145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

almennar íbúðir.

435. mál
[14:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég held að þetta sé mjög merkilegt frumvarp og mjög merkileg lagasetning sem við erum í miðju kafi við að fara yfir. Hún hefur tekið tíma og eftir því sem okkur er sagt sem ekki störfum í velferðarnefndinni þá hefur farið fram mjög mikil vinna þar. Það má reyndar sjá á breytingartillögum sem fylgja frumvarpinu að nefndin hefur breytt frumvarpinu allnokkuð frá því að það var lagt fram. Það er svo sem ekki nema eðlilegt og nefndarmenn segja okkur að almennt hafi verið góður samvinnuandi í nefndinni og þau hafi lagt mikið upp úr því að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Það er ánægjulegt. Því miður er það svo að fréttaflutningur af Alþingi gengur oft út á það að hér sé allt í óeiningu og upphlaupum og veseni, en sú er ekki raunin því að þegar við fáum inn á okkar borð mál sem við getum sameinast um reynum við allt sem hægt er til að gera það.

Síðan eru önnur mál sem eðli samkvæmt skipta okkur í ólíka stjórnmálaflokka og þá erum við náttúrlega ekki sammála. Það þýðir ekki að alltaf sé hver höndin upp á móti annarri í þessum húsakynnum. Það er eðlilegt að fólk úr hinum ýmsu stjórnmálaflokkum greini á. Okkur greinir t.d. á um það hvernig best sé að leggja á skatta, hver besta aðferðin sé til þess að leggja á skatta. Við í Samfylkingunni tölum mjög fyrir þrepaskiptum tekjuskatti vegna þess að við teljum að hann skili mestum og bestum árangri í því að jafna lífskjör fólks í landinu, aðrir eru á annarri skoðun, en þegar að því kemur tökumst við á um það. Við erum hins vegar öll sammála um það, og ekki bara hér heldur er allt fólk sammála um það, að almennilegt húsnæði fyrir alla sé ein af þeim grunnþörfum fólks og okkur ber að reyna að koma málum þannig fyrir að allir geti búið í góðu húsnæði.

Fólk getur greint á um aðferðina til að gera það. Það hefur gerst í þessari vinnu, fólk hefur greint á um hvaða aðferð sé best til að ná á þessu markmiði. En nefndin hefur komist að niðurstöðu og birtir hér nefndarálit með allnokkrum breytingartillögum. Að vísu mun eitthvað standa út af enn þá, þess vegna segir nefndin að hún þurfi að taka málið aftur til sín eftir 2. umr. Það er heldur ekki óeðlilegt, þótt menn geri stundum mikið úr því og láti í það skína að það sé merki um óeiningu þegar mál þurfa að fara aftur til nefndar eftir 2. umr. Það er einmitt þess vegna sem þingstörfin eru ákveðin þannig að þegar stór mál eru til umræðu, eins og þetta, hefur nefndin tækifæri eftir 2. umr., sem er stærsta umræðan í þinginu, til að gera lagfæringar sem hún telur skipta máli.

Ég segi þetta vegna þess að fréttaflutningur af störfum þingsins fer í taugarnar á mér, það að þeir sem flytja fréttir héðan skuli alltaf leggja miklu meira upp úr ágreiningi en því þegar menn leggja sig fram, eins og hefur verið gert í þessari vinnu, um að ná samstöðu í stórum og mikilvægum málum.

Í þessu frumvarpi er markmiðið að koma upp kerfi þar sem verður til leið og leigumarkaður og ríkið og sveitarfélögin leggja þeim leigumarkaði lið. Markmiðið er að fólk geti leigt góðar íbúðir og leigan verði ekki yfir 20–25% af tekjum einstaklinga. Þetta skiptir verulega miklu máli, virðulegi forseti.

Síðan eru tæknilegar útfærslur á ýmsum hlutum eins og vera þarf með frumvarpi af þessu tagi. Það er séð til þess að myndaður sé sérstakur viðhaldssjóður og að lagðir verði peningar í hann, sem er ekki vanþörf á, við þekkjum það öll. Ég vil taka sem dæmi að því miður er það ljóður á öllum fasteignum sem ríkið rekur hvað þeim er illa viðhaldið og hvernig opinberar byggingar sem eru í eigu okkar allra eru oft látnar drabbast niður. En hérna er séð til þess að stofnaður verði sérstakur viðhaldssjóður sem á að koma í veg fyrir að íbúðir drabbist niður. Það tel ég góða fyrirhyggju.

Ég vil líka nefna það sem hér er um að hægt sé að færa leigu á milli, litið er á húsnæðisfélög sem stofnuð eru sem eina heild. Auðvitað er búið að greiða meira niður af eldri íbúðum og þá segja menn þegar byggðar eru nýjar íbúðir að það séu dýrar íbúðir og þess vegna ætti leigan á nýrri íbúðum hugsanlega að vera hærri en á gömlu íbúðunum. Ég er alveg ósammála því. Ég er sammála því sem er gert í frumvarpinu, að þarna sé hægt að færa á milli áfanga. Það hlýtur líka að þýða með viðhaldssjóðnum að eldri íbúðirnar verði gerðar upp og þá verður ekki svo mikill gæðamunur á eldri og nýrri íbúðum. Ég held að þetta hafi verið kallað í vinnu nefndarinnar áfangaskipti í byggingu þessara íbúða og ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að það sem lagt er til í frumvarpinu sé kostur.

Það er eitt sem menn geta sagt að sé smáatriði og skipti ekki meginmáli í vinnu af þessari tegund en ég rak augun í það þegar ég fór yfir þetta í gærkvöldi og í morgun að gerð er breytingartillaga í frumvarpinu um heitið á frumvarpinu, um heitið á þessum íbúðum. Í stjórnarfrumvarpinu er talað um almennar íbúðir en allt í einu er farið að tala um félagsíbúðir. Ég hugsaði með mér hvort það skipti máli hvort við tölum um almennar íbúðir eða félagsíbúðir og ég held að það skipti máli, vegna þess að við erum bara að tala um íbúðir. Við erum að tala um leiguíbúðir og ég skil ekki af hverju þarf að setja það heiti á þær að þetta séu félagsíbúðir vegna þess að ríki og sveitarfélög veita styrki til byggingar þessara íbúða. Mér finnst þetta skringilegt. Þegar ég heyrði fyrst af því að ágreiningur væri um þessa nafngift fannst mér sá ágreiningur frekar lítilfjörlegur en ég hef skipt um skoðun í því efni, mér finnst þetta skipta máli og mér finnst asnalegt að gefa þessum íbúðum sérstak nafn.

Virðulegi forseti. Ég vil líka lýsa ánægju minni með það sem ég hef heyrt frá nefndarmönnum og þeim sem fylgjast með málinu utan frá. Þegar frumvarpið kom fyrst inn heyrðum við af því að hjá Félagsstofnun stúdenta og Félagsbústöðum, sem eru í Reykjavík, hefðu menn áhyggjur af frumvarpinu og því að starfsemi þeirra, ef má orða það svo, rúmaðist illa innan þess, en því hefur verið breytt og menn una nú vel við frumvarpið eins og það er lagt fram hjá bæði Félagsbústöðum og Félagsstofnun stúdenta. Ég held að það skipti verulega miklu máli að við setjum ekki lög sem skemma fyrir eða gerir starfsemi sem gengur vel og hefur blómstrað erfitt fyrir. Mér finnst því ánægjulegt að náðst hefur samkomulag um þetta.

Ég held að á sama tíma og við erum öll sammála um þetta þá gerist það oft að við verðum alveg ótrúlega meðvirk. Annars vegar er svo gaman saman hjá okkur en hins vegar er hver höndin upp á móti annarri. Ég held að við þurfum að læra af því, sem við gerum alltaf, t.d. í tilfelli þessa frumvarps. Nú eru þrjú ár liðin af þessu kjörtímabili. Á síðasta kjörtímabili var mikið unnið í þessum málum, mjög mikið. Í stað þess að halda áfram með vinnuna þá var, eftir því sem ég hef best fylgst með, eiginlega byrjað alveg upp á nýtt, byrjað frá grunni, eins og lítil vinna hefði átt sér stað. Mér finnst að við þurfum að læra að halda áfram með þau verk sem unnin hafa verið. Við eigum von á því að það verði kosningar hér í haust og þá tekur við nýtt kjörtímabil og þá tekur við ný ríkisstjórn. Mér finnst að við eigum að heita sjálfum okkur því að í málum sem mikið hefur verið unnið í, nú eru t.d. önnur húsnæðisfrumvörp sem eru ekki jafn langt komin og þetta og segjum að þau komist ekki áfram, ég vil skora á þá sem taka við eftir næstu kosningar að halda áfram með þá vinnu sem hefur verið unnin, alveg eins og með vinnu sem hefur verið unnin í heilbrigðismálum og svona. Við eigum ekki að stunda það, sem hefur því miður mikið verið gert, að henda vinnu sem unnin hefur verið, þótt við höfum ekki sjálf, hvert og einstakt, verið með puttana í henni.

Ég vil líka nefna það sem ég sagði í störfum þingsins áðan að það er undarlegt hvernig mál raðast á dagskrá þingsins. Eitt sem þarf að taka til mjög gagngerrar endurskoðunar er að nefndarálitinu sem kom frá þessari nefnd, eftir þá miklu vinnu sem fólk vann þar, og menn hafa hrósað hver öðrum hér í hástert og ég geri það líka, skuli hafa verið útbýtt rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi eða alla vega eftir kl. átta. Það er ekki góður bragur á því, virðulegi forseti. Við verðum að heita sjálfum okkur því að láta af vinnubrögðum af því tagi.

Mér skilst að ég sé síðasti ræðumaður til að tala hér í dag um þetta mál, fyrir utan að framsögumaður talar væntanlega aftur. Það er nokkuð undarlegt vegna þess að þetta er mikið mál sem skiptir okkur öll miklu máli og skiptir kjósendur okkar máli og er mikill áfangi í vinnu sem unnin hefur verið. En af hverju er það, virðulegi forseti? Það er vegna þess að við hérna inni erum bara manneskjur. Það sést á því hvað maður getur farið djúpt í málin og það sést á þeirri ræðu sem ég held núna að ég hef ekki haft þann tíma sem þarf til að lesa nefndarálit og fara djúpt í þau mál sem skipta máli. Ég ákvað hins vegar að koma upp til að segja að ég fagna því að þessum áfanga er náð. Ég fagna þeirri vinnu sem unnin hefur verið og vonast til að þetta mál nái í höfn því að það skiptir miklu máli. Við þurfum líka að átta okkur á því að það er ekki þannig ef frumvarpið verður samþykkt að það verði til nýtt kerfi, það tekur náttúrlega tíma að byggja það upp og það þarf að komast í gang og svoleiðis.

Virðulegi forseti. Þetta var það sem ég vildi sagt hafa. Ég fagna því að málið er komið svo langt sem það er en tel að við getum lært ýmislegt af framgangi þess og lofað sjálfum okkur bót og betrun í vinnubrögðum á Alþingi Íslendinga.