145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

Rómarsamþykktin um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði.

687. mál
[15:07]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti utanríkismálanefndar um tillögu til þingsályktunar um fullgildingu breytinga á Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Matthías G. Pálsson frá utanríkisráðuneyti og Þórdísi Ingadóttur frá lagadeild Háskólans í Reykjavík. Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda fyrir Íslands hönd breytingar á Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn viðvíkjandi glæpum gegn friði sem samþykktar voru á endurskoðunarráðstefnu Rómarsamþykktarinnar í Kampala í Úganda 11. júní 2010. Dómstóllinn hefur það hlutverk að dæma í málum einstaklinga sem grunaðir eru um alvarlegustu glæpi gegn mannkyninu, þ.e. hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði.

Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur haft lögsögu yfir glæpum gegn friði en hefur ekki getað beitt lögsögu sinni að þessu leyti þar sem aðildarríkin skilgreindu ekki slíka glæpi fyrr en með umræddum breytingum á Rómarsamþykktinni. Þær fela í sér að glæpir gegn friði verða skilgreindir og því verður hægt að saksækja einstaklinga fyrir glæpi af þessu tagi þegar breytingarnar taka gildi.

Breytingarnar á Rómarsamþykktinni taka gildi í fyrsta lagi 1. janúar 2017 eftir að a.m.k. 30 ríki hafa fullgilt breytingarnar. Nú þegar hafa 28 ríki fullgilt breytingarnar. Fyrir nefndinni kom fram að til viðbótar þeim hafa 29 ríki hafið fullgildingarferlið og er Ísland í þeirra hópi með framlagningu tillögu þessarar. Átta ríki eru svo á byrjunarstigi og hafa nýlega hafið fullgildingarferlið. Ljóst er því að málið hefur mikinn meðbyr á alþjóðavísu.

Nefndin áréttar að Ísland hefur frá upphafi skipað sér í hóp vestrænna ríkja sem styðja dyggilega við starf Alþjóðlega sakamáladómstólsins og varð m.a. tíunda ríkið til að fullgilda Rómarsamþykktina sjálfa. Dómstóllinn gegnir mikilvægu hlutverki við vernd mannréttinda og að stuðla að friði í heiminum. Nefndin leggur áherslu á að Ísland taki skýra afstöðu í þessu máli og verði eitt af þeim ríkjum sem tryggja að breytingarnar nái fram að ganga með því að samþykkja fullgildingu breytinganna sem fyrst.

Fyrir nefndinni kom fram að í ljósi þess að glæpir gegn friði eru ekki sérstakt afbrot samkvæmt íslenskum rétti kallar fullgilding breytinganna á lagabreytingar. Telur nefndin mikilvægt að frumvarpsvinnu vegna þessa verði flýtt eins og kostur er og hefur fengið þær upplýsingar að vinna sé hafin við gerð frumvarps í innanríkisráðuneytinu.

Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Sú sem hér stendur var fjarverandi við afgreiðslu málsins en ritar undir álitið og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir, áheyrnarfulltrúi Pírata, lýsti sig samþykka áliti þessu. Undir álitið rita Hanna Birna Kristjánsdóttir, hv. formaður utanríkismálanefndar, Silja Dögg Gunnarsdóttir, sú sem hér stendur, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Karl Garðarsson, Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson.