145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

stefna stjórnvalda í raforkusölu.

[13:40]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þeir eru til — mér sýnist að hv. þingmaður sé í þeirra hópi, enda, ef ég man rétt, var hún ein þeirra sem var í hópi mótmælenda við Kárahnjúka — sem hefðu síður viljað nýta orkuna í landinu (Gripið fram í.) og kalla orkusamninga (BirgJ: … málflutningur.) sem gerðir hafa verið (Gripið fram í.) gjafa… (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)

Það er erfitt að svara fyrir sig á einni mínútu ef menn ætla stanslaust að vera að gjamma fram í. Þegar menn koma í þennan ræðustól — (Gripið fram í.) ætlar hv. þingmaður að fá svar frá mér? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.)

Hv. þingmaður er einn þeirra sem hafa verið að mótmæla virkjunarframkvæmdum í þessu landi og talar hér um langtímasamninga sem gerðir hafa verið sem einhvers konar gjafasamninga. Ég er algjörlega á öndverðri skoðun. Þegar við horfum á þann mikla ávinning sem samfélagið hefur haft af uppbyggingu raforkukerfisins, af því raforkuverði sem almenningur á Íslandi nýtur vegna þess að við höfum farið í orkuframkvæmdir og gert langtímasamninga þar sem keypt er rafmagn, (Forseti hringir.) allt rafmagn sem framleitt er, allan daginn, hvern einasta dag ársins, fá menn aðeins skýrari mynd.

En við erum í sama liðinu þegar kemur að því að fá hámarksverð fyrir rafmagnið.