipti til nefndarinnar og báru með sér svolítið vit inn í vinnuna, og var það vel þegið.

Síðan hefur komið í ljós í meðförum málsins, eins og hér hefur rækilega verið minnt á, að í sérstökum tilfellum er heimilt að sveitarfélögin leggi til 4 prósentustiga viðbótarframlag og ríkið, í gegnum Íbúðalánasjóð, 6 prósentustiga óafturkræft framlag til viðbótar til að byggja íbúðir fyrir námsmenn og öryrkja. Það er afar mikilvægt skref og að mínu viti gæti þetta nýst mjög vel á landsbyggðinni þar sem aðstæður eru oft og tíðum sérstakar. Víða hefur ekki verið byggt í langan tíma og ég veit að beðið er eftir samþykkt þessa frumvarps svo að framkvæmdir geti hafist.

Það er líka einn góður kostur við þetta frumvarp, sem við lögðum mikla áherslu á í nefndinni, að enginn afsláttur er gefinn af gæðum íbúðanna, svo að fólk geti búið þarna langa ævi, fram á ævikvöldið, og notið þess að búa í húsnæði sem því líkar við og í umhverfi sem það er sátt og ánægt með. Jafnvel þó að fólk fari á þeim tíma yfir það hámarkstekjumark sem sett er í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að á þriggja ára tímabili verði leigan hækkuð hóflega. Það er gert til að tryggja að þeir einstaklingar sem vilja búa í þessu umhverfi og á þessum stöðum, eru væntanlega glaðir og ánægðir þar, geti gert það áfram þrátt fyrir að tekjuviðmiðið fari upp fyrir ákveðin mörk. Okkur fannst gríðarlega mikilvægt að það væri tryggt.

Að þessu sögðu, þessum stuttu punktum sem ég fer yfir, finnst mér að við séum að leggja drög að góðu kerfi til framtíðar. Ég trúi því. Ég reikna með að þegar þetta verður komið í gang verði alltaf hægt að bæta það, annaðhvort með því að leggja inn í það aukið fjármagn eða bæta það á annan hátt.

Ég held því að við séum að leggja upp með góða vinnu sem náðist, eins og hér hefur margsinnis komið fram, í þverpólitískri sátt. Ég vil enn og aftur undirstrika það sem hér hefur verið sagt um það, það er í raun alveg kostulegt hvernig fjölmiðlar hafa nánast í allan vetur margsagt frá því að þetta frumvarp væri ekki að ná fram að ganga vegna óeiningar í þinginu og vegna óeiningar milli stjórnarflokkanna og óeiningar milli meiri og minni hluta. Þetta er allt saman kjaftæði. Þessi óeining og þessi ófriður hefur aldrei verið til staðar.

Við höfum vissulega þurft að fara vel yfir þetta frumvarp. Við höfum þurft að endurskrifa margar greinar þess. En það var allt gert í gríðarlegri sátt, eins og hér hefur komið fram, hjá öllum fulltrúum allra flokka. Það er eins og fjölmiðlar hafi bara ekki þolað að um þetta mál ríkti ekki ófriður; það er eins og það megi ekki ríkja friður um eitt einasta mál í þinginu.

Hér var algjör friður um þetta mál og við erum að skila góðri vinnu. Ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að fólk ætti að hafa í huga að oft sé unnið vel og lengi í þinginu. Ég hef líka margoft sagt það við fólk sem hefur heyrt ýmislegt um þingið að hér sé vel unnið og að allir séu að leggja sig fram um að gera sitt besta á þessum vinnustað.

Ég get ekki látið hjá líða að þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, fyrir hennar forustu í þessu máli og framsögumanninum, hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur, fyrir gríðarlega mikla vinnu sem hún lagði á sig í þessu starfi. Það var eiginlega önnur vinna að vera með þetta mál á sinni könnu. Hún gerði það af miklum dugnaði og mikilli elju og áhuga fyrir málinu. Ég vil þakka henni fyrir hennar framlag í þessu verkefni.

Ég er ekki þannig persóna að ég sé mikill, eins og sagt er á vondri íslensku, „nitty gritty“ maður — ég göslast frekar áfram og klára málin fljótt og ákveðið. En þetta mál þurfti virkilega yfirlegu og ég var oft bæði undrandi og glaður yfir að horfa á og fylgjast með samstarfsfólki mínu í nefndinni. Vil ég þá sérstaklega nefna hv. þm. Steingrím J. Sigfússon og hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir þeirra mikla framlag. Það var gaman að hlusta á þau, hvað þau höfðu lagt sig mikið fram um að vanda til verka.

Það er gaman, þegar við erum komnir í höfn með málið, að horfa til baka og sjá hvað þetta var vel gert þó að ég sjálfur hafi kannski ekki átt stærsta þáttinn í því eins og ég sagði hér áðan. En það var lærdómsríkt að vera háseti á þeim bát sem kom með þennan afla í land. Það er alveg klárt. Það var lærdómsríkt fyrir mig. Það var líka gaman að starfa með ritara nefndarinnar, Gunnlaugi Helgasyni, sem er gríðarlega öflugur, tiltölulega nýr liðsmaður í okkar hópi á þinginu; að fylgjast með þeim unga lögfræðingi, hvað hann var ráðagóður í öllu starfi nefndarinnar og lagði margt gott til. Hann eins og fleiri eiga allir þakkir skildar.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál mitt lengra að svo komnu máli. Ég tel að með þessu frumvarpi séum við að stíga gott skref til framtíðar fyrir þennan hóp sem við erum að tryggja leiguhúsnæði á hóflegu verði. Við ætlum að halda áfram á sömu braut, klára þau verkefni sem við erum með og klára lög um húsnæðisbætur. Þá munum við loka þessum hring og standa við það sem við lofuðum í sátt.