145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

stefna stjórnvalda í raforkusölu.

[13:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna umræðu um stöðu orkumarkaða á Íslandi og eftir atvikum starfsemi Landsvirkjunar. Þetta er afskaplega brýn og mikilvæg umræða á hverjum tíma vegna þess að um er að ræða eina af meginstoðum hagkerfisins.

Sumar fullyrðingar hv. þingmanns eru þannig að ég get samsinnt þeim, t.d. þeirri að Norðurál hafi, í samanburði við önnur stóriðjuver á Íslandi, á þessum síðari hluta samningsins notið hagstæðra kjara. En það er alltaf þannig með samninga sem gerðir eru langt fram í tímann að það er auðvelt að koma undir lok samningstímans og gagnrýna aftur í tímann. En á þeim tíma sem sá samningur var gerður er alveg augljóst að það stóðu ekki margir í biðröð fyrir utan Landsvirkjun eftir að kaupa orku. Það verður að skoða svona langtímasamninga með hliðsjón af því.

Ég fagna því að Landsvirkjun nái hagstæðari samningum þegar horft er á langtímahagsmuni fyrirtækisins og treysti stjórn og stjórnendum mjög vel til þess að halda utan um þá hagsmuni sem ríkið hefur þarna. Þetta er ein verðmætasta eign ríkisins.

Spurningarnar sem við eigum að hafa uppi varðandi Landsvirkjun eru til dæmis þessi hér: Er arðsemi af fjárfestingum Landsvirkjunar? Hér er spurt: Hversu miklum tekjum höfum við orðið af vegna lægra raforkuverðs en hefði þurft að vera? Ég held að þetta sé eiginlega ótæk spurning. Í fyrsta lagi höfðum við engan annan kaupanda sem við slepptum í staðinn fyrir þann sem við fengum. Hérna er komið ágætisdæmi um það að við eigum að bera saman þann ávinning sem við höfum haft af þessum samningi við það að hafa ekki gert neitt, hafa ekki virkjað, hafa ekki selt neina raforku, (Forseti hringir.) vegna þess að þetta er vatn sem hefði ella bara runnið til sjávar. Svarið við umræddri spurningu er: (Forseti hringir.) Það birtist í eiginfjárstöðu Landsvirkjunar sem er komin með eigið fé upp á rúma 200 milljarða.