145. löggjafarþing — 110. fundur,  12. maí 2016.

lyfjalög.

677. mál
[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni brýninguna og tek undir það með hv. þingmanni úr þessum ræðustól að þetta er gríðarlega mikilvægt mál. Þetta er óhemjustór og mikill málaflokkur sem oft og tíðum fær ekki mikla athygli að því leytinu til sem snýr að regluverkinu og meðferð málanna heldur miklu fremur því sem snertir sjúklinga beint, þ.e. aðgengi að lyfjum og greiðslur fyrir þau. Ég fagna heils hugar þeirri brýningu sem hv. þingmaður setur fram um að menn vandi til verka. Það er að mörgu að hyggja og sú nefnd sem að þessum málum hefur unnið í rúmt ár hefur lagt sig fram um að draga inn í vinnu sína og frumvarpssmíðina eins mörg og ólík sjónarmið og framast er unnt. Ég leyfi mér að fullyrða að í vinnu nefndarinnar hefur þetta tekist með ágætum en að sjálfsögðu tel ég að við úrvinnslu velferðarnefndar á þessu frumvarpi eigi að hafa í hávegum þá kröfu að kalla að borðinu alla hugsanlega hagaðila, eins og rætt er um, sem kunna að hafa aðra sýn til þessa en birtist í frumvarpsdrögunum. Það verður þá nefndarinnar að vinna úr þeim athugasemdum sem þarna koma fram.

Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hefði eins og hv. þingmaður kosið að fleiri tækju þátt í umræðunni en held þó að innihaldið og gæðin í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar skáki því þá og komi í stað þess að margir tækju til máls. Ég verð að treysta því, og treysti því sömuleiðis að hv. þingmaður muni í ljósi þekkingar sinnar og reynslu fylgja því eftir með hvaða hætti velferðarnefnd vinni úr því frumvarpi sem hér er lagt fram.