145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2016.

640. mál
[15:12]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2016.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Matthías G. Pálsson frá utanríkisráðuneyti og Jóhann Guðmundsson og Baldur P. Erlingsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á samningi milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2016 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 22. og 31. desember 2015. Samningurinn kveður á um heimildir aðila til veiða á uppsjávarfiski í lögsögu hvor annars á árinu 2016.

Í athugasemdum við tillöguna kemur fram að samningurinn geri ráð fyrir gagnkvæmri heimild skipa hvors aðila til veiða á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan lögsögu hins á árinu 2016. Íslenskum skipum eru heimilar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld annarri en norsk-íslenskri innan færeyskrar lögsögu á árinu 2016.

Áður en samningur þessi var gerður var á grundvelli samnings landanna frá 1976 um heimildir Færeyinga til veiða í lögsögu Íslands ákveðið að færeyskum skipum væri heimilt að veiða 5.600 lestir af botnfiski við Ísland árið 2016. Heildarafli þorsks verður þó samkvæmt samningi þessum ekki meiri en 1.900 lestir, heildarafli keilu ekki meiri en 650 lestir og engar veiðar eru heimilaðar á lúðu eða grálúðu. Á fundi nefndarinnar kom fram að þarna er um nokkra aukningu að ræða á heildarafla þorsks sem Færeyingum er heimilt að veiða í lögsögu Íslands en árið 2015 nam heildarafli þorsks ekki meira en 1.375 lestum og heildarafli keilu ekki nema 750 lestum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt. Silja Dögg Gunnarsdóttir, Karl Garðarsson og Össur Skarphéðinsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en rita undir álit þetta samkvæmt heimild. Undir nefndarálitið rita hv. formaður utanríkismálanefndar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, sú sem hér stendur, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson, Karl Garðarsson, Óttarr Proppé, Steinunn Þóra Árnadóttir og Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson ritar undir álitið með fyrirvara.