145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

strandveiðar.

[13:51]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og góðar kveðjur. Strandveiðarnar — það er rétt, sett voru lög um strandveiðar 2009. Við munum eftir umræðunni sem var þá um strandveiðarnar. Menn töldu að einn af göllunum við þær væri einmitt þetta kapp sem væri í raun innbyggt í fyrirkomulagið sem hefur verið við lýði frá 2009; að menn mundu freistast til þess að sækja þau tonn sem þeir mega sækja í vondum veðrum o.s.frv.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að kerfið hefur fest sig í sessi. Það eru allir hættir, held ég, í dag að tala um að strandveiðikerfið eigi að leggja af eða að það eigi ekki að vera við lýði. Hv. þingmaður spyr hér um skiptingu milli svæða, sveigjanleika, að velja daga og ýmislegt annað. Ég lét hafa eftir mér, og ætla að sjálfsögðu að standa við það, að farið verði í að skoða þann hluta fiskveiðistjórnarlaga er lýtur að strandveiðunum einmitt út frá því að á ákveðnum svæðum, D-svæðum, sem voru í umræðunni ekki alls fyrir löngu, þyrfti helst að vera hægt að byrja fyrr til að nýta betur þær aflaheimildir sem þar eru og kannski fá verðmætasta fiskinn. Á að leyfa mönnum að velja daga? Við skulum ekkert útiloka það en ég ætla ekki að segja hér að það sé rétta leiðin.

Ég er hins vegar ekki endilega á því að auka eigi við heimildirnar í strandveiðikerfinu. Það er eitthvað sem þarf að íhuga mjög vandlega. Það má hins vegar velta því fyrir sér með strandveiðikerfið hverjir eru að veiða í því. Eru það atvinnumennirnir? Eru það hobbý-mennirnir? Var það hugsað þannig að þingmenn og lögfræðingar og eitthvað svoleiðis væru að stunda strandveiðar eða vorum við að reyna að búa til veiðar í byggðunum til þess að líf kæmi í hafnirnar, til að byggðirnar yrðu sterkari og traustari? Hver var hugsunin?

Það er alveg þess virði, eftir þessa reynslu, að setjast yfir þennan hluta af fiskveiðistjórnarkerfi okkar; og svo sem kerfið í heild, það er ekki það. Mig langar þá að upplýsa þingmenn um að ég hyggst gera það.